Oddvitar mannúðarsamtaka sameinast um að biðja Gasa griða

0
14
Hungursneyð vofir yfir íbúum Gasa
Hungursneyð vofir yfir íbúum Gasa. Mynd: UNRWA

Gasasvæðið. Yfirmenn mannúðarstofnana Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparsamtaka hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem skorað er á veraldarleiðtoga að koma í veg fyrir enn frekari hörmungar Gasasvæðinu.

Nú þegar hafa tugir þúsunda Palestínumanna, aðallega konur og börn verið drepnir. 

Frá árásum Hamas og annarra vígamanna á suðurhluta Ísraels 7.október og hernaðaraðgerða Ísraela í kjölfarið hefur rúmlega þremur fjórðu hlutum Gasabúa verið stökkt á flótta, oft og tíðum ítrekað.

Fólk flýr átakasvæði og tekur eins mikið með sér og auðið er.
Fólk flýr átakasvæði og tekur eins mikið með sér og auðið er. Mynd: UNRWA

Verulegur matar-og vatnsskortur hefur gert vart við sig, auk þess sem hreinlætisaðstaða er afar bágborin. Ástand heilbrigðiskerfisins versnar stöðugt með skelfilegum afleiðingum, segja oddvitar fastanefndar helstu mannúðarsamtaka heims, innan og utan Sameinuðu þjóðanna (IASC).

„Sjúkdómar breiðast út. Hungursneyð er handan við hornið. Aðeins örfáa vatnsdropa er að fá. Búið er að eyðileggja grundvallar-innviði. Matvælaframleiðsla hefur stöðvast. Sjúkrahúsum hefur verið breytt í vígvelli. Ein milljón barna býr við stöðug áföll,“ sagja mannúðarsamtökin í yfirlýsingu.

Mannúðarstarfi greitt náðarhöggið

Ástandið er sérstaklega alvarlegt í Rafah, syðst á Gasasvæðinu.

„Rafah er síðasti viðkomustaður rúmlega einnar milljónar manna, sem flosnað hefur upp og glímir við hungur og áföll. Þeim hefur verið troðið inn í örsmáa landspildu, sem nú er orðinn vígvöllur í þessari grimmilegu styrjöld,” sögðu meðlimir IASC nefndar mannúðarsamtaka.

Fastafulltrúi Bandaríkjanna, Linda Thomas-Greenfield, beitir neitunarvaldi á fundi Öryggisráðsins.
Fastafulltrúi Bandaríkjanna, Linda Thomas-Greenfield, beitir neitunarvaldi á fundi Öryggisráðsins.Mynd: UN Photo/Manuel Elías

Á sama tíma hafa Bandaríkin beitt neitunarvaldi til að koma í veg fyrir ályktun í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um “tafarlaust vopnahlé í mannúðarskyni.”

Þrettán af fimmtán fulltrúum greiddu atkvæði með ályktuninni. Bretland sat hjá og Bandaríkin beittu neitunarvaldi.

Sjá einnig hér.