Pönkhönnuður hannar “tréskyrtur” fyrir umhverfið

0
417
Tree_shirt

Tree_shirtUmhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna UNEP og tískuhönnuðurinn heimsþekkti Dame Vivienne Westwood hafa tekið höndum saman um hönnun svokallaðra “tréskyrtna”  (tree shirts) sem seldar verða fyrir átak í þágu skóga í Evrópu.
UNEP hefur hleypt af stokkunum frumkvæði sem nefnist “GreenUP” eða “grænt er vænt” sem miðar að því að færa “græna hagkerfið” til fólksins og er skógarátakið hluti af því.

“Kauptu tréskyrtu; gróðursettu tré”, er fyrsta aðgerðin af tíu í grænt er vænt áætluninni. Hægt er að kaupa “tréskyrtuna” á vefnum (http://www.greenup-unep.org/) og rennur ágóðinn til skógræktar.

“Tréskyrtunum” er ætlað að vekja til umhugsunar og hvetja til nýhugsunar. “Menning er móteitur við neysluhyggju og loftslagsbreytingum,” sagði Dame Vivienne Westwood, þegar hún kynnti átakið á blaðamannafundi í Brussel.

GreenUp (Grænt er vænt) átakið snýst um að hvetja til breyttra lífshátta í þágu grænni Evrópu og grænara hagkerfis. Átta mánuðir eru til stefnu þar til leiðtogar veraldar koma saman á svokallaðri Rio+20 ráðstefnu en þar verður farið yfir þróunina frá fyrstu “jarðar” ráðstefnunni í Rio de Janeiro um sjálfbæra þróun sem haldin var 1992.

Með GreenUp er ætlunin að færa fólkinu sjálfu hugmyndina um sjálfbært hagkerfi.
Varðveisla skóglendis skiptir verulegu  máli í baráttunni gegn loftslagsbreytingum í heiminum. Verulega hefur verið gengið á skóglendi í Evrópu og innbyrðis tengsl hafa rofnað með þeim afleiðingum að villt dýr lokast inni. Af þessum sökum er fjölbreytni lífríkisins einnig í veði.

Varðveisla skóglendis er einnig talin lykilatriði í því að skjóta stoðum undir umbreytingu nútíma samélagsins í kolefnasnautt “grænt hagkerfi”.

“GreenUP með aðstoð Dame Vivienne er lóð á vogarskálarnar í þeirri viðleitni að sýna fram á hvað grænt hagkerfi er og hvað venjulegt fólk getur gert sjálft,” segir Achim Steiner, forstjóri UNEP. Dame Vivienne leggur áherslu á að “mestu skiptir að virkja almenning. Almenningsálitið er það eina sem getur bjargað okkur; án þess held ég að maðurinn sé tegund í útrýmingarhættu.”

Dame Vivienne Westwood, varð heimsþekkt á áttunda áratugnum fyrir hönnun sem breska pönkhljómsveitin Sex Pistols gerði heimsfræga en þáverandi maður hennar Malcolm Maclaren var maðurinn á bakvið hljómsveitina.

Hún hefur þrisvar sinnum verið kosinn tískuhönnuður ársins í Bretlandi. Í lok árs var hún öðluð þegar Elísabet Bretadrottning tilkynnti að hún fengi the Dame Commander of the Order of the British Empire (DBE) fyrir störf sín við tískuhönnun og sölu á breskum tískuvörum. Nefnist hún síðan Dame Vivienne Westwood