Sameinuðu þjóðirnar veita Líbýu aðstoð

0
17
Hrikalegar afleiðingar flóá í Líbýu.
Hrikalegar afleiðingar flóá í Líbýu. Mynd: WHO

Líbýa. Flóð. Sameinuðu þjóða-kerfið hefur komið íbúum austurhluta Líbyu til hjálpar. Sérfræðingar í mati á hamförum eru komnir á staðinn til stuðnings ríkisstjórn og hjálparsveitum.

Rúmlega fimm þúsund hafa látist svo vitað sé. Margir þeirra eru íbúar í borignni Derna, en hún varð fyrir flóði þegar tvær stíflur brustu. Heilu íbúðahverfi hafnarborgarinnar voru hrifin á brott í flóðinu.

„Leitar- og björgunarsveitir eru komnar á staðinn undir forystu heimamanna, hersins, líbýska Rauða hálfmánans og sjálfboðaliða,“ segir í tilkynningu talsmanns Sameinuðu þjóðanna.

Gríðarlegt flóð hreif með sér stíflur, hús og heimili í Líbýu. Mynd:© WHO
Gríðarlegt flóð hreif með sér stíflur, hús og heimili í Líbýu. Mynd:© WHO

Stuðningur við heimamenn

Georgette Gagnon yfirmaður Sameinuðu þjóðanna í Líbýu hefur falið teymi sínu í hamfaraviðbrögðum að starfa með innlendum yfirvöldum og samstarfsaðilum.

Martin Griffiths samræmandi aðstoðar vegna hamfara hjá SÞ tilkynnti á þriðjudag um 10 milljóna Bandaríkjadala framlag úr miðlægum hamfarasjóði samtakanna (CERF) til að hjálpa fórnarlömbum flóðsins.

Hin olíuauðuga Líbýa hefur í reynd verið klofin frá 2014. Annars vegar er alþjóðlega viðurkennd stjórn landsins í höfuðborginni Tripoli, og hins vegar stjórn í austurhluta landsins. Vopnahlé milli stríðandi fylkinga var undirritað 2020 en pólítisk spenna er viðvarandi.

Vinnið saman

Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í yfirlýsingu að hann væri harmi sleginn yfir því að þúsundir manna hafi látist í flóðunum, og fjölmargir misst ástvini og heimili.

Hann hvatti deilendur í líbýskum stjórnmálum til að leggja til hliðar deilur sem hafa hindrað einingu þjóðarinnar og „vinna saman að því að koma aðstoð til skila.“

„Nú er þörf á einingu um að allir sem eiga um sárt að binda fái stuðning hvar í flokki sem þeir eru.“

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefur komið fyrstu matvælasendingu sinni til Líbýu.

Á næstu dögum ætlar WFP að ná til 5 þúsund fjölskyldna saem eiga um sárt að binda eftir að stíflurnar brustu í óveðrinu í kjölfar fellibylsins Daníels um helgina. Óttast er að fjöldi látinn eigi eftir að hækka enda er tíu þúsund saknað.