SÞ hafa áhyggjur af lokun flóttamannabúða

0
477
fawwar refugee camp resized

fawwar refugee camp resized

26.júlí 2016. Palestínu-flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur látið í ljós þungar áhyggjur af því að Fawwar flóttamannabúðirnar nærri Hebron hafa nú verið lokaðar 25 daga í röð.

Lokunin hefur mikil áhrif á líf 9.500 flóttamanna sem þar hafast við og takmarkar möguleika UNRWA sem sinner palestínskum flóttamönnum af hálfu Sameinuðu þjóðanna til að veita mannúðaraðstoð, þar á meðal að koma lyfjum til búðanna, fjarlægja sorp og flytja starfslið sitt þangað.

Ísraelar ákváðu að takmarka aðgang að flóttamannabúðunum eftir röð ofbeldisverka fyrir lok föstumánaðarins Ramadan, en þá var meðal annars 13 ára gömul ísraelsk stúlka myrt á heimili sínu. Sameinuðu þjóðirnar, þar á meðal aðalframkvæmdastjórinn Ban Ki-moon, hafa fordæmt slíkar árásir harðlega.

Lokunin sem snertir Fawwar flóttamannabúðirnar hefur mikil félagsleg og efnahagsleg áhrif auk þess að stofna heilsu íbúanna í hættu. Aðalinngangurinn er lokaður bifreiður og gerir íbúum erfitt um vik að sækja vinnu utan búðanna. Umferð gangandi vegfarenda er leyfð.

Scott Anderson, heimsótti búðirnar fyrir hönd UNRWA og var einungis leyfður aðgangur eftir viðræður við ísraelsk stjórnvöld. Eftir heimsóknina sagði hann: „Ég fordæmi þessa lokun enda felst í henni sameiginleg refsing. Ég hvet ísraelsk yfirvöld til að láta hjá líða að beita saklaust fólk refsingu fyrir gerðir annara.“

Sameiginlegar refsingar á herteknum svæðum eru bannaðar samkvæmt alþjóðalögum. Í 33.grein fjórða Genfarsáttmálans frá 1949 er skýrt tekið fram að „enginn skuli sæta refsingu fyrir brot sem hann eða hún hefur ekki persónulega framið.“

Mynd: Dominiek Benoot/UNRWA