SÞ falið lykilhlutverk í friðarviðleitni

0
522
StaffanSC

StaffanSC

21. desember 2015. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst sig reiðubúnar til að takast á hendur það hlutverk sem öryggisráðið hefur falið samtökunum í tímamótasamþykkt um málefni Sýrlands.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti á föstudag ályktun þar sem samtökunum er falið að greiða fyrir pólitísku ferli með þátttöku deilenda í Sýrlandi undir handleiðslu Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að koma á fót innan sex mánaða „trúverðugum stjórnarháttum þvert á trúarhópa, sem útiloka engan.” Semja skal nýja stjórnarskrá og halda kosningar innan hálfs annars árs. Sameinuðu þjóðunum er falin yfirumsjón og hafa allir Sýrlendingar kosningarétt, þar á meðal þeir sem staddir eru erlendis. 

Í ályktuninni er lögð áhersla á nauðsyn vopnahlés og samhliða pólitísks ferils. Vopnahlé á að ganga í gildi um leið og deilendur hafa stigið fyrstu skref í átt til valdaskipta með milligöngu Sameinuðu þjóðanna.

„Sameinuðu þjóðirnar eru reiðubúnar til að takast á hendur þetta mikilvæga hlutverk,” sagði Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri samtakanna á fundi Öryggisráðsins,

„Á meðan ríkisstjórnin og fulltrúar stjórnarandstæðinga undirbúa sig, eru Sameinuðu þjóðirnar í stakk búnar til að hefja á ný viðræðar á milli Sýrlendinga,” sagði Ban og lagði áherslu á nauðsyn þess að konur tæku af fullum krafti þátt í viðræðunum.

Í ályktuninni er sérstökum erindreka framkvæmdastjórans, Staffan de Mistura, falið að ákveða á hvern hátt stefnt skuli að vopnahléi og hvernig því skuli framfylgt, og aðildarríkin hvött til þess að hraða viðleitni til að fá vopnahlé samþykkt, þar á meðal með því að beita alla deiluaðila þrýstingi til að virða það.

Mynd: Staffan de Mistura, sáttasemjari í Sýrlandsdeilunni á fundi Öryggisráðsins.