Samar: Hún skrifar með hjartanu í Sápmi

0
461
Ann-Helén Laestadius.
Ann-Helén Laestadius.

Inúitar á Grænlandi og Samar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru frumbyggjar Norðurlanda. Í tilefni af því að 9.ágúst er Alþjóðlegur dagur frumbyggja heimsins birtum við viðtöl við tvo einstaklinga úr röðum þeirra sem vakið hafa athygli að undanförnu.

 Kletturinn í Sápmi

Það er sérstakur klettur í neðri Soppero við Lainio-ána. Ann-Helén Laestadius segir að hún standi þar stundum og horfi á fossana. Og þar hafa Agnes, Maja og allar hinar persónurnar í bókum hennar, komið til hennar. Ann-Helén Laestadius, er fimmtug, að aldri. Hún er blaðakona í Svíþjóð en einnig verðlaunaður rithöfundur af samísku kyni. Bækur hennar hafa verið þýddar á tuttugu erlend mál, þar á meðal íslensku.

„Ég skrifa oft um sjálfsmynd Sama, um réttinn til að skilgreina sjálf(an) sig og aflið sem finnst í samfélagi Sama.  Ég hef sterka réttlætiskennd og dregst að óréttlæti og vil vinna bug á því.  Og það gengur ekki alltaf eftir og þá fæ ég útrás í því að skrifa bókmenntir. Þar finn ég gremju minni farveg og bendi á það sem er óásættanlegt.”

Bók ársins 2021

Stuldur
Stuldur kom út á íslensku 2021 í þýðingu Ísaks Harðarsonar.

Frumraun Ann-Helén Laestadius, unglingabókin „SMS frá Soppero”, var gefin út fyrir 15 árum. Nokkrar ástsælar bækur af slíku tagi fylgdu í kjölfarið. Fyrsta bók hennar fyrir fullorðna „Stuldur“ kom út á síðasta ári og var þýdd á íslensku. Hún var kosin bók ársins í Svíþjóð 2021. Í bókum sínum sækir Ann-Helén Laestadius til róta sinna í Kiruna og Norbotten. Henni er í mun að sýna umheiminum að Samar séu ekki aðeins hreindýrahirðar og samískumælandi fólk.

„Það voru meiri fordómar þegar ég birti mínar fyrstu bækur. Ég held að fólk sé orðið fróðara, þannig að ég lít björtum augum á framtíðina. En það eru enn margir fáfróðir. Þegar Stuldur kom út höfðu margir samband og voru felmtri slegnir yfir því hvundagslega kynþáttahatri sem Samar sæta.“

Aðskildir skólar fyrir hirðingja

Það er ekki heiglum hent að ákvarða íbúafjölda Sápmi, hins forna heimalands Sama. Að sögn upplýsingaskrifstou Sama búa um 80 þúsund Samar í Sápmi. Saga Sama er oft og tíðum myrk. Þegar skólaskylda var tekin upp í Svíþjóð um miða 19.öld, var sérstökum hirðingjaskólum komið á fót fyrir börn hreindýrahirða. Margir telja að þetta hafi verið skaðlegur aðskilnaður. Laestadius er í þeim hópi.

Ann-Helén Laestadius.
Ann-Helén Laestadius.

„Fólk verður að þekkja hina myrku sögu til að skilja ástandið i dag. Það var og jafnvel er enn sérstök sýn á Sama. Hun byggist á því að ríkið leit einungis á þá sem hreindýrahirða. Börn voru þvinguð til að sækja þessa sérstöku hirðingjaskóla og tekin frá fjölskyldum sínum. Margt af þessu byggir á þvi að Samar voru taldir óæðri manneskjur.“

Hún vill tala um myrka tíma

Í dag njóta Samar viðurkenningar sem frumbyggjar og þjóðernisminnihluti í Svíþjóð. Þessi viðurkenning veitir Sömum réttindi, en þau eru ekki alltaf virt. Samar verða að berjast á mörgum vígstöðvum. Þeir þurfa til dæmis að berjast gegn ásælni fyrirækja í námagreftri og skógarhöggi, sem ógna beitarlandi hreindýra. En þeir þurfa einnig að berjast fyrir því að börnum þeirra sé kennt á samísku. Og þetta er slítandi barátta.

„Ég er ekki baráttukona, ég er rithöfundur sem reyni að höfða til tilfinninga fólks. Að mínu mati er mikilvægt að tala um þessa myrku afkima, þögnin í Sápmi er hættuleg. Við hefðum getað bjargað mörgum mannslífum, ef við hefðum verið opinskárri. Ef við hefðum haft kjark til að tala um geðrænan vanda og haft styrk til að biðja hvert annað um hjálp.“

Ann-Helén Laestadius.
Ann-Helén Laestadius.

Menning er sérstaklega þýðingarmikil. Hún er skilvirkari leið til að breiða út þekkingu og bæta stöðu Sama, en hvort heldur sem er ræðuhöld á Sama-þinginu eða útgáfa bæklinga, að mati Ann-Helén Laestadius. Hun byrjaði að halda dagbók egar hún var sex ára gömul. Hún skrifaði langar frásagnir á eigin ritvél þegar hún var í mið- og framhaldsskóla. Síðar nam hún blaðamennsku og hefur skrifað fyrir blöð á borð við Svenska Dagbladet og Aftonbladet.

„Þegar fyrsta bók mín kom út 2007, þurfti ég að verja miklum tíma í að útskýra hvað Sami væri, þegar ég heimsótti skóla. Það voru miklir fordómar í gangi og allir bjuggust við að Sami væri sá sem gætti hreindýra og talaði samísku. Í dag er miklu meiri þekking og ég held það hafi áhrif á menninguna.“

Sterkar rætur

Ann-Helén segir að heimili hennar sé neðri Soppero og Silkimuotka,  en einnig í Kiruna þar sem hún óx úr grasi. Móðir hennar er Sami en faðirinn er frá Tornedal. Hún lærði ekki samísku í æsku. Hún  er heldur ósátt við það en hefur sótt tíma í samísku síðar á ævinni. Hún skilur samísku ágætlega, en telur sig ekki nogu góða til að tala hana. Hún hefur búið í Solna á Stokkólms-svæðinu í 20 ár með eiginmanni og syni.  Hún segir hins vegar að ræturnar séu „firnasterkar” og þær séu henni orku-uppspretta sem sé lykill að lífshamingju, knýja áfram bókaskrif hennar og geri henni kleift að halda það út að búa syðra.

„Æskuslóðirnar ferðast með mér – í hjarta mínu. En til þess að gera skrifað bækur, þarf ég að fara heim og standa á klettinum mínum við Lainio-ána. Þar koma sögurnar og sögupersónurnar til mín. Það er mér mikilvægt að leggja rækt við kjarna minn; það sem fylgt hefur mér frá barnæsku.“

Skrifar sitt eigið ”jojk”

Læstadius prédikar
Laestadius prédikar yfir Sömum. Málverk frá 1840 eftir François-Auguste Biard

 Ættarnafn Ann-Helén Laestadius má rekja til bróður Lars Levi Laestadius, þekkts  prests, grasafræðings og prédikara sem var upphafsmaður sértrúarhóps sem kennir sig við hann. Sá var samstarfsmaður Íslandsvinarins Paul Gaimards á ferðum hans, um það sem var kallað Lappland á þeim tíma. Þá er hann aðalpersónan, eins konar Sherlock Holmes,  í glæpasögunni „Eldum björn” eftir Mikael Niemi sem kom nýlega út á íslensku.

„Já það er undarlegt að hafa þessar tvær hliðar. Annars vegar Samarnir og hins vegar prédikarinn sem útvegaði forkólfum kynþáttahyggju samískar hauskúpur til rannsókna. Ég aðhylist ekki laestadianisma sjálf og á erfitt með að láta mér geðjast að slíkum sérstrúarhópum. Einn góðan veðurdag ætla ég að skrifa um þetta.“

Ann-Helén Laestadius segir að bókmenntastarf hennar séu hennar útgáfa af jojk, eða samískum söngvum; hennar leið til að segja frá og færa komandi kynslóðum arfleifð hennar og sögu.

Í viðtölum er hún oft klædd samískum búningi.

„Mér finnst ég vera fín og örugg þannig búin. Í þessu felast engin skilaboð. Þetta er bara ég.“

Sjá einnig hérhér, hér, og hér.

 Nokkrar staðreyndir:

  • 370 milljónir manna í næstum 90 ríkjum teljast frumbyggjar heimsins.
  • Hið forna heimaland Sama nefnist Sápmi og er innan núverani landamæra Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Rússlands. Mörk þessu eru ekki vel skilgreind vegna skorts á fornum heimildum.
  • Fjöldi Sama er á bilinu 80 til 100 þúsund. 50-60 þúsund búa í Noregi, 20-40 þúsund í Svíþjóð, um 8 þúsund í Finnlandi og á að giska 2 þúsund í Rússlandi.
  • Samar eru í hópi frumbyggja heimsins, sem búið hafa um þúsundir ára á sömu slóðum. Enginn veit hvaðan þeir komu upphaflega.