Til hamingju með hamingjudaginn!

0
555
happy33

happy33

20.mars 2014. Grundvallar hugarfarsbreyting er að verða um allan heima á því hvernig hamingja er skilgreind.

Í dag er Alþjóðadagur hamingjunnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna haldinn í annað skipti. 

Hamingja hefur allt of lengi verið tengd í hugum manna við auð, neysluvöru, tísku eða hagvöxt. Margt bendir hins vegar til þess að fólk upplifi hamingju í sívaxandi mæli án þess að tengja hana við efnisleg gæði. Þeirri skoðun hefur vaxið fiskur um hrygg að að “framfarir” snúist um hamingju og velferð manneskjunnar, en ekki hagvöxt – hvað sem það kostar.

Í ávarpi sínu á Alþjóðlega hamingjudaginn 2014 nálgast Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þessa hugsun með því að sklgreina þrjár stoðir “vergrar alþjóðlegrar hamingju” en þær eru félagsleg- efnahagsleg og umhverfisvæn hagsæld. “Hamingja”, segir framkvæmdastjórinn, “felst hvorki í léttúð né munaði. Hún er djúpstæð þrá gjörvalls mannkyns.”

Ríkið Bútan í Himalajafjöllum hefur tekið þessa hugsun upp á sína arma með því að koma á framfæri Vergu þjóðarhamingju-vísitölunni. Hefðbundnar vístiölur á borð við verga þjóðarframleiðslu mæla efnahagslegar breytingar en undanskilja mannlega þáttinn í framþróun.

Hamingjuvísitalan er tilraun til þess að setja hið mannlega í forgang í þróunarstarfi með því að spyrja spurningarinnar: “Mun þetta færa okkur hamingju?” Þetta ætti að tryggja að þróun miði að því að bæta hlutskipti mannsins en miði ekki eingöngu að tölulegum gróða

Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig sett mannlega þáttinn í forgang í þróunarstarfi á heimsvísu, með því að einblína ekki á hagvöxt einan og sér heldur huga að lífsgæðum fólks um allan heim. Við útreikning árlegrar vísitölu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) er litið á tölfræði yfir lífslíkur, menntun og tekjur og unnin úr því samsett vísitala um Mannlega þróun (UNDP Human Development Index). Í þessari ítarlegu skýrslu eru skilgreind málefni þar sem ástæða er til að auka fjárfestingu til að auka mannlega þróun.

En af hverju höldum við hamingjudag hátíðlegan 20.mars? Eigum við ekki að vera hamingjusöm alla daga? Jú, vitaskuld en það er ákveðin ástæða fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar velja einmitt þennan dag til að halda upp á hamingjuna. Það er vegna þess að jafndægur á vori ber upp á þennan tíma en þá ríkir jafnvægi um allan heim því nótt og dagur eru jafnlöng.

Ban Ki-moon,framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skorar á alþjóðasamfélagið að vinna saman í ávarpi sínu í tilefni dagsins: “Hamingja hefur ef til vill ólíka merkingu í hugum fólks. En við getum öll sameinast um það að vinna að því að binda enda á átök, fátækt og aðrar hörmungar sem allt of margir jarðarbúar þurfa að lifa við.”