SÞ segja árás á fæðingadeild „hryllilega“

0
553

Sameinuðu þjóðirnar segja að fréttir af árás Rússa á fæðingadeild og barnasjúkrahús í Úkraínu séu „hryllilegar“. Börn grófust undir rústum sjúkrahússins, að sögn embættismanna í Úkraínu.

Árásin hefur ekki verið staðfest af óháðum aðilum. Talsmaður aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna Stéphane Dujarric segir að samtökin muni kanna þessar fréttir sem hann segir „reiðarslag.“

Hann ítrekaði hvatningar Sameinuðu þjóðanna um að árásum á heilsugæslustöðvar, sjúkrahús, heilbrigðisstarfsmenn og sjúkrabifreiðar verði hætt þegar í stað, „slíkt ætti aldrei að vera skotmark.“

Hvers kyns árásir á heilbrigðiskerfi eru skýr brot á alþjóðlegum mannúðarlögum.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri sagði fréttir af árásum „hræðilegar“ á Twitter. Hann sagði að óbreyttir borgarar „yrðu harðast úti í stríði sem þeir bera enga sök á. Stöðvar ber þetta vitfirrta ofbeldi.“

Börn líða

Catherine Russell forstjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sagðist „skelfingu lostin vegna frétta af árásinni. Börn og konur í fæðingu grófust undir rústum eyðilagðra bygginga. Við vitum ekki fjölda særðra og látinna, en ástæða er til að búa sig undir hið versta,“ sagði hún í yfirlýsingu.

„Ef þessi árás er staðfest, undirstrikar það hve mikið börn og fjölskyldur líða fyrir hernaðinn í Úkraínu,“ bætti hún við. „Á minna en tveimur vikum, hafa ekki færri en 37 börn látist og 50 særst og ein miljón barna orðið landflótta í nágrannaríkjum Úkraínu.“

Margar árásir

Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sagði að hingað til hefði stofnunin sannreynt átján árásir á heilsugæslu, heilbrigðisstarfsmenn og sjúkrabifreiðar eftir innrás Rússlands í Úkraínu, með þeim afleiðingum að 10 hefðu látist og 16 særst.

„Þessar árásir svipta heilu samfélögin heilsugæslu,“ sagði hann.

Natalia Kanem forstjóri UNPFA, Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, gagnrýndi árásina harðlega og sagði að konur og börn ættu aldrei að vera skotmörk í stríði.