Tuttugu ár frá sprengjutilræðinu mannskæða í höfuðstöðvum SÞ í Bagdad

0
37
Starfsfólk SÞ í Bagdad leitar í rústum Canal hótelsins 2003.
Starfsfólk SÞ í Bagdad leitar í rústum Canal hótelsins 2003.

Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmanna eða mannúðarstarfsmanna er haldinn ár hvert 19. ágúst. Sú dagsetning var valin fyrir þennan alþjóðlega dag því 19.ágúst 2003 létust 22 og 100 særðust í hryðjuverkaárás á höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Bagdad, höfuðborg Íraks. Þeirra á meðal var Sergio Viera de Mello sérstakur erindreki aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

 Af því tilefni skrifaði Martin Griffiths framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum eftirfarandi grein.

Martin Griffiths framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum
Martin Griffiths framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum

Dimmasti dagurinn

Þess er minnst 19.ágúst á Alþjóðlegum degi hjálparstarfsmanna að tuttugu ár eru liðin frá því hryðjuverkamenn sprengdu sig í loft upp við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna á Canal hótelinu í Bagdad. Á þeim tíma sagði Kofi Annan þáverandi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að þetta væri einn dimmasti dagur í sögu Sameinuðu þjóðanna. Það er hann enn.

Í mínum huga takast á mismunandi tilfinningar á Alþjóðlega degi hjálparstarfsmanna. Einn þeirra sem lést var Sergio Vieira de Mello, en hann var sérstakur erindreki aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Írak. Sergio var vinur minn og guðfaðir dóttur minnar.

Sergio de Mello 1948-2003
Sergio de Mello 1948-2003

Sergio helgaði líf sitt SÞ

Sergio helgaði líf sitt Sameinuðu þjóðunum. Hann gekk til liðs við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna árið 1969, skömmu eftir að hann útskrifaðist úr háskóla. Hann gegndi ýmsum embættum hjá Sameinuðu þjóðunum það sem hann átti eftir ólifað og voru falin sífellt ábyrgðarmeiri störf. Ég vann fyrst með honum 1996 þegar hann starfaði um skamma hríð sem samræmandi mannúðaraðstoðar í Afríku. Ég var fyrst staðgengill hans og tók síðan við af honum. En ég kynntist honum ekki í raun fyrr en við settumst á sama tíma að í New York þegar Samræmingarskrifstofa Mannúðarmála (OCHA) var sett á stofn. Hann varð framkvæmdastjóri mannúðarmála og enn á ný var ég staðgengill hans.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna eftir sprengjutilræðið 19.ágúst 2003.
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna eftir sprengjutilræðið 19.ágúst 2003.

Við urðum nánir vinir og unnum af ástríðu við að leysa margslungin vandamál á sviði mannúðarmála í heiminum. Kjarninn í starfi Sergio og ástríða hans snerist um stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, enda hafði hann eintak af henni ætíð á sér. Skýr heimssýn knúði málflutning hans áfram og setti mark á orðræðu hans. Við urðum nánir vinir og ég er enn stoltur af því að dóttir mín er guðdóttir hans. Þessi blanda persónulegs trausts og náins samstarfs urðu þes valdandi að fráfall hans varð mér í senn áfall og lærdómur – og sama á við um marga aðra. Fordæmi hans er mér leiðarljós og nú axla ég þá ábyrgð sem hann gerði fyrir allmörgum árum.

Að hjálpa Írka við enduruppbyggingu

Það snart mig djúpt þegar hann féll frá, enda mjög óvænt. Ég stóð skyndilega andspænis dauðleika okkar, þrátt fyrir margra ára starf á átakasvæðum. Ég syrgi hann enn í dag.

Alls létust 22 þennan dag og 100 særðust. Stór hluti þeirra var starfsfólk Sameinuðu þjóðanna. Margir voru Írakar. Það sem sameinaði þau öll var markmiðið um að hjálpa Írak að ná sér og endurbyggja landið.

Sergio Vieira de Mello átti stóran þátt í að leiða Austur-Tímor til sjálfstæðis.
Sergio Vieira de Mello átti stóran þátt í að leiða Austur-Tímor til sjálfstæðis.

Mér er vel ljóst hvað þessi dagur hlýtur að þýða fyrir fjölskdyldur, vini og samstarfsmenn þeirra, sem þessi dagur snertir. Og að sama skapi alla aðstandendur þeirra sem drepnir, hafa verið særðir, eða sætt mannráni við starf í þágu mannúðar síðan. Og ég veit hvað slíkt þýðir fyrir allt mannnúðarsamfélagið og allt samfélag Sameinuðu þjóðanna: að þegar við missum einn, er það tap okkar allra. Ég deili með ykkur sorginni og sársaukanum.

Enginn sætti ábyrgð

Ég skynja líka reiði. Reiði vegna þess að þeir sem báru ábyrgð á sprengingunni á Canal hótelinu voru aldrei dregnir til ábyrgðar. Sama máli gegnir oftast um árásir á heilbrigðisstarfsmenn og óbreytta borgara í átökum. Reiðin snýst einnig um að ár eftir ár eru mannúðarstarfsmenn skotmörk vitandi vits. Þeir eru drepnir, særðir eða rænt við skyldustörf sín. 400 hjálparstarfsmenn voru fórnarlömb slíkra glæpa á síðasta ári; meirihlutinn heimamenn þar sem þeir störfuðu.

Lík Sergio de Mello flutt frá Írak.
Lík Sergio de Mello flutt frá Írak.

Refsileysi við þessum glæpum er hræðilegt sár á samvisku okkar allra. Fróm orð breyta litlu, aðgerða er þörf. Það er tími til kominn að aðgerðir fylgi orðum. Það er tími til kominn að farið sé eftir alþjóðlegum mannúðarlögum og refsileysi brotið á bak aftur.

Stolt

Á Alþjóðlegum degi hjálparstarfsmanna er mér þó stolt efst í huga. Stolt yfir því að hafa unnið með manni á borð við Sergio. Og stolt yfir að vera hluti af samstökum og samfélagi sem heldur áfram að Helga líf sitt því að hjálpa bágstöddu fólki um allan heim þrátt fyrir áhættu.

Á Alþjóðlegum degi hjálparstarfsmanna heiðra ég Sergio og alla þá sem létu lífið eða særðust í sprengingunni á Canal hótelinu fyrir 20 árum. Ég votta öllum þeim virðingu mína sem hafa verið drepnir, særðir eða rænt við störf í þágu mannúðar. Og ég heiðra alla þá sem halda áfram að starfa í þágu þeirr hundruð milljóna sem eiga um sárt að binda um víða veröld, hvað sem á dynur.

Tíu ára afmælis tilræðisins minnst í Genf.
Tíu ára afmælis tilræðisins minnst í Genf.

Minning heiðruð

Í starfi mínu sem samræmandi neyðaraðstoðar og framkvæmdastjóri mannnúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum heiti ég hjálparstarfsfólki á þessum alþjóðlega degi: við munum halda áfram að tala fyrir öryggi ykkar á meðan þið sinnið ykkar þýðingarmikla starfi. Við munum veita kerfisbundna og fyrirsjáanlega forystu til að tryggja öruggan aðgang fyrir hjálparstarf. Við munum halda áfram að hvetja til að þeir sem brjóta alþjóðleg mannúðarlög þurfi að sæta ábyrgð. Og við munum gera okkar besta til að koma ykkur til hjálpar þegar þið þurfið á því að halda.

Það er ekki á okkar valdi að þeir sem teknir hafa verið frá okkur snúi aftur. En við getum heiðrað minningu þeirra með því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda áfram starfi þeirra.