Stuðningur við flóttamenn hefur dvínað eftir innrásina í Úkraínu

0
16
Kona og barn snúa saman lófum.
Kona og barn snúa saman lófum. Norðurlöndin þrjú í könnuninni eru almennt heldur jákvæði í garð flóttamanna en sumt kemur á óvart. Mynd: Mads Schmidt Rasmussen / norden.org

Flóttamenn. Alþjóðlegi flóttamannadagurinn. Þrír fjórðu hlutar fullorðinna styðja að veita skuli þeim hæli sem flýja stríð eða ofsóknir. Þetta er niðurstaða veigamikillar alþjóðlegrar skoðanakönnunar í aðdraganda Alþjóðlega flóttamannadagsins 20.júní. 

Stuðningur við að veita fólki hæli hefur dalað í nokkuð mörgum löndum frá þeim mikla stuðningi sem mældist 2022 í kjölfar allsherjar innrásar Rússlands í Úkraínu. Könnunin náði til fimmtíu og tveggja ríkja í heiminum.

Fjölbreytt mannlífsflóra á Norðurlöndum.
Fjölbreytt mannlífsflóra á Norðurlöndum. Mynd: Mads Schmidt Rasmussen / norden.org

Danmörk Finnland og Svíþjóð í könnuninni

Fimm hundruð manns í hverju þriggja Norðurlandanna, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, tóku þátt í könnuninni.

Almennt var viðhorf í garð flóttamanna heldur jákvæðara í Norðurlöndunum þremur en að meðaltali í ríkjunum fimmtíu og tveimur.

Þegar spurt var um almenna afstöðu til þess að veita fólki hæli voru Svíar á meðal jákvæðustu þjóða. 81% svöruðu spurningunnni játandi, en Danir og Finnar (74% og 71%) voru nærri meðaltalinu (73%).

Ekki eru allir sem koma til Norðurlanda jafn slyngir hjólreiðamenn og heimamenn
Ekki eru allir sem koma til Norðurlanda jafn slyngir hjólreiðamenn og heimamenn. Mynd: Mads Schmidt Rasmussen / norden.org

Svíar voru einnig jákvæðastir þjóðanna þriggja þegar spurt var um hvort flóttamenn hefðu jákvæð áhrif á samfélagið. Þeir voru fimmtu hæstir allra þjóðanna fimmtiú og tveggja en 59% töldu áhrifin jákvæð. Danir (46%) voru nærri meðaltalinu (44%) en Finnar (40%) heldur lægri.

Danir (47%) voru jákvæðastir þegar spurt var um árangursríka aðlögun flóttamanna að samfélaginu. Finnar og Svíar (40% báðar þjóðir) voru töluvert undir heimsmeðaltalinu (51%).

Finnland (61%) og Svíþjóð (55%) voru nærri meðallaginu (61%) þegar spurt var um fullyrðingu þess efnis að hælisleitendur væru fremur á höttunum eftir efnahagslegum ávinningi en skjóli fyrir ofsóknum. Töluvert færri Danir (50%) voru sammála þessari fullyrðingu.

Taka ber með í reikninginn að aðeins úrtökin í Danmörku og Svíþjóð teljast endurspegla fullkomlega þjóðirnar. Í Finnlandi voru aðspurðir fleiri í þéttbýli og betur menntaðir en Finnar að meðaltali.

Merki Alþjóðlega flóttamannadagsins 2024.
Merki Alþjóðlega flóttamannadagsins 2024.

Samstaða með flóttamönnum

Alþjóðlegi flóttamannadagurinn er að þessu sinni haldinn með kjörorðið „samstaða með flóttamönnum“ að vopni. Lögð er áhersla á að stefnt sé að heimi þar sem flóttamenn eru velkomnir. Samstaða þýðir að „dyrum sé haldið opnum “. Styrk og árangri flóttamanna er fagnað en jafnframt horfst í augu við þær áskoranir sem þeir glíma við.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til alþjóðlegrar samstöðu með flóttamönnum og samábyrgðar heimsbyggðarinnar í ávarpi á Alþjóðlega flóttamannadeginum.

„Við skulum heita því að standa við sameiginlega ábyrgð veraldarinnar á því að aðstoða og bjóða flóttamenn velkomna,“ segir Guterres. „Höfum mannréttindi þeirra í heiðri, þar á meðal rétt þeirra til að leita hælis.“

Farandfólk á ferð.
Farandfólk á ferð. Mynd: UNHCR:

Flóttamönnum fjölgar

Fjöldi flóttamanna hefur þrefaldast á síðastliðnum áratug. Við árslok 2023 voru flóttamenn 43.4 milljónir í heiminum. 2023 snéru hins vegar 1.1 milljón flóttamanna heim. Það ár jókst fjöldi flóttamanna um 7% eða um 43.4 milljónir á árinu.

Gerður er greinarmunur á flóttamönnum og farandfólki lagalega. Hins vegar glímir allt þetta fólk við sömu hættu á för sinni um heiminn. Lífsháski, nauðganir, pyntingar, mannrán, handahófskenndar frelsissviptingar, rán og mansal eru því miður daglegt brauð og ekki spurt að lagalegri stöðu fólksins.

Sjá einnig hér.