S.Súdan: 10 þúsund látnir á einum mánuði

0
438

 

South Sudan

14.janúar 2014. Ekki alls fyrir löngu var sjálfstæði Suður-Súdans fagnað með dansi á götum úti en nú þorir fólk ekki út.

Frá því fyrir mánuði, 15.desember 2013 hafa ólíkar fylkingar vígamanna barist í höfuðborg Suður-Súdans.
Átök hafa breiðst út og alþjóðasamfélagið óttast nýja borgarastyrjöld. Örfá ár eru síðan sjálfstæðinu var fagnað en vonir um bjarta framtíð hafa dofnað. Suður-Súdanir eru vanir því að glíma við erfiðar aðstæður enda eru þurrkar og flóð nánast árlegir viðburðir. Mannvirki eru fá og illa við haldið að ekki sé minnst á vegakerfið. Flest samfélög í landinu treysta á erlenda aðstoð og ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna veita íbúunum lágmarksþjónustu. Ekki færri en 352 þúsund hafa flosnað upp innanlands og 42 þúsund hafa flúið til nágrannaríkjanna.
Friðarviðræður standa yfir í Evrópu en þar er miðlað málum á milli Salva Kiir, foseta og Riek Machar, uppreisnarleiðtoga og fyrrverandi varaforseta. Lítill árangur hefur enn náðst. Flestir fjölmiðlar gefa til kynna að átökin séu á milli ættbálkanna en Kiir er af Dinka ættum en Machar hins vegar úir hópi Nuer. Þetta er hins vegar einföldun þótt þetta skýri að hluta valdbaráttu mannanna tveggja rétt eins og yfirráð yfir olíuað landsins. Þótt spenna sé á milli ættbálka er deilan fyrst og fremst pólitísk.
Ofbeldisaldan eykur á hungur og þjáningar að sögn Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Auk mannfallssins og flótta hundruð þúsunda manna stafar landbúnaðarþróun og mannúðarstarfi hætta af ofbeldinu og þar með er lífsviðurværi milljóna í veði.
„Það er brýnt að öryggi og stöðugleiki komist á í Suður-Súdan þannig að uppflosnað fólk geti snúið aftur heim og sinnt ökrum, búfénaði og fiskveiðum. Tímasetningar eru mikilvægar því fiskur er nú í ánum, hirðingjar þurfa að vernda hjarðir sínar og sáningartími maís, jarðhneta og sorghum í mars nálgast óðfluga, “ segir Sue Lautze, fulltrúi FAO í Suður-Súdan.
Friðargæslusveit SÞ, UNMISS, segir að samkvæmt fréttum fjölmiðla hafi 10 þúsund látist frá því átökin hófust fyrir mánuði. Sameinuðu þjóðirnar hafa beðið um 166 milljóna Bandaríkjadala fjárveitingar til þess að útvega uppflosnuðu fólki aðstoð fram í marsmánuð.

 

Mynd: Mánuður er liðinn frá upphafi átakanna. SÞ-mynd:Julio Brathwaite