Svíinn, barnið og sáttmálinn

0
495

Eliasson2

Honum finnst þetta vera skylda, eiginkonunni finnst þetta vera fíkn. Jan Eliasson er gamalreyndasti og þekktasti núlifandi sænskra diplómata og hvaða nafni sem maður gefur nýja starfi hans sem varaframkvæmdastjóri og þar með næst æðsti maður Sameinuðu þjóðanna;  fer hann á hverjum morgni til vinnu sinnar sem með það að leiðarljósi að enginn geti gert allt, en allir geta gert eitthvað.

– Ég tel að það verði að tjalda öllu til sem þessi samtök búa yfir. Við sætum oft ámæli en ég held að við endurspeglum heiminn eins og hann er, en ekki eins og við viljum að hann sé. Við verðum að brúa þetta bil; tryggja að heimurinn verði líkari því sem við viljum að hann sé, segir Eliasson sem hefur varið stærstum hluta æfi sinnar í þessari  brúarsmíð.

Ferilsskráin er löng og ber þar hæst að hann var fyrsti aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði Mannúðaraðstoðar og samræmdi alla neyðaraðstoð; hann var sérstakur erindreki framkvæmdastjóra samtakanna bæði í Darfur og Íran/Írak;  forseti 60. Allsherjarþingsins auk þess að vera sendiherra Svíþjóðar í Bandaríkjunum og hjá Sameinuðu þjóðunum og utanríkisráðherra landsins um hríð. Brattur metorðastigi má segja en Eliasson er í essinu sínu þegar á brattann er að sækja.
– Oftast segist fólk vera knúið áfram af árangri sínum og ég hef náð mikilvægum árangri sem er mér hvatning til að leggja harðar að mér. En ég hef líka tamið mér að leggja á brattann, að eflast í andstreymi og takast á við þá erfiðleika sem sífellt er við að glíma
– Ég minnist þess þegar ég var í Sómalíu á skelfilegustu tímum borgarastríðsins 1992. Það er það versta sem ég hef upplifað, verra en Darfur. Margir starfsbræðra minna brotnuðu saman, misstu alla von og allan svefn og urðu hreinlega að fara. Ég dró þann lærdóm af þessu að jafnvel þótt maður væri í svo skelfilegum aðstæðum sem raun bar vitni yrði maður að sækja sér styrk í það.
Í heimi sem býður svo sannarlega upp á margar hræðilegar aðstæður, notar Eliasson styrk sinn á pragmatískan hátt.   
– Maður má ekki hafa of háar hugsjónir því slíkt getur leitt til mikilla vonbrigða. Maður verður að taka eitt skref í einu. Við getum bætt þennan heim skref fyrir skref, segir hann og telur að þetta eigi að vera viðkvæði Sameinuðu þjóðanna.  
– Ég tek eftir því í samtölum við starfsbræður hérna að það er svo mikill vilji til að gera allt sem okkur ber að gera. Það er miklvægt að við höldum okkur við þau vandamál sem við er að etja í stað þess að einblína um of á okkar eigin samtök, okkar eigið skipulag; okkar litla hluta af  bákninu og svo framvegis.
 
Eliasson hefur varið talsverðum tíma á vettvangi atburðanna og segir að sér hafi reynst best að sigla á milli skers og báru hugmynda og framkvæmda.
– Ég hef séð marga starfsbræður jafnt í höfuðstöðvunum sem á vettvangi sem hefur tekist að vinna í senn í anda Sáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa á sama tíma getað verið praktískir þegar bjarga þjarf barni með niðurgangspest. Það er þeim innblástur að vita að  í slíku striti eru þeir að vinna í þágu þess sem höfundar sáttmálans vildu stefna að.
-Ég segi oft við starfsfélaganna þegar umræðurnar fara að snúast um hver eigi að gera hvað. “Við skulum alltaf að hafa Sáttmálann og barnið í huga,” eða með öðrum orðum hafa í huga það sem er til grundvallar allri alþjóðlegri samvinnu, þróun og mannréttindum…þegar öllu er á botninn hvolft verðum við að sanna okkur og sýna að við skilum okkar á vettvangi á átakasvæðunum, í þróunarverkefnunum og í baráttunni fyrir mannréttindum.  
Hinn tiltölulega nýskipaði varaframkvæmdastjóri mun aðallega fást við þróunarmál og pólitíska stefnumörkun. Hann bendir á að fæðukreppan sé mest aðkallandi þróunarmálið, en búast má við að matarverð hækki um allan heim á næstu fjórum til fimm mánuðum. Sýrland sé hins vegar stærsta pólitíska málið. Með öðrum orðum ágætur dagsskammtur fyrir mann sem segist þurfa “sinn skammt af áskorunum.”
– Konan mín grínast stundum þegar ég er ekki í mínu besta skapi þegar ég kem heim á föstudagskvöldum og segir: “Jan minn, fékkstu nú ekki nógu mörg vandamál þessa vikuna!”.

Mynd: UN.org