Samkomulag næst í Cancún

0
425
alt

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Cancún í Mexíkó lauk á laugardag 11. desember með samkomulagi sem gestgjafar fundarins telja skref í rétta átt. altJafnvægi er sagt ríkja í þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnir heims samþykktu og miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og efla aðgerðir í loftslagsmálum í þróunarríkjum.

 

Svonefndu Cancún samkomulagi var fagnað með lófataki að loknum löngum og ströngum samningaviðræðum á ráðstefnunni sem stóð yfir í rúman hálfan mánuð.

“Niðurstaðan í Cancún færir okkur mikilvæg verkfæri. Nú verðum við að beita þeim og efla viðleitni okkar í samræmi við vísindalegar kröfur um aðgerðir,“ sagði Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

“Cancún hefur skilað sínu. Ljósglætan hefur verið tendruð á ný og trúin á fjölþjóða ferli í loftslagsmálum hefur verið glædd að nýju,” sagði Christiana Figueres, forstjóri UNFCCC, stofnunarinnar um Rammasáttmála SÞ í loftslagsmálum. “Samkomulagið hvetur ríki til að takast á hendur metnaðarfyllri aðgerðir í framtíðinni.”

Þjóðirnar ýttu úr vör hrinu frumkvæða og stofnana til að vernda hina fátækustu og þá sem standa höllustum fæti, fyrir áhrifum loftslagsbreytinga. Að auki eru myndaðir farvegir fyrir fé og tæknikunnáttu sem þróunarríki þurfa á að halda til að byggja eigin sjálfbæra framtíð. Ríkin samþykktu raunhæfar aðgerðir til að vernda skóga í þróunarríkjum.

“Þetta er hvorki endapuntkur né byrjun. Samkomulagið er ekki svar við öllu því sem nauðsynlegt er að svara, fyrr en síðar, en leggur hins vegar nauðsynlegan grunn að sameiginlegu, metnaðarfyllra markmiði,” sagði frú Figueres.

Næsta ráðstefna aðildarríkja Rammasamkomulagsins er að ári í Suður-Afríku.