Sameinuðu þjóðirnar biðja um vopnahlé á afmæli sínu

0
648
75 ara afmæli SÞ

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ítrekaði hvatningu sína um alheimsvopnahlé í yfirlýsingu í tilefni af 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna. 24.október 1945 gekk sáttmáli Sameinuðu þjóðanna í gildi.   

Guterres hafði áður hvatt til vopnahlés um allan heim vegna COVID-19 faraldursins í yfirlýsingu í mars. Sífellt hefur bæst á listann yfir þau ríki og aðra sem heita stuðningi sínum við þetta markmið.

Klukkan tifar

„Þegar faraldurinn reið yfir, hvatt ég til vopnahlés um allan heim. Þessa stundina er aðeins einn óvinur, okkar sameiginlegi óvinur: COVID-19. Nú er kominn tími til að að taka á honum stóra sínum og koma á vopnahléi á heimsvísu. Klukkan tifar,“ sagði Guterres í ávarpinu.

Aðalframkvæmdastjórinn sagði að 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna bæri upp á tíma heimsfaraldurs. Hann sagði að „upphaflegt ætlunarverk“ samtakanna væri brýnna en nokru sinni fyrr. Auk þess að vernda mannréttindi, tryggja virðingu fyrir alþjóðalögum og forða mannkyninu frá stríði, væri framtíð jarðarinnar í veði.

„Við verðum líka að friðmælast við plánetuna. Loftslagsváin ógnar sjálfu lífinu. Við verðum að fylkja liði um allan heim til að ná kolefnisjafnvægi – enga losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2050.”

„Á þessu afmæli bið ég fólk hvarvetna um að snúa bökum saman. Sameinuðu þjóðirnar standa ekki aðeins með ykkur..Þær tilheyra ykkur og þið og Sameinuðu þjóðirnar eruð eitt, því eins og segir í stofnsáttálanum, „Vér hinar Sameinuðu þjóðir.“ Látum sameiginlega hugsjón okkar um betri heim í allra þágu verða að veruleika,“ sagði António Guterres í yfirlýsingu í tilefni af 75 ár afmæli Sameinuðu þjóðanna.

75 ára afmælisins er minnst með því að meir en 200 byggingar og mannvirki um alla Evrópu verða lýst upp með hinum bláa lit Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Háskóli Íslands, Harpa, Höfði, Dómkirkjan í Reykjavík og Akureyarkirkja.

Sjá nánar um „lýsum Evrópu bláa“ hér

og ávarp Guterres í heild hér.