Sæmdarmorð og heimilisofbeldi, eftir Navi Pillay

0
608
Navi Pillay

Navi PillayNavi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifar í tilefni 8. mars, Alþjóðlegs baráttudags kvenna: 

Stelpa kynnist strák. Hvað getur verið eðlilegra og venjulegra? Engu að síður varð þetta þess valdandi á dögunum að tyrknesk stúlka var grafin lifandi af föður sínum og afa. Frétt þessa efnis hefur valdið uppnámi og hneyksli um allan heim. Því miður eru glæpir af þessu tagi engin undantekning.  Raunar fjallar dómstóll í Arizona þessa dagana um mál á hendur manni sem sakaður er um að hafa drepið dóttur sína með því að aka viljandi á hana vegna þess að hún var of “vestræn”. Sameinuðu þjóðirnar telja að á hverju ári séu fimm þúsund konur í heiminum fórnarlömb svokallaðra sæmdarmorða, þ.e.a.s séu myrtar af fjölskyldum sínum

Þegar konur eru gerðar að holdgervingi sæmdar fjölskyldunnar, eiga þær talsvert á hættu.  Karlkyns ættingjar beita ofbeldi, valda limlestingum og fremja jafnvel morð í nafni “sæmdar”, oft með þegjandi samþykki eða jafnvel virkri þátttöku kvenkyns ættingja.

Slíkar árásir eru framdar í því skyni “að laga og hreinsa” brot gegn staðlaðri hegðun fjölskyldu eða samfélags, ekki síst þegar kynferðismál eru annars vegar. Kveikjan getur einnig verið vilji konu til að giftast eða lifa með manneskju að hennar eigin vali, skilja eða krefjast arfs. Stundum láta sjálfskipaðir verndarar svokallaðrar sæmdar, til skarar skríða á grundvelli slúðurs eða óstaðfestra grunsemda. Ímynduð sekt er enn þyngri á metunum en raunverulegar athafnir. Konur eru oft dæmdar til ofbeldisfullra refsinga án þess að fá að skýra sína hlið málsins og án nokkura möguleika á áfrýjun.

Slíkri skrumskældri  röksemdafærslu og ofbeldinu sem henni fylgir er meira að segja beitt þegar konur hljóta óumbeðna athygli karla eða eru fórnarlömb nauðgunar eða þvingaðar til sifjaspella. Oft og tíðum geta ofbeldismennirnir treyst á að sleppa undan refsingu vegna linkindar laganna eða ófullkominnar framkvæmd þeirra. Stundum baða þeir sig í aðdáunarljóma ættarinnar fyrir að hafa bundið enda á óviðeigandi framkomu óhlýðinnar konu og þurrkað burt smánarblett með blóði.

Slík ofbeldisverk eru glæpir sem brjóta í bága við réttinn til lífs, frelsis, yfirráða yfir eigin líkama, bann við pyntingum eða grimmilegri, ómannúðlegri, niðurlægjandi meðferð. Þetta eru glæpir sem eru framdir í trássi við bann við þrælahaldi, réttinn til frelsis frá kynbundinni mismunun og kynferðislegum misþyrmingum eða misnotkun, réttinn til einkalífs, skyldunni til að afnema mismunun í lagasetningu og hvers kyns skaðlegu athæfi gegn konum. 

Það er bæði einföldun og misvísandi að halda að slíkir verknaðir tilheyri eingöngu gamldags menningu sem eigi ekkert skylt við siðfágaða hegðun. Staðreyndin er sú að konur í öllum löndum stríða við ofbeldi þar sem síst skyldi og þar sem þær ættu að geta talið sig öruggar fyrir árásum. Sæmdarárásir eiga sér sömu rætur og heimilisofbeldi. Þessar árásir eiga rætur að rekja til viljans til að stjórna konum, sniðganga óskir þeirra og kæfa rödd þeirra.

Konur verða einangrun og áhrifaleysi innan veggja heimilisins að bráð sökum ofbeldisins. Af þessum sökum liggja árásir á konur innan veggja heimilisins oft í þagnargildi og eru huldar skömm í stað þess að tekið sé á þeim eins og rétt er og skylt:  sem grófum mannréttindabrotum.

Með því að brjótst til bjargálna geta konur brotist út úr vítahring félagslegra hindranna og heimilisofbeldis og kúgunar. Engu að síður hefur ofbeldi gegn konum færst í aukana í löndum þar sem konur eru fjárhagslega sjálfstæðar og hafa komist til metorða. Þess eru dæmi að sigursæl athafnaskáld, virtir þingmenn, framúrskarandi fræðimenn og aðrar konur í atvinnulífi lifi tvöföldu lífi. Opinberlega er litið á þær sem fyrirmyndir í efsta lagi samfélagsins. Heima fyrir sæta þær árásum og niðurlægingu.

Dæmigerð viðbrögð við heimilisofbeldi er að senda konur í athvarf og fjarlægja þær úr því umhverfi þar sem þær lifa og hrærast. Á hinn bóginn er gerendunum sjaldan stökkt á flótta eða þeir neyddir til að flýja í skömm af eigin heimli eða úr sínu félagslega umhverfi. 

Þessu verður að snúa við. Það er skylda ríkisins að vernda konur, refsa árásarmönnum og neyða gerendur til að horfast í augu við kostnað og afleiðingar eigingirni sinnar og ofbeldis. Þetta ber að gera án tillits til stöðu gerenda í samfélaginu, markmiði þeirra eða tengslum við fórnarlambið

Á sama tíma bera að fræða karla og konur, drengi og stúlkur um mannréttindi kvenna og skyldu hvers og eins til að virða réttindi annara. Hér á meðal eru réttindi kvenna til að ráða yfir líkama sínum og kynhneigð auk réttinda til arfs, eigna, húsnæðis og félagslegs öryggis.

Konur hafa brugðist við og berjast fyrir því að breyta hegðun og festa breytingarnar í sessi. Þær sækja gerendur í vaxandi mæli til saka til að skera úr um það fyrir dómi hvað slík verk koma sæmd við. Konur draga ofsækjendur sínar sífellt oftar fyrir rétt til að horfast í augu við afleiðingar ofbeldis. Við verðum að styðja þessar hugrökku konur. Við verðum að hjálpa öðrum til að stíga fram í dagsljósið og svipta burt hulu þagnar og félagslegrar meðvirkni sem hefur stuðlað að því að ofbeldi hefur náð að skjóta rótum.