Pillay krefst alþjóðlegrar rannsóknar á N-Kóreu

0
475

Pillay

14. janúar 2012. Navi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag ríki heims til að leggja aukna áherslu á að leysa “ömurlegt ástand” mannréttindamál íbúa Norður-Kóreu.
 “Það voru nokkrar vonir bundnar í fyrstu við að með nýjum leiðtoga kæmu jákvæðar breytingar á mannréttindaástandinu í Norður Kóreu,” segir Pillay. “En ári eftir valdatöku Kim Jong Un sjást varla nokkrar breytingar til batnaðar.” Hún sagðist áhyggjufull yfir því að alþjóðleg athygli á Norður Kóreu væri nær algjörlega einskorðuð við kjarnorkuáætlun landsins og tilraunum með eldflaugar sem væru mikilvæg mál en mættu ekki skyggja á mannréttindaástandið.

Mannréttindastjórinn hitti í desember tvo fyrrverandi fanga í þéttriðnu neti fangabúða í Norður-Kóreu sem talið er að hýsi meir en 200 þúsund pólitíska fanga. “Þeir lýstu ástandi sem kalla má andstæðu alþjóðlegra mannréttindaviðmiða,” sagði hún og bætti við að “sjálfskipuð einangrun hefur hjálpað stjórninni við að komast upp með svo illa meðferð á þegnum sínum að telja hefði mátt óhugsandi á tuttugustu og fyrstu öldinni.”

 “Fangabúðakerfið þjónar ekki aðeins þeim tilgangi að refsa einstaklingum fyrir lögmætar, friðsamlegar athafnir, eins og að lýsa andstæðum skoðunum, heldur viðgangast þar einnig útbreidd mannréttindabrot, þar á meðal pyntingar og önnur form grimmilegrar og ómannúðlegrar meðferðar, aftökur án dóms og laga, nauðganir, þrælkunarvinna og hóprefsingar sem kunna að fela í sér glæpi gegn mannkyninu,” sagði Pillay.

Mannréttindastjórinn segir að vegna þess hve ósamvinnuþýð ríkisstjórn Norður-Kóreu sé og vegna áframhaldandi brota, sé öflugra alþjóðlegra aðgerða þörf.  Fyrsta skref væri að koma á fót óháðri alþjóðlegri rannsókn. Pillay segir að mannréttindaástandið í Norður Kóreu sé með því versta í heimi en það sé lítt kannað og lítt hafi verið sagt frá því en rannsókn sé ekki aðeins réttlætanleg heldur löngu tímabær.

Mynd: Navi Pillay, SÞ/Jean-Marc Ferré