Stofnanir SÞ: Hver gerir hvað?

0
730

Upplýsingar um uppbyggingu SÞ og hvaða hlutverki hinar ýmsu stofnanir SÞ gegna. Upplýsingar um starfsemi sendinefnda á allsherjarþinginu, hverjir sitja í öryggisráðinu, hvert hlutverk gæsluverndarráðsins er, starfsemi Alþjóðadómstólsins og skrifstofu SÞ.

Grundvallarupplýsingar varðandi uppbyggingu SÞ.

unhq.jpg

{mospagebreak title=Allsherjarþingið}

Allsherjarþingið

Allsherjarþingið er aðalstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar geta allar þjóðir kvatt sér hljóðs um hvers kyns málefni. Öll aðildarríki SÞ eiga fulltrúa þar. Ríkir og fátækir, stórir og smáir, sérhver þjóð hefur sitt atkvæði. Mikilvæg málefni ná því aðeins samþykki að þau hljóti tvo þriðju hluta greiddra atkvæða. Þótt sérhvert land hafi eitt atkvæði, hefur það sendinefnd, sem oft er skipuð nokkrum fulltrúum. Í forsvari fyrir hverri sendinefnd er yfirleitt ríkiserindreki sem hefur stöðu sendiherra.

general_assembly.gif
Þingsalurinn þar sem allar 185 sendinefndir hittast. Allsherjarþingið hélt fyrsta fund sinn í þessum salarkynnum á sjöunda reglulega þingi samtakanna, þann 14. október 1952.

Allsherjarþingið kemur saman einu sinn á ári. Þingið hefst þriðja þriðjudag í september og stendur í að minnsta kosti þrjá mánuði. Sérstök þing er hægt að halda á öðrum tímum ársins og neyðarfundi hvenær sem er.

Allsherjarþingið kýs forseta á hverju ári, hann er í forsæti fyrir – þ.e. stjórnar fundum Allsherjarþingsins.

Samþykktir

Ályktanir sem Allsherjarþingið samþykkir eru aðeins tilmæli til aðildarríkjanna. En samt sem áður eru þessi tilmæli afar þýðingarmikil vegna þess að Allsherjarþingið er rödd sem tjáir skoðun svo til allra landa í heiminum

Þing

Allsherjarþingið kemur saman einu sinni á ári og hefst hver fundur á almennri umræðu, þar sem ræðurnar eru yfirleitt fluttar af leiðtogum ríkjanna eða háttsettum fulltrúum þeirra. Árið 1995, á 50 ára afmælishátíð SÞ, voru allir leiðtogar aðildarríkjanna samankomnir í aðalstöðvunum í New York.

Hlutverk allsherjarþingsins:

  • Að ræða og gefa umsögn um hvaða málefni sem er (nema þau sem á sama tíma eru til umræðu í Öryggisráðinu)
  • Að ræða mál er varða hernaðarátök, friðargæslu og afvopnun
  • Að ræða aðferðir og leiðir til að bæta stöð barna, unglinga og kvenna
  • Að ræða málefni sjálfbærrar þróunar og mannréttindi
  • Að ræða hve mikið hvert aðildarríki á að greiða til reksturs SÞ og hvernig fjármagninu er varið

Aðalmálefni

Að lokum almennra umræðna er eftirfarandi sex aðalmálefni rædd á allsherjarþinginu:

  • Fyrsta málefni (Afvopnun og alþjóðaöryggi)
  • Annað málefni (Efnahags- og fjárhagsleg málefni)
  • Þriðja málefni (Félagsleg- mannúðar og menningarleg málefni)
  • Fjórða málefni (Sérstök pólitísk mál og afnám nýlendustefnu)
  • Fimmta málefni (Stjórn mála og fjármögnun)
  • Sjötta málefni (Lagaleg málefni)

Nánari upplýsingar um allsherjarþingið á ensku: www.un.org/ga

{mospagebreak title=Öryggisráðið}

Öryggisráðið

Öryggisráðið var stofnað til að vera aðalverndari friðar í heiminum. Allsherjarþingið getur rætt öll heimsmál en öryggisráðið fjallar aðeins um vandamál er varða frið og öryggi. Öll aðildarríki SÞ samþykktu að lúta ákvörðunum Öryggisráðsins og fara eftir þeim.

security_council.gif
Salur Öryggisráðsins, gjöf frá Norðmönnum, var hannaður af norska listamanninum Arnstein Arneberg. Gríðarstór veggmynd eftir Per Krohg (Noregi), sem táknar loforð um framtíðarfrið og frelsi einstaklingsins, þekur mestan hluta austurveggs salarins.

Aðild

Öryggisráðið er skipað 15 fulltrúum. Fimm þeirra eru fastafulltrúar. Það eru: Kína, Frakkland, Rússland, Bretland og Bandaríkin. Hinir tíu fulltrúarnir sem ekki eru fastir fulltrúar eru valdir á allsherjarþinginu til tveggja ára í senn og eru valdir út frá landfræðilegu sjónarmiði.

Þing

Öryggisráðið heldur ekki reglulega fundi eins og Allsherjarþingið. Hins vegar er hægt að kalla saman fund í öryggisráðinu hvenær sem er með stuttum fyrirvara. Sérhvert land, hvort sem það er aðili að SÞ eða ekki, eða aðalframkvæmdastjórinn geta lagt ágreiningsefni eða friðarhótanir fyrir öryggisráðið.

Meðlimirnir skiptast á að vera forsetar ráðsins í mánuð í senn. Þeir starfa eftir stafrófsröð þeirra landa sem þeir eru fulltrúar fyrir samkvæmt enska stafrófinu.

Atkvæðagreiðsla

Hlutverk öryggisráðsins:

  • Að fjalla um málefni er ógna heimsfriði og geta leitt af sér alþjóðaátök
  • Að leggja fram grundvallarlausnir við alþjóðaátök
  • Að koma með tillögur að framkvæmdum gegn hverskonar ógn gegn heimsfriði og öryggi
  • Að koma með tillögur til allsherjarþingsins varðandi val á aðalframkvæmdastjóra

Atkvæðagreiðsla í öryggisráðinu fer öðruvísi fram en á allsherjarþinginu. Til þess að samþykkja mikilvæga ályktun í öryggisráðinu, þurfa níu aðilar að greiða meðatkvæði, en ef einhver fastafulltrúanna fimm greiða mótatkvæði, er það kallað að beita neitunarvaldi og ályktunin verður þá ekki samþykkt.

Nánari upplýsingar um öryggisráðið á ensku: http://www.un.org/Docs/sc/

{mospagebreak title=Efnahags- og félagsmálaráðið}

Efnahags- og félagsmálaráðið

Efnahags- og félagsmálaráðið er í daglegu tali kallað ECOSOC.

Verkefni þess eru efnahagsvandamál, svo sem viðskipti, samgöngur, iðnvæðing og efnahagsleg þróun, ennfremur félagsmál, svo sem mannfjöldi, börn, hýbýli, réttindi kvenna, kynþáttamismunun, fíkniefni, glæpir, félagsleg velferð, ungmenni, mannlegt umhverfi og matvæli. Ráðið veitir einnig ráðgjöf um hvernig bæta megi menntun og heilsufar og stuðlar að því að skapa virðingu fyrir og hafa eftirliti með mannréttindum og frelsi fólks hvar sem er í heiminum.

54 lönd eiga fulltrúa í ECOSOC. Allir eru valdir á allsherjarþinginu til þriggja ára í senn. Ráðið heldur að jafnaði eitt þing á ári og ákvarðanir þess þurfa meirihluta greiddra atkvæða.

ecosoc.jpg
Fundarsalur Efnahags- og félagsmálaráðsins var gjöf frá Svíþjóð og var salurinn hannaður af Svíanum Sven Markelius.

Nefndir

Starfssvið ECOSOC er of yfirgripsmikið til að ein stofnun geti annað því, þess vegna hefur ráðið margar nefndir til aðstoðar.

Sumar eru þekktar sem starfandi nefndir og þær eru ECOSOC ráðgefandi í sérstökum málefnum. Þær eru:

  • Mannréttindanefnd
  • Fíkniefnanefnd
  • Nefnd um félagslega þróun
  • Nefnd um mannfjölda og þróun
  • Nefnd um stöðu kvenna
  • Nefnd um tölfræðileg málefni
  • Nefnd um varnir gegn glæpum og réttláta meðferð glæpamála
  • Nefnd um sjálfbæra þróun
  • Nefnd um vísinda- og tækniþróun
Hlutverk efnahags- og félagsmálaráðsins:

  • Vera aðalvettvangur málefna er viðkoma efnahags- og félagslegsmál
  • Efla lífsgæði, atvinnu og efnahags- og félagslega þróun
  • Leysa alþjóðleg efnahags,- félagsleg- og heilbrigðisvandamál. Ráðið starfar einnig á alþjóðavettvangi með menningar og menntamál
  • Stuðla að því að skapa virðingu fyrir mannréttindum og frelsi fólks.

Aðrar nefndir eru svæðisbundnar nefndir sem fást við sérstök vandamál mismunandi landfræðilegra svæða. Þær eru:

ECA Efnahagsmálanefnd fyrir Afríku
ECE Efnahagsmálanefnd fyrir Evrópu
ECLAC Efnahagsmálanefnd fyrir Suður-Ameríku og Karabísvæðið
ESCAP Efnahags- og félagsmálanefnd fyrir Asíu og Kyrrahafssvæðið
ESCWA Efnahags- og félagsmálanefnd fyrir Vestur-Asíu.

ECOSOC er ekki eingöngu háð hinum starfandi og svæðisundnu nefndum, heldur vinnur ráðið einnig með svokölluðum sérstofnunum ásamt ýmsum áætlunum, sjóðum og öðrum undirstofnunum sem taka þátt í verkefnum SÞ. Oft vinna þessir aðilar saman að því að hrinda sérstökum verkenum í framkvæmd.

{mospagebreak title=Gæsluverndarráðið}

Gæsluverndarráðið

Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar var svo ástatt í sumum löndum heimsins að fólk var víða ófrjálst. Sum lönd voru sett undir stjórn annars ríkis samkvæmt tilskipun í lok fyrri heimstyrjaldarinnar. Önnur lönd voru aðskilin frá óvinaríkjum í lok síðari heimstyrjaldarinnar. Þegar SÞ hófu göngu sína var þessum landsvæðum komið undir sérstaka vernd og þau gerð að svokölluðum Gæsluverndarsvæðum.

Gæsluverndarráðinu var komið á fót sem stofnun SÞ til að hafa eftirlit með félagslegum framförum fólks sem bjó á þessum landsvæðum. Landsvæðin voru upprunalega ellefu, flest í Afríku og við Kyrrahafið.

trusteeship.jpg
Fundarsalur ráðsins var innréttaður af Dönum og hannaður af Finn Juhl. Andspænis einum veggnum er níu feta há stytta af konu sem heldur vopni á lofti. Henrik Starcke, sem einnig er frá Danmörku, hefur skorið styttuna út í teak-við.

Fulltrúar

Í Gæsluverndarráðinu eiga sæti fastafulltrúarnir í Öryggisráðinu, það er að segja fulltrúar Kína, Frakklands, Rússlands, Bretlands og Bandaríkjanna. Sérhver fulltrúi hefur eitt atkvæði og einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála.

Fundir

Gæsluverndarráðið kom venjulega saman einu sinni á ári í maí og júní. Var þá farið yfir skýrslur frá gæsluþjóðunum og athugað hvort stuðlað væri að sjálfstæði þjóðanna og sjálfsákvörðunarrétti þeirra, farið yfir kvartanir og fulltrúar sendir til að heimsækja gæslusvæði til að athuga hvers konar hjálp væri þörf fyrir. Þar sem síðasta gæsluverndarsvæðið – Palau, sem áður laut stjórn Bandaríkjanna – öðlaðist sjálfstjórn í október 1994 hefur starfsemi ráðsins formlega verið lögð niður eftir næstum hálfrar aldar starfssemi. Ráðið verður aðeins kallað saman ef nauðsyn krefur.

Sameinuðu þjóðirnar fylgjast einnig með fólki sem býr á landsvæðum sem ekki hafa sjálfstjórn. Þessi landsvæði eru stundum kölluð nýlendur og er stjórnað af öðru landi sem ræður málefnum þeirra. Þar sem Gæsluverndarráðið hafði aðeins umsjá með gæsluverndarsvæðunum samþykkti Allsherjarþingið árið 1960 yfirlýsingu um að flýta fyrir sjálfstæði allra nýlendna og allra þjóða. Næsta ár var stofnuð sérstök nefnd með það verksvið að hvetja til sjálfstæðis allra nýlenda. Löndin sem stjórna nýlendunum senda nefndinni reglulega skýrslur um ástand mála í nýlendunum. Frá því að yfirlýsingin var samþykkt hafa um 80 nýlendur öðlast sjálfstæði og allar hafa þær gerst aðilar að SÞ.

Afnám nýlendustefnu

Árið 1945 bjuggu um um 750 milljónir manna, nálægt þriðjungur allra íbúa heimsins á þeim tíma, á landsvæðum sem lutu stjórn annarra ríkja. Þessi lönd, sem kallast nýlendur, voru undir stjórn valdamikilla ríkja þ.m.t. Frakklands, Portúgals og Bretlands. Aðgerðirnar sem kallast „afnám nýlendustefnu“, voru flestar framkvæmdar með aðstoð SÞ. Árið 1960 samþykkti allsherjarþingið yfirlýsingu sem stuðlar að tafarlausu afnámi nýlendustefnu og að koma í veg fyrir skerðingu mannréttinda. Fyrir tilstuðlan þessarar yfirlýsingar eru um 80 af þessum fyrrum nýlendum nú aðildarríki SÞ. Í dag eru íbúar nýlenda komin niður í 1,5 milljónir.

{mospagebreak title=Alþjóðadómstóllinn}

Alþjóðadómstóllinn

Alþjóðadómstóllinn er helsta stofnun Sameinuðu þjóðanna sem kveður upp dóma að lögum.

Aðeins lönd, en ekki einstaklingar, geta flutt mál fyrir dómstólnum. Hafi land ákveðið að leggja mál fyrir dómstólinn er það skuldbundið til að hlíta dómi hans. Aðrar stofnanir SÞ geta leitað lagalegra leiðbeininga hjá dómstólnum.

Hvernig virkar dómstóllinn?

Alþjóðadómstóllin hefur aðsetur í Haag, í Hollandi og starfar árið um kring. Dómararnir eru fimmtánen þeir eru kjörnir af allsherjarþinginu og öryggisráðinu. Aðeins einn dómari getur verið frá hverju landi. Níu dómarar þurfa að vera sammála til að hægt sé að kveða upp úrskurð.

19-Int_CourtofJustise.GIF Dómstóllinn hefur aðstoðað við að leysa margan ágreining. Árið 1992 úrskurðaði dómstóllinn um mörk land- og hafsvæða milli El Salvador og Hondúras. Dómstóllinn hefur einnig úrskurðað í ágreiningi sem varðaði markalínu sem skiptir meginlandshellunni og einnig kveðið upp úr í ágreiningi um fiskveiðimörk milli Danmerkur og Noregs. Önnur nýleg ákvörðun dómstólsins fjallar um beitingu samnings Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð í löndum fyrrum Júgóslavíu (1993).
Alþjóðadómstóllinn í Haag, Hollandi.

Nánari upplýsingar um alþjóðadómstólinn á ensku: www.icj-cij.org

{mospagebreak title=Skrifstofan}

Skrifstofan

Allt starfslið Sameinuðu þjóðanna er starfsfólk skrifstofunnar. Framkvæmdastjórinn er yfirmaður skrifstofunnar og honum til aðstoðar er alþjóðlegt starfslið sem annast hin daglegu störf. Skrifstofan veitir öðrum stofnunum SÞ þjónustu og sér um framkvæmd á verkefnum og framfylgir stefnuályktunum SÞ.

Hvernig starfar skrifstofan?

Rúmlega 50.000 manns um allan heim starfa hjá Sameinuðu þjóðunum – nánar tiltekið hjá skrifstofunni í New York og svæðaskrifstofunum ásamt sérstofnunum og að verkefnum – Um það bil 5000 þeirra vinna í Aðalstöðvunum í New York. Þeirra á meðal eru hagfræðingar, lögfræðingar, ritstjórar, bókasafnsfræðingar, þýðendur og sérfræðingar á ýmsum sviðum sem vinna „á bak við tjöldin“. Til að tryggja fjölþjóða starfslið ráða SÞ hæft starfsfólk frá eins mörgum mismunandi löndum og hægt er. Yfirleitt fara fram samkeppnispróf þegar ráðið er nýtt starfslið. Starfsmannaskrifstofur SÞ hafa nafnaskrár yfir alla hæfa starfskrafta og allir hæfir umsækjendur geta komið til álita um starf hjá skrifstofunni.

UNbuilding_daylight.gif Hlutverk skrifstofunnar:

  • Að safna upplýsingum um ýmis mál svo stjórnarerindrekar geti kynnt sér staðreyndir í málunum er þeir þurfa að gefa ráðleggingar
  • Að aðstoða við framkvæmd ákvarðana innan SÞ
  • Að skipuleggja alþjóðlegar ráðstefnu
  • Að túlka ræður og þýða skjöl á þeim tungumálum sem SÞ nota
Skrifstofubyggingin er árangur alþjóðlegrar samvinnu en hún var hönnuð af hópi heimsþekktra arkitekta undir forystu Wallace K. Harrison frá Bandaríkjunum.

Nánari upplýsingar um skrifstofuna á ensku: www.un.org/documents/st.htm

{mospagebreak title=Nokkrar sérstofnanir og undirstofnanir SÞ}

Nokkrar sérstofnanir og undirstofnanir SÞ

undp.jpgUNDP: Þróunaráætlun SÞ aðstoðar ríki við stuðlun sjálfbærrar þróunar. UNDP er nú með fjölda verkefna í gangi í þróunarlöndunum með aðstoð yfir 100 svæðisstofa.
Nánari upplýsingar um UNDP á ensku: www.undp.org

unicef.gifUNICEF: Barnahjálp SÞ er sú stofnun sem er í forsvari fyrir, þróar og verndar réttindi barna. UNICEF vinnur jafnframt að því að börn sem búa við hættu fái dygga vernd.
Nánari upplýsingar um UNICEF á ensku: www.unicef.org

unep-logo-small.gifUNEP: Umhverfisstofnun SÞ hefur það að markmiði að leiða og styrkja samvinnu í umhverfisverndarmálum. UNEP hefur umsjón með umhverfismálum, umhverfisvernd og varúðarverkefnum.
Nánari upplýsingar um UNEP á ensku: www.unep.org

unfpa.gifUNFPA: Mannfjöldasjóður SÞ aðstoðar við fræðslu heilbrigðar mannfjölgunar, þ.á.m. með fjölskylduáætlunum og kynlífsfræðslu. UNFPA tekur einnig á þeim vanda sem oft fylgja fólksfjölgun.
Nánari upplýsingar um UNFPA á ensku: www.unfpa.org

wfp.jpgWFP: Matvælaáætlun SÞ dreifir mat til þeirra sem búa við kreppu. WFP veitir fólki og samfélögum aðstoð svo þau geti bjargað sér með „matvæli-fyrir-vinnu“ verkefnum. Jafnframt aðstoðar WFP við að útvega mat fyrir börn -sérstaklega stúlkur- svo þau geti sótt skóla.
Nánari upplýsingar um WFP á ensku: www.wfp.org

unhcr.jpgUNHCR: Flóttamannastofnun SÞ veitir flóttamönnum lagalega aðstoð og leitast við að finna varanlegar lausnir á vandamálum þeirra. Annars vegar með aðstoð við að komast frítt aftur til síns heima eða með flutningi til annarra landa. UNHCR aðstoðar jafnframt þá sem eru á reiki og/eða flótta í eigin landi, t.d. með dreifingu matar á þeim svæðum er neyðarástand ríkir, hjálpastarfi frá samfélaginu, lyfjaaðstoð og möguleika á menntun.
Nánari upplýsingar um UNHCR á ensku: www.unhcr.org
ilo.jpgILO: Alþjóðavinnumálastofnunin heldur utan um verkefni og áætlanir sem stuðla að því að grundvallarmannréttindum sé framfylgt, að bættum atvinnu- og lífsskilyrðum og auknum atvinnumöguleikum.
Nánari upplýsingar um ILO á ensku: www.ilo.org
fao.gifFAO: Matvæla- og landbúnaðarstofnunin vinnur að því að fyrirbyggja hungur og vannæringu ásamt því að auka fæðumöguleika í heiminum. FAO aðstoðar aðildarríkin við eflingu sjálfbærrar þróunar innan landbúnaðar.
Nánari upplýsingar um FAO á ensku: www.fao.org

unesco.jpgUNESCO: Menningarmálastofnun SÞ eflir skilning manna á þróunarmálum og stendur vörð um mennta- og menningarmál sem og siðferðismál. UNESCO er jafnframt alþjóðamiðstöð fyrir upplýsingar um þróun mennta,- vísinda,- menningar- og samskiptamála.
Nánari upplýsingar um UNESCO á ensku: www.unesco.org
who.jpgWHO: Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leiðir og stjórnar alþjóðaverkefnum innan heilbrigðisgeirans og stuðlar að faglegu samstarfi á því sviði. Stofnunin leitast við að hindra, og að hafa stjórn á farsóttum og öðrum sjúkdómum, aðstoðar lönd – að þeirra ósk – við eflingu heilbrigðiskerfa og auka faglega aðstoð og aðgerðir þar sem ríkir neyðarástand.
Nánari upplýsingar um WHO á ensku: www.who.org