Sameinuðu þjóðirnar með kolefnisjafnvægi að leiðarljósi 2021

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að viðleitnin við að ná kolefnisjafnvægi í heiminum fyrir miðja öldina verði helsta stefnumál samtakanna árið 2021.

„Helsta metnaðarmál Sameinuðu þjóðanna árið 2021 verður að mynda alheimsbandalag í þágu kolefnisjafnvægis fyrir 2050,” sagði aðalframkvæmdastjórinn í nýársávarpi sínu fyrir 2021.

„Hver ríkisstjórn, hver borg, hvert fyrirtæki og hver einstaklingur hefur hlutverki að gegna í að ryðja þessu sjónarmiði braut.”

Með kolefnisjafnvægi er átt við að nettó losun koltvísýrings verði engin.

Ljósglæta í myrkrinu

Guterres sagði að 2020 hefði verið sérlega erfitt ár. Ljósglæta hefði þó sést í myrkrinu sem kynni að lýsa upp komandi ár. Sem dæmi nefndi hann:

  • Fólk sem hefði rétt nágrönnum og ókunnugu fólki hjálparhönd.
  • Framlínustarfsfólk sem lagði sig allt fram.
  • Vísindamenn sem þróuðu bóluefni á mettíma.
  • Ríki sem tilkynntu um nýjar skuldbindingar til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir.

Guterrres sagði að lærdóm mætti draga „af þessu erfiðasta ári.” “Ef við vinnum saman af einhug og samstöðu geta þessir geislar vonar náð um allan heim.”

Oddviti Sameinuðu þjóðanna sagði að 2020 hefði verið ár prófrauna, harmleikja og tára.

COVID-19 hefði sett líf okkar á hvolf og valdið heiminum þjáningum og sorg.

„Við höfum misst marga ástvini – og faraldurinn geisar enn með nýjum bylgjum veikinda og dauða,” bætti Guterres við. „Fátækt, ójöfnuður og hungur fara vaxandi. Störf tapast og skuldir aukast. Börn eiga erfitt uppdráttar.

Heimilisofbeldi hefur  og óöryggi magnast hvarvetna.

Græða sár

Loftslagsbreytingar og COVID-19 fela í sér kreppu sem einungis er hægt að glíma við í sameiningu. Þeirri viðleitni ber að stefna í átt til framtíðar þar sem sjálfbærni og hagur allra er hafður að leiðarljósi“.

Gutterres hvatti til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu. „Með samstilltu átaki getum við friðmælst við okkur sjálf og náttúruna, tekist á við loftslagsbreytingar, stöðvað útbreiðslu COVD-19 og helgaði árið 2021 því að græða sár.

Græða sár af völdum banvænnar veiru. Græða særð hagkerfi og samfélög. Græða sár sundrungar. Og hefja lækningu plánetunnar.

Þetta ættu að vera nýársheit okkar fyrir 2021,“ sagði Guterres að lokum.

 

Fréttir

Álit framkvæmdastjóra