Rio+20: Ræðuhöldum lokið-vinnan hefst

0
524

Rio final

25. júní 2012. Rio+20 er lokið:  “Ræðuhöldum er lokið, nú þarf að bretta upp ermar,” sagði Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Hann lét þessi orð falla á lokafundi þriggja daga ráðstefnunnar um Sjálfbæra þróun sem Sameinuðu þjóðirnar héldu í Rio de Janeiro í Brasilíu.

Mynd: Antonio de Aguiar Patriota, utanríkisráðherra Brasilíu fyrir miðri mynd leiðir fagnaðarlæti eftir að lokayfirlýsing Rio+20 lá fyrir. SÞ-mynd/Antonio de Aguiar Patriota.

Ban hvatti veraldarleiðtoga til að byggja á þeim skuldbindingum sem þeir undirgengust á ráðstefnunni til að stuðla að efnahagslegri, umhverfislegri og félagslegri velmegun í þágu allra í heiminum.

 “Á Rio+20 höfum við staðfest grundvallarsjónarmið og endurnýjað helstu skuldbindingar og markað nýja stefnu,” bætti hann við. “Ríkisstjórnir jafnt sem stórfyrirtæki, góðgerðasamtök og ungmennafélög eru félagar í vaxandi heimshreyfingu í þágu breytinga.”

Rúmlega hundrað oddvitar ríkja og ríkisstjórna sóttu Rio+20 auk þúsunda fulltrúa almannasamtaka, einkageirans og borgaralegs samfélags og lögðu lóð sín á vogaskálar til að móta nýja stefnu til að efla velmegun í heiminum, draga úr fátækt og auka félagslegt jafnrétti og umhverfisvernd.
Í lokaorðum til ráðstefnunnar sagði oddviti Sameinuðu þjóðanna að 700 raunhæfar skuldbindingar hefðu verið skráðar á ráðstefnunni. Hlut eiga að máli ríkisstjórnir, fyrirtæki, fjármálastofnanir og borgaralegt samfélag auk annara hópa.

Andvirði 513 milljarða Bandaríkjadala var fært til bókar á meðan á ráðstefnunni stóð en þessi framlög eru eyrnamerkt verkefnum á sviði orkumála, fæðuöryggis, úthafa og aðgangs að drykkjarvatni, svo eitthvað sé nefnt. Fjölmargar aðgerðir voru tilkynntar, til dæmis að gróðursetja 100 milljón tré, valdefla 5 þúsund athafnakonur í fyrirtækjum innan græna hagkerfisins í Afríku og endurvinna árlega 800 þúsund tonn af plasti sem inniheldur skaðlega efnið PCV.

Þýðingarmikið framlag Rio+20 var lokaskjal ráðstefnunnar “Framtíðin sem við viljum” sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu eftir langar samningarviðræður.

Þar er hvatt til margs konar aðgerða. Þar á meðal:

•    Ferli hafið til að koma á fót Sjálfbærum þróunarmarkmiðum.
•    Græna hagkerfið verður kortlagt til að sýna fram á hvernig það nýtist sjálfbærri þróun.
•    Efling Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

 “Sjálfbær þróun er eini kostur mannkynsins til að tryggja velferð plánetunnar okkar; sameiginlela framtíð okkar,” sagði framkvæmdastjóri Rio+20 Sha Zukang í lokaávarpi sínu. “Við skulum hafa skuldbindingar Rio+20 að leiðarljósi á vegferð okkar í átt til sjáflbærrar framtíðar.”  

Rúmlega 40 þúsund manns, þar á meðal þingmenn, borgarstjórar, embættismenn SÞ, forstjórar og leiðtogar borgaralegs samfélags sóttu ráðstefnuna frá 20. til 22. júní. Ráðstefnan sigldi í kjölfar Jarðarfundarins í Rio 2992 en þar var samþykkt Agenda 21, vegvísir til að endurmeta hagvöxt, efla félagslegt réttlæti og tryggja umhverfisvernd.

Meir en fimmtíu milljónir manna alls staðar að í heiminum tóku einnig óbeinan þátt í ráðstefnunni í krafti samskiptamiðla og létu ljós sitt heyra. Með þessu varð til vettvangur hnattrænnar umræðu um sjálfbæra þróun á undan og á meðan ráðstefnan stóð yfir.