SÞ fagna að Bandaríkin láti af stjórn netsins

0
456

Internet

19.mars 2014.  Sameinuðu þjóðirnar hafa fagnað þvi að Bandaríkjastjórn hyggist draga sig út úr stjórn internetsins.

Bandaríkin hafa fram að þessu haft yfirumsjón með vefslóðum og öðrum lykilþáttum í uppbyggingu internetsins. Nú verður þetta hlutverk falið alþjóðasamfélaginu, í samræmi við óskir Sameinuðu þjóðanna. Síðustu 15 ár hefur fjarskipta- og upplýsingastofnun innan bandaríska viðskiptaráðuneytisins haft eftirlit með útlhlutun og sölu vefslóða með endingum á borð við .com eða .org. Bandaríkin hafa þarmeð lagað sig að óskum sem fram komu á Alþjóðlegri ráðstefnu um upplýsingasamfélagið (WSIS) sem haldin var í Túnis 2005 en þar var samþykkt að stefna að “stýringu internetsins á grundvelli samstarfs allra hagsmunaaðila.”

“Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríkisstjórnir, milliríkjasamtök, borgaralegt samfélag, einkageirann og tæknisamfélag internetsins til að taka höndum saman og halda áfram starfi við að tryggja að internetið sé ein heild, opið, frjálst, öruggt og trúverðugt,” segir Stéphane Dujarric, talsmaður Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóða fjarskiptasambandið (ITU) hefur einnig fagnað yfirlýsingu Bandaríkjastjórnar. “Internetið er sameign allra og því ættu allar þjóðir og allir borgarar að hafa jafnan aðgang að stjórnun og þróun þess,” segir Dr. Hamadoun Touré, framkvæmdastjóri ITU.

Mynd: ITU