Norðurlandabúi mánaðarins: Margunn Indrebø Alshaikh

0
506

 

Margunn Indreboe Alshaikh

Norðurlandabúi mánaðarins að þessu sinni hefur sérstaka innsýn í tengsl Súdans og hins nýja sjálfstæða ríkis Suður-Súdans. Síðarnefnda ríkið varð 193.aðildarríki Sameinuðu þjóðanna 14.júlí 2011. Margir vonuðust til að sjálfstæði Suður-Súdans myndi marka tímamót eftir áratuga borgarastríð en tortryggnin á milli norður og suður hefur ekki horfið á einni nóttu. Norðurlandabúi mánaðarins, Margunn Indrebø Alshaikh, er norsk og starfar hjá Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNDP, í Súdan.

-Segðu okkur fyrst frá því hvers vegna þú fórst að vinna hjá UNDP og hvað í þínum bakgrunni gerði þér kleift að fá slíkt starf?

“Ég lagði stund á þróunarfræði og alþjóðastjórnmál í háskóla og því var UNDP alltaf ákjósanlegur vinnuveitandi þótt ég hafi um tíma litið hýru auga til utanríkisráðuneytisins. UNDP er ætlað að starfa á mörgum sviðum bæði að mannúðarmálum og þróun. Aðkoma mín að stofnuninni er stýring umskipta frá átökum og kreppu til enduruppbyggingar og framþróunar. Margir eru um hituna á mannúðarsviðinu og reyna að finna sér farveg, þar á meðal stofnanir Sameinuðu þjóðanna, en þetta svið er óplægðari akur. Mér finnst vera meira svigrúm fyrir nýjungar og sköpun í því sem UNDP er að fást við í því að koma í veg fyrir átök, og uppbyggingu í kjölfar átaka en á hefðbundnari sviðum eins og góðum stjórnarháttum, réttarríki og þróun.”

“Maður þarf á bæði ákveðni og seiglu að halda til þess að ná fótfestu í Sameinuðu þjóða-kerfinu þar sem mannaráðningaferli eru hægvirk og reyna á þolrifin þegar maður leitar að nýjum tækifærum.
Ég er samt fullviss um að ef maður hefur öflugan feril að baki hvað menntun og reynslu varðar, þá eigi maður raunhæfa möguleika hvað sem tengslaneti og stuðningi við aðra umsækjendur, líður. Ég er ekki viss um hvað hefur hjálpað mér í að komast að hjá UNDP en ég veit að þegar ég þarf að velja fólk til starfa lít ég á tæknilega hæfni, reynslu af störfum á vettvangi, getu til að vinna undir þrýstingi á mörgum vígstöðvum samtímis og góð meðmæli.”

-Hverjar eru þínar persónulegu skoðanir á ástandinu nú í Súdan og Suður-Súdan og hvað er hægt að gera til að bæta ástandið?
 
“Eftir margra áratuga borgarastyrjöld eru langflestir íbúanna í Suður-Súdan án lágmarksþjónustu, auk þess sem innviði og og mannvirki skortir. Það væri óraunsætt að búast við stórkostlegum breytingum í einu vetfangi. Ríkisstjórnin glímir við tröllaukin vandamál og enn ríkir óöryggi í mörgum landshlutum. Opinberi geirinn er vanmegnugur og ekki hægt að ætlast til hins sama og vanalega er hægt í þróunarmálum.  Það þarf því ekki að koma á óvart að árangur er hægur og stundum ríkir glundroði. Þrátt fyrir það, þá held ég að viljinn sé til staðar og njóti Suður-Súdan áframhaldandi stuðnings alþjóðasamfélagsins, á ríkið góða möguleika á að rísa upp og öðlast stöðugleika.”
 
“Ástandið í Súdan er dálítið öðru vísi. Í samanburði má segja að hæfnin sé til staðar en pólítiska umhverfið er í uppnámi og vaxandi óöryggi ógnar framtíðar stöðugleika landsins. Vandinn er sannarlega mikill þegar tillit er tekið til efnahagslegs samdráttar og óöryggis og átaka á jaðarsvæðum sem teygja anga sína til höfuðborgarinnar Khartoum.

Sú jákvæða þróun sem varð eftir að gengið var frá friðarsamkomulaginu hefur að mestu stöðvast og þótt rólegt sé á yfirborðinu, kraumar undir. Það er erfitt að sjá hvernig núverandi stjórn getur skapað efnahagsvöxt í kjölfar friðarsamkomulagsins enda hafa bæði olíutekjur tapast og þróunaraðstoð verið skorin niður.

-Sérðu einhverja lausn hér og nú á landamæraerjum ríkjanna tveggja?

“Súdan og Suður-Súdan hafa strandað á skeri í lausn nokkurra lykilatriða í friðarsamkomulaginu, svo sem stýringu olíuauðsins, mörkun landamæra og stöðu Abyei. Báðir aðilar hafa hafnað því að setja ákveðnar dagsetningar á hvern lið rammasamkomulags og það er erfitt að sjá hvernig hægt er að finna varanlega lausn miðað við framgöngu núverandi pólitískra leiðtoga.”
 
-Hvernig þrífst svo Norðurlandabúi í alþjóðlegu vinnu-umhverfi?
 
“Það er lán að Norðurlandabúar njóta almennt töluverðrar virðingar í heimi alþjóðlegs stjórnarerindreksturs og þróunarmála. Í Súdan hefur Noregur orð á sér fyrir vissa ráðvendni eftir að hafa leikið eitt lykilhlutverkanna í friðarviðræðunum. Ég hef áreiðanlega notið þess í nánu samstarfi við aðila í stjórnkerfinu.”

-Hafa Noðurlöndin eitthvað nýtt og þarft fram að færa í starfi UNDP?

“Ég held að Norðurlöndin hafi mikilvægu hlutverki að gegna í starfi UNDP. Reynsla okkar af lýðræði, borgaralegu frelsi, jafnrétti kynjanna, virku borgaralegu samfélagi og skilvirkri opinberri þjónustu er lykilatriði í því að koma á fót áreiðanlegu stuðningskerfi í löndum þar sem slík reynsla er í raun ekkert annað en óljósar hugmyndir. Að sama skapi eru okkur eðlislægt að viðurkenna mikilvægi skapandi hugsunar og nýjunga. Við erum vön að meta fólk að verðleikum, eftir hæfileikum þeirra en ekki uppruna eða stétt og slíkt er þungt á metunum til að tryggja árangur stofnunar. Við erum vön að  fylgjast með tímanum og hröðum breytingum og nýjum áherslum, jafnt í heimi fyrirtækja sem samskiptamiðla. Að síðustu njótum við þess að jafnvel í innanlandspólitík líta Norðurlönd út fyrir landsteinana og til heimsins og því búum við yfir upplýstu fólki sem getur markað stefnu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og stjórnarerindrekstri þar sem tekið er mið af hag allra án þess að missa sjónar af þeim sem minnst mega sín”.

Hver eru svo þín framtíðarmarkmið?

“Þrátt fyrir alla sína vankanta, vil ég gjarnan halda áfram að starfa fyrir UNDP eða svipaðar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, við umskiptin að loknum átökum og uppbyggingu friðar.
Við kvörtum mikið yfir skrifræði og að stofnunin sé vanbúin til að skila skjótum, áþreifanlegum árangri. Stofnunin hefur hins vegar ákveðið vægi og aðgang að áhrifafólki sem skapar henni tækifæri til að geta skipt sköpum og veitt aðstoð við að koma á djúpstæðum breytingum.
 Hvað sjálfa mig varðar vonast ég til að halda á önnur mið í nánustu framtíð og starfa annars staðar á vettvangi, hvort heldur sem er í Afríku eða öðru meginlandi.   
Ef einhver hefði spurt mig þegar ég var þrettán ára, hvað ég ætlaði að gera þegar ég yrði stór, hefði ég svarað: framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Framagirnin hefur hins vegar örlítið minnkað með árunum!”