Öryggisráðið herðir tökin á Suður Súdan

0
470

S.Sudan1

Mars 2015. Lítil bjartsýni er á að friður sé á næsta leiti í Suður-Súdan þrátt fyrir að friðarviðræður eigi, samkvæmt áætlun, að vera að komast á lokastig.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur nú samþykkt refsiaðgerðir til að þrýsta á um friðarsamkomulag.

Friðarferli hófst í nóvember 2014 á milli stríðandi fylkinga, annars vegar stjórnarinnar með Salvar Kiir, forseta í broddi fylkingar og hins vegar SPLMA undir forystu Richar Malchar, fyrrverandi varaforseta.

Leiðtogarrnir hafa lýst yfir friðarvilja og undirritað vopnahléssamning, en blekið hefur varla þornað áður en blóðsúthellingar hafa hafist að nýju og grafið undan viðræðum sem fram fara í Eþíópíu.

Torsótt hefur reynst að finna leið til þess að skipta völdum á milli deilenda. Lokahrina friðarviðræðna átti að hefjast 5.mars samkvæmt áætlun. Sáttasemjarar á vegum IGAD, Þróunarsamtaka Austur-Afríku ákváðu þá dagsetningu og vöruðu deilendur við því að þetta væri „síðasta tækifærið” til að koma á varanlegu friðarsamkomulagi og setja á stofn samsteypustórn deilenda til bráðabirgða.

Önnur lokadagsetning kemur svo strax 1.apríl en þá á undirbúningur fyrir valdaskipti að hefjast en honum á að vera lokið 9.júlí.

Öryggisráðið lætur sverfa til stáls

S.Sudan2Öryggisráðið hefur í heilt ár beðið með aðgerðir í þeirri von að skriður kæmist á viðræður, en 3.mars var loks samþykkt ályktun sem talin er marka tímamót.

Í ályktun sem samþykkt var samhljóða lýsir Öryggisráðið andstyggð sinni á áframhaldandi ofbeldi og hótar stríðandi fylkingum refsiaðgerðum ef þeir gerist sekir um verknaði sem ógni friði, öryggi eða stöðugleika Suður-Súdan. Meðal refsiaðgerða eru ferðabönn og tímabundin upptaka fjár. Í ályktuninni er ekki gert ráð fyrir beitingu hervalds til að framfylgja henni, en gefin heimild til þess að óska eftir slíku við aðildarríkin. Í textanum er meðal annars tekið fram að refsiaðgerðum verði beitt gegn þeim sem nota barnahermenn, ráðast á óbreytta borgara og sjúkrahús.

Ráðið ítrekar að það sé engin hernaðarleg lausn á átökunum og biður deilendur að hrinda vopnahléinu í framkvæmd og draga herlið sitt til baka án tafar.

Upplausn frá upphafi

Átök og upplausn hafa fylgt nýjasta ríki heims frá fæðingu. Hinir ýmsu ættbálkar sem byggja Suður-Súdan stóðu saman í baráttunni fyrir sjálfstæði en árið 2011 sauð upp úr á milli forsetans Salva Kiir sem er af kyni Dinka og varaforsetans Riek Machar, úr röðum Neuer-fólksins.

Átökin sem sigldu í kjölfarið hafa kostað þúsundir lífið, 1.5 milljón hefur flosnað upp innanlands og nærri half milljón flúið til nágrannaríkjanna. Sjö sinnum hefur verið samið um vopnahlé en jafnoft hafa átök brotist út að nýju.

Öryggisráðið hefur haft ályktun til umfjöllunar í nærri eitt ár en skiptar skoðanir hafa verið um tímasetningar. Sumir hafa talað fyrir því að beita þrýstingi fyrir 5.mars til að sýna alvöru málsins en aðrir hafa óttast að slík íhlutun yrði eins og að hella olíu á eld. Bandaríkjamenn hafa þrýst fast á um samþykkt ályktunarinnar.

Spurningin nú er hvort þessi ályktun neyði leiðtogana til að setjast að samningaborði og hvort Sameinuðu þjóðirnar standi við orð sín og bretti upp ermarnar ef viðræður sigla í strand.

Öryggisráðið mun endurmeta stöðuna eftir 5.mars, og svo aftur eftir að undirbúningur valdaskipta á að hefjast 1.apríl og síðan á tveggja mánaða fresti eða oftar, ef þörf krefur.

Myndir:

1. Suður-Súdan fagnar sjálfstæði sumarið 2011.

 2.Vopn sem UNMISS, Sveit SÞ í Suður-Súdan hefur gert upptæk. Desember 2014 UN Photo/Isaac Billy