Mannfall eykst í Afganistan

0
524
afghanistan

afghanistan

25.júlí 2016. Fjöldi látinna og særðra óbreyttra borgara í Afgtanist fer vaxandi að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út í dag.


Alls hafa 5,166 óbreyttir borgarar fallið eða særst í átökum það sem af er árinu, og er það mesti fjöldi frá því slík talning hófst árið 2009. Þriðjungur eru börn. Alls eru fórnarlömbin 63,935 frá 1.janúar 2009, þar af 22,934 látnir og 40,993 særðir.

Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa 1,601 látist og 3,565 særst og hafa fórnarlömb á meðal óbreyttra borgara ekki verið fleiri á hálfs árs tímabili frá 2009 að sögn mannréttindasviðs sveitar Sameinuðu þjóðanna í Afganistan (UNAMA).

1,509 börn, þar af 388 látin og 1,121 særð eru á meðal fórnarlamba á fyrstu sex mánuðum 2016, en Zeid Ra’ad Al Hussein, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir þetta „uggvekjandi og skammarlegt.”

130 konur létust og 377 særðust. Þessar tölur eru taldar í lægri kantinum vegna þess hve miklar kröfur eru gerðar til áreiðanleika upplýsinganna.

Tadamichi Yamamoto, yfirmaður UNAMA lagði áherslu á að skýrslan væri áminning til stríðandi fylkinga um að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að hlífa óbreyttum borgurum við hryllingi stríðsins.

„Hvert og eitt þeirra fórnarlamba sem getið er í skýrslunni – fólk sem lætur lífið við bænir, í vinnu, þegar það sækir vatn eða liggur á sjúkrahúsi – er áminning til deilenda um að taka raunhæf skref til að draga úr þjáningum óbrettra borgara og auka vernd þeirra,“ segir Yamamoto.