Meir en 200 byggingar klæðast bláa lit Sameinuðu þjóðanna

0
876

Meir en tvö hundruð byggingar um alla Evrópu verða lýstur upp í bláu á laugardaginn 24.október til að minnast 75 ára afmælis Sameinuðu þjóðanna.

UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, á frumkvæðið að átakinu Turn Europe UN Blue en á 24.október verða 75 ár liðin frá því stofnsáttmáli samtakanna gekk formlega í gildi árið 1945.

Harpa, Háskóli Íslands, Höfði, Dómkirkjan í Reykjavík og Akureyrarkirkja verða lýst bláa litnum á laugardag. Sama gildir um brúna yfir Eyrarsund, dómkirkjuna í Stokkhólmi, Ráðhúsið og FN-byen í Kaupmannahöfn og háskólann í Tromsö svo dæmi séu tekin frá Norðurlöndum. Þá má nefna helstu byggingar Evrópusambandsins í Brussel, Þjóðahöllinna í Genf og Friðarhöllina í Haag, ráðhús Madridar og Bonn, Belem-turn í Lissabon, Stormont kastala í Belfast, Dyflinnarkastala og dómshús Lyon.

Af hverju blár?

Ljósblái liturinn hefur verið einkennislitur Sameinuðu þjóðanna frá því Allsherjarþingið lagði blessu sína yfir fána samtakanna 20.október 1947. Blár varð fyrir valinu sem „andstæðan við rauðan, lit átaka.”

Að sögn Michel Pastoureau, höfund bókarinnar Blár – saga litar (Bleu – Histoire d’une couleur) er blár yfirleitt tengdur samhljóm og friði sem er kjarni starfs Sameinuðu þjóðanna.

Að varpa bláa litnum á byggingar og mannvirki er táknræn aðgerð og stuðningur við grundvallarhugsjónir Sameinuðu þjóðanna um frið, sjálfbæra þróun, mannréttindi og fjölþjóðlega samvinnu á óvissum tímum.

„Við stöndum andspænis tröllauknum áskorunum,“ segir António Guterres aðalaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Við getum sigrast á þeim með samstöðu og samvinnu um allan heim. Um það snúast Sameinuðu þjóðirnar. Á þessu afmæli bið ég fólk hvarvetna um að taka höndum saman. Sameinuðu þjóðirnar standa ekki aðeins með ykkur. Þær tilheyra ykkur og þær eru þið samanber fyrstu orð stofnsáttmálans: „Vér hinar Sameinuðu þjóðir.“

75 ára afmælið ber upp á tíma mikilla sviptinga i heiminum. Heimsfaraldri COVID-19 hafa fylgt alvarlegar félagslegar- og efnahagslegar afleiðingar. En um leið minnir ástandið á að á erfiðum tímum er hægt að sá frækornum jákvæðra breytinga. Með því að gera Evrópu bláa staðfestum við slík fyrirheit.

#EuropeTurnsUNBlue #UN75  

Sjá einnig hér