Grænland: Óvænta Netflix-stjarnan

0
468
Alþjóðlegur dagur frumbyggja
Svend Hardenberg í Borgen. Mynd: DR.

Inúitar á Grænlandi og Samar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru frumbyggjar Norðurlanda. Í tilefni af því að 9.ágúst er Alþjóðlegur dagur frumbyggja heimsins birtum við viðtöl við tvo einstaklinga úr röðum þeirra sem vakið hafa athygli að undanförnu.

Háttsettur embættismaður gerist leikari

Svend Hardenberg er fimmtíu og þriggja ára gamall Grænlendingur, sem hefur látið að sér kveða í stjórnmálum, opinberri þjónustu og atvinnulífinu. Þótt hann sé fjölhæfur kom það á óvart þegar hann var valinn til að leika eitt aðalhlutverkanna í nýrri sjónvarpsþáttaröð sem Danmarks Radio stendur að í samstarfi við Netflix.

Alþjóðlegur dagur frumbyggja
Við samningaborðið í Borgen. Mynd: DR:

Þegar framleiðendur hinna vinsælu Borgen-þátta eða Borginni, voru að leggja drög að fjórðu þáttaröðinni var sjónum beint að Grænlandi. Hardenberg hefur lengi verið í samstarfi við True North fyrirtækið íslenska og forstjóra þess Leif Dagfinnsson. Hann var beðinn um að vera höfundum og framleiðendum Borgen innan handar á Grænlandi og hann kynnti þeim land sitt og menningu og stjórnmálaástandið. Leikur var þó ekki á dagskrá.

„Ég var undrandi þegar lagt var að mér að sækja um hlutverk – ég hef aldrei áður leikið,“ sagði Hardenberg í viðtali við vefsiðu UNRIC. Þegar upp var staðið var hann valinn í hluterk Hans Eliasson utanríkis- og auðlindaráðherra Grænlands.

Að yfirstíga staðalímyndir

Hardenberg hefur marga fjöruna sopið í grænlenskum stjórnmálum. Hann var æðsti embættismaður eyjarinnar þegar hann stýrði ráðuneyti Alicia Hammond formanns grænlensku landsstjórnarinnar. Síðar hefur hann haslað sér völl í atvinnulífinu og hefur til dæmis starfað með ýmsum íslenskum fyrirtækjum, auk stjórnarformennsku í vestnorræna ráðinu og ýmissa annarra trúnaðarstarfa.

lþjóðlegur dagur frumbyggja
Birgitte Nyborg og hennar lið standa í ströngu að vanda í 4.þáttaröðinni. Mynd: DR

Hann og listakonan Julie Hardenberg, eiginkona hans, lögðu sín lóð á vogarskálarnar við samningu handritsins og þá sérstaklega við að yfirstíga staðalímyndir um Grænland og Grænlendinga.

„Þeir höfðu þegar skrifað töluvert í Danmörku áður en komið var til Grænlands. Við kynntum þeim raunveruleikann í samskiptum Grænlands og Danmerkur. Í ljósi þessa voru nokkrar persónur endurskrifaðar.“

Rithöfundurinn Niviaq Korneliussen þýddi síðan samtöl yfir á grænlensku.

Hardenberg segist ánægður með niðurstöðuna og sannfærður um að dvöl höfundanna á Grænlandi hafi komið þeim að gagni. „Það er ekki nóg að lesa greinar í blöðum til að skilja kerfið, og innri gerð málefna. Við vildum kynna þeim hið raunverulega Grænland.“

Mesta pólitíska dramað

Í nýju þáttaröðinni er aðalpersónan Birgitte Nyborg, orðin utanríkisráðherra og stendur sem fyrr í ströngu. Hún þarf að glíma samhliða við alþjóðapólitík og innanlandsmál. Meðal annars koma við sögu reiptog Bandaríkjamanna, Kínverja og Rússa, spennan á milli Dana og Grænlendinga, loftslagsváin, umhverfis- og orkumál, auk málefna frumbyggja. Og er þá fátt eitt talið.

Birgitte Nyborg og hennar lið standa í ströngu að vanda í 4.þáttaröðinn
Öll spjót standa á Nyborg, sem nú er utanríkisráðherra. Mynd: DR.

Mörgum kom á óvart þegar Borgin sló í gegn, ekki aðeins í Danmörku heldur á alþjóðavettvangi, 2010. Titillinn Borgin eða Borgen vísar til (Christians)borg(en), aðseturs danska þingsins. Hingað til hafa dönsk stjórnmál þótt afar friðsöm, enda samræðustjórnmál í hávegum höfð. Þykir undrum sæta ef ekki tekst að ná samstöðu og stjórnarandstæðan greiðir atkvæði gegn fjarlögum, svo dæmi sé tekið.

Á vef BBC hefur Borgin verið kallað „stórkostlegasta pólítíska drama nokkru sinni“, en sagan og sögupersónur hafa tekið töluverðum stakkaskiptum í áránna rás. New York Times lýsir nýjustu þáttaröðinni á þann veg að hún líkist síður „West Wing“ en „House of Cards“ og vitnar þar til bandarískra sjónvarpsþátta.

 Olía og loftslag

Söguþráður fjórðu þáttaraðarinnar snýst um olíuvinnslu á Grænlandi.

Alþjóðlegur dagur frumbyggja
Hardenberg telur söguþráðinn raunsæjan. Mynd: DR

Bakgrunnurinn er sá að árið 2009 varð Grænland sjálfsjórnarsvæði innan danska konungdæmisins. Grænlendingar voru viðurkenndir sem sérstök þjóð að alþjóðalögum. Þeim var gefin réttur til að segja sig úr lögum við Dani, ef meirihluti íbúanna kýs.

Sem stendur er Grænland fjárhagslega háð Danmörku og fær andvirði 600 milljóna Bandaríkjadala árlega í styrk, sem samsvarar um 20% þjóðarframleiðslu og allt að helmingi fjarlaga. Grænlendingar hafa hins vegar full yfirráð yfir auðlindum sínum og vegvísir var saminn 2009 í átt til fulls sjálfstæðis, ef og þegar Grænland getur staðið á eigin fótum.

Hardenberg leynir ekki skoðunum sínum. „Danmörk hefur engan áhuga á að þróa Grænland, því með því færist það nær sjálfstæði.“

Í Borginni togast á að annars vegar að Grænland fjármagni sjálfstæði sitt með olíuvinnslu og áhrifin á loftslagið hins vegar.

Raunsætt

Persónan sem Sven Hardenberg leikur, Hans Eliassen, utanríkis- og auðlindaráðherra, er vitaskuld miðlæg í þessari fléttu.

„Þetta er mjög raunverulegt. Þessi málefni eru til staðar og valdabarátta Grænlands og Danmerkur, sem fjallað er um í Borgen, er tll staðar. Hún er daglegt brauð, þótt auðvitað sé þetta dramatíserað.“

Ein af persónunum í Borginni segir á einum stað að ekki sé sanngjarnt að Grænland sé látið gjalda þess að iðnríki hafi losað koltvísýring í tvær aldir.

„Mörg okkar erum þessu sammála. Það er ekki sanngjarnat að stöðva þróun okkar þessað þróun annara ríkja hafi spillt umhverfinu og loftslaginu. Þessi skoðun kemur vel fram í Borginni,“ segir Svend Hardenberg.

Endurkoma gamalla siða

Alþjóðlegur dagur frumbyggja
Grímur á Grænlandssafni. Mynd: Lebatihem/Flickr/ Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0)

Þeir Inútíar sem nú byggja Grænland eiga rætur að rekja til forfeðra sem komu til eyjarinnar frá Kanada um árið 1200. Þeir deildu eynni með norrænu fólki um aldir. Norrænir menn hurfu hins vegar um miðja fimmtánu öld og er enn á huldu hvað af þeim varð. Árið 1721 lögðu Danir Grænland undir sig að nýju, en á þeim tíma tilheyrði Noregur þeim.

Trúboðar börðust harðri baráttu gegn trú, siðum og venjum Inúíta og tókst að útrýma ýmsu í nafni kristninnar. Á síðari árum hefur orðið viss endurreisn, eins og sjá má á æfafornu húðflúri sem sjá má í Borginni.

Frá því þjóðernishreyfingin náð fótfestu svo um munaði á Gænlandi á sjöundar og áttunda áratugnum hafa samskipti verið tekin upp við Inúíta, einkum í Kanada og Bandaríkjunum. Grænlendingar taka einnig þátt í samstarfsvettvangi frumbyggja innan Sameinuðu þjóðanna.

Þrátt fyrir þessi tengsl hefur það ofríki sem frumbyggjar hafa mátt sæta í Kanada og tröllriðið hefur fjölmiðlum að undanförnu – ekki vakið sérstaka athygli á Grænlandi. Hardenberg segir það furðu sæta.

Á hinn bóginn hafa ekki allsendis ólík mál skotið upp kollinum á Grænlandi. Í mars síðastliðnum voru fjölskyldur barna sem tekin voru frá fjölskyldum sínum á sjötta áratugnum beðnar afsökunar og þeim greiddar bætur. Ætlunin var að ala börnin upp með það fyrir augum að þau yrðu dönskumælandi úrvalssveit í heimalandi sínu. Í dag tala flestir Grænlandingar vestur-grænlensku og dönsku.

Þvingaðar getnaðarvarnir

Á sama tíma hafa tugir kvenna stigið fram í dagsljósið og sagt frá því þvinguðum getnaðarvörnum frá miðjum sjönda og fram á miðjan áttunda áratuginn. Þúsundir ungra stúlkna voru neyddar til að láta setja í sig lykkjuna, án samþykkis og stundum án vitundar forráðamanna þeirra.

Alþjóðlegur dagur frumbyggja
Grænlendingar eru upp til hópa sannkristnir. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

DR, danska ríkisúrvarpið, sagði fyrst frá þessu og telur að 4,500 stúlkur hafi átt í hlut. Markmið yfirvadla virðist hafa verið að stemma stigu við barneignum utan hjónabands af ótta við að börnin yrðu byrði á skattgreiðendum. Hardenberg er ekki einn um að telja að markmiðið hafi hreinlega verið að halda fjölda Grænlendinga niðri til að tryggja dönsk yfirráð. Hafa ber í huga að Grænlendingar voru aðeins 32 þúsund 1960 en eru nú um 58 þúsund. Fjölgunin er því  yfir 70%.

„Velmegun jókst og fólki fjölgaði eðlilega,“ segir Hardenberg. „En Danir ákváðu þetta upp á eigin spýtur og vildu stemma stigu við fjölguninni því þeir vildu ekki að útgjöld við stjórn Grænlands ykjust, jafnvel þótt við værum hluti af Danmörku. Þetta er mikill rasismi. Málið komst fyrst  nú fyrir almenningssjónir því konurnar skömmuðust sín og tjáðu sig ekki fyrr en nú. Svo virðist sem þetta hafi náð til 46% kvenna á barneignaaldri og því er þetta stórmál.“

Alþjóðlegur dagur frumbyggja heimsins er haldinn árlega 9.ágúst. Að þessu sini er kastljósi beint að hlut kvenna í að vernda og miðla hefðbundinni þekkingu.