Nýtt andlit hungurs í heiminum eftir Ban Ki-moon

0
441

Heimsmarkaðsverð á matvælum hefur snarhækkað. Hætta á hungri og vannæringu fer vaxandi. Líf milljóna manna er í veði. Skjótra og öflugra viðbragða er þörf.

Fyrst í hópi Þúsaldarmarkmiðanna um þróun sem veraldarleiðtogar samþykktu á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna árið 2000 var að fækka þeim jarðarbúum sem líða hungur um helming fyrir árið 2015. Þetta var þá þegar tröllaukið verkefni, ekki síst í Afríku þar sem mörg ríki hafa dregist aftur úr. En nú gefur á bátinn svo um munar.

Verð á nauðsynjavörum á borð við hveiti, maís og hrísgrjón hefur hækkað um helming eða meira á síðustu sex mánuðum. Matvælabirgðir í heiminum hafa aldrei verið minni. Ástæðurnar eru ýmsar; meðal annars aukin eftirspurn í meiri háttar hagkerfum á borð við Indland og Kína. Einnig má nefna fyrirbæri sem tengjast loftslagsbreytingum og veðurfari á borð við fellibylji, flóð og þurrka sem eyðilagt hafa uppskeru víða um heim. Matvælaflutningar og áburðarkostnaður hefur svo hækkað í takt við hækkandi olíuverð. Sumir sérfræðingar telja að rekja megi minnkandi fæðuframboð til aukinnar framleiðslu lífræns eldsneytis. 

Afleiðingarnar má sjá víða. Uppþot hafa orðið vegna matarskortar í ríkjum frá Vestur-Afríku til Suður-Asíu. Dýrtíð er mótmælt í  ríkjum sem treysta á innflutning matvæla til að fæða sveltandi íbúa. Veikburða lýðræðisríki eiga undir högg að sækja vegna óöryggis í framboði matvæla. Margar ríkisstjórnir hafa gripið til þess ráðs að banna útflutning og koma á verðlagshöftum á matvæli. Þetta skekkir hins vegar stöðu markaðarins og veldur erfiðleikum í viðskiptum.

Til að nefna eitt dæmi þá fór Hamid Karzai, forseti Afganistans fram á 77 milljóna dala (5.2 milljarða íslenskra króna) aðstoð til að afla matvæla handa meir en tveimur og hálfri milljón manna sem hafa ekki lengur í sig og á vegna hækkandi verðlags. Hann vakti athygli á þeirri hrikalegu staðreynd að venjuleg afgönsk fjölskylda eyðir 45% tekna sinna í mat samanborið við 11% árið 2006.

Þetta er hið nýja andlit hungurs í heiminum sem breiðist í sívaxandi mæli út til samfélaga sem hingað til hafa sloppið. Og það er óumflýjanlegt að þetta bitnar á fátækasta milljarði jarðarbúa eða þeim sem lifa á einum Bandaríkjadali (83 krónum) eða minna á dag.

Þegar fólk býr við slíka örbirgð og verðbólgan étur upp þær litlu tekjur sem það hefur, er fárra kosta völ. Annað hvort kaupir fólk minni mat eða ódýrari, næringarsnauðari mat. Niðurstaðan er sú sama: aukið hungur og minni líkur á heilbrigðu lífi. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) skýrir frá því að sífellt fleiri fjölskyldur sem áður höfðu ráð á fjölbreyttum, næringarríkum mat, borði nú aðeins eina fæðutegund og hafi fækkað máltíðum úr þremur í tvær eða jafnvel eina á dag.

Sérfræðingar telja að hátt matarverð sé komið til að vera. En jafnvel ef svo er, höfum við tæki og tól til að brjóta hungurvofuna á bak aftur og ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun. Við vitum hvað ber að gera. Pólitísks vilja og úrræða er þörf sem beita þarf á árangursríkan og skilvirkan hátt.

Fyrst verður að bregðast við mannúðarvandanum. Matvælaáætlun SÞ (WFP) ráðgerir að sjá 73 milljónum manna um allan heim fyrir matvælum, þar af þremur milljónum daglega í Darfur. Til þess að gera WFP þetta kleift þarf áætlunin aukafjárveitingu að andvirði 500 milljóna Bandaríkjadala (34 milljarðar íslenskra króna) til þess að vinna upp verðlagshækkanir. (Athugið að 80% innkaupa stofnunarinnar eru í þróunarríkjum.)

Í öðru lagi þarf að efla starf Sameinuðu þjóðanna í að aðstoða þróunarríki að glíma við hungurvofuna. Þetta felur í sér stuðning við að koma upp félagslegum stuðningi til að björgunarnet sé til staðar þegar í harðbakkann slær og að á sama tíma sé unnið að langtímalausnum. Við þurfum einnig á viðvörunarkerfi að halda svo hægt sé að bregðast við skjótt og draga úr afleiðingum hamfara. Skólamáltíðir sem kosta minna en fjórðung úr dal á dag (rúmar 20 íslenskar krónur) geta komið að miklum notum.

Í þriðja lagi verðum við að geta brugðist við sífellt vaxandi veðurfarslegum áföllum í staðbundnum landbúnaði auk langtíma afleiðinga loftslagsbreytinga. Nefna má þurrka- og flóðavarnakerfi sem geta stuðlað að aðlögun þeirra svæði sem glíma við fæðuóöryggi.

Að síðustu verður að auka landbúnaðarframleiðslu og skilvirkni markaðarins. Hægt væri að vinna á bug á þriðjungi fæðuskortsins, að verulegu leyti, með því að bæta staðbundna dreifingu landbúnaðarafurða og bæta markaðsaðgang smábænda. Á sama tíma vinna stofnanir SÞ eins og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO) og Alþjóðasjóðurinn um þróun landbúnaðarins með Afríkusambandinu að því að útbreiða “græna byltingu” í Afríku með því að kynna nýjustu tækni og vísindi til að finna varanlegar lausnir til að uppræta hungur. 

En það er framtíðartónlist. Hér og nú verðum við að að hjálpa hungruðum heimi að glíma við hækkandi matarverð. Við skulum byrja á því að horfast í augu við vandann og leggja svo til atlögu við hann.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (Þessi grein birtist í Morgunblaðinu og fleiri stórblöðum í heiminum 13. mars 2008)