Frá Allsherjarþingi til Afganistans

0
569

Ribboncutting 0675 web

Norðurlandabúar hjá SÞ:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. 
 

Fjögur ár eru liðin frá því Ingibjörg Sólrún Gísladóttir veiktist í New York þegar hún sem utanríkisráðherra tók þátt í umræðum um konur og þróun í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Við læknisskoðun kom í ljós að hún var með góðkynja mein í höfði. Í kjölfarið neyddist hún til að taka sér langt veikindaleyfi og hætti síðar þátttöku í stjórnmálum.  

Nú þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er að koma saman til fundar að hausti í New York hefur Ingibjörg Sólrún ekki aðeins náð sér að fullu, heldur er hún komin aftur á vettvang Sameinuðu þjóðanna en á nýjum stað: sem stjórnandi UN Women í Afganistan. Segja má að hún hafi tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið í New York fyrir fjórum árum því verkefnið tengist konum og þróun.

Síðasta starf þitt var að vera utanríksráðherra og sem slík tókst þú þátt í  Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Nú ertu starfsmaður einnar af stofnunum samtakanna, þetta er frekar óvenjulegt skref, hverju sætti að þú sóttist eftir þessu?

Mér finnst þetta liggja beint við þ.e. að nýta pólitíska reynslu í landsmálum og á alþjóðavettvangi í þágu Sameinuðu þjóðanna eða annarrar alþjóðastofnunar. UN Women er þar að auki ný stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og það er mikið í húfi að vel takist til. Mig langaði að taka þátt í mótun UN Women og vita hvort hægt væri að byggja upp einingu sem varðveitti kraftinn úr menningu frjálsra félagasamtaka þó hún tæki upp stjórnfestu stofnanamenningarinnar.

Í hverju felst starf þitt og ykkar hjá UN Women í Kabúl?
Starfið er enn í mótun því UN Women tók ekki til starfa fyrr en 1. Jan 2011. En eins og allra stofnana SÞ felst starfið í því að ýta við og liðsinna stjórnvöldum við innleiðingu alþjóðasáttmála og samþykkta á okkar málasviði sem eru jafnréttismálin. Í Afganistan hefur fjölmörgum lögum og reglum verið breytt í þágu kvenna á undanförnum arum en það fer minna fyrir framkvæmdum.  Við eigum líka að ýta við og samræma starf stofanana SÞ á þessu sviði því allar eiga þær að vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla. Í þriðja lagi vinnum við svo með frjálsum félagasamtökum í að auka vitund ráðamanna og almennings um bága stöðu kvenna, afleiðingarnar sem það hefur fyrir samfélagið og hvernig megi stíga skref til að breyta þessu.

Fyrir stuttu vakti það óhug vegfarenda þegar búrkuklæddar konur gengu um Laugaveginn. Er búrka sama tákn um kvennakúgun í augum afganskra kvenna og annars staðar?
Ekki með sama hætti og annars staðar og eins og gefur að skilja vekur hún engum óhug enda dagleg sjón. Búrkan er ekki endilega tákn um kúgun en hún er alltaf tákn um að viðkomandi kona er ósjálfstæð og hefur enga stöðu sem einstaklingur. Hún getur haft sterka stöðu innan fjölskyldunnar en hún skiptir engu máli út á við. Öll einstaklingseinkenni eru afmáð.

Hefur náðst varanlegur árangur í jafnréttismálum í Afganistan frá því Talibanar misstu völdin?
Við skulum segja að það hafi náðst talsverður og jafnvel mælanlegur árangur á sumum sviðum og þannig eru um 3 milljónir stúlkna í skóla og konur eru 28% þingmanna. Konur sjálfar hafa líka vaknað til aukinnar vitundar um stöðu sína og leita frekar réttar sins en áður. Engu að síður verður að hafa í huga að um 80% fullorðinna kvenna eru ólæsar og um 57% stúlkna eru giftar fyrir 16 ára aldur.  Það er því mikið verk að vinna og staðan er viðkvæm. 

Gisladottir

Búast má við að alþjóðasamfélagið dragi saman seglin í Afganistan á næstu árum; óttastu að það geti orðið bakslag í jafrnéttismáluum í kjölfarið?
Já það er mikil ástæða til að óttast það. Konur í Afganistan þurfa á alþjóðlegum stuðningi að halda – bæði pólitískum og efnahagslegum. Það er mikill kvíði, bæði hjá konum og körlum, gagnvart framtíðinni. Framundan er bæði pólitísk og hernaðarleg umskipti á árinu 2014 vegna forsetakosninga og brotthvarfs alþjóða herliðsins. Fólk óttast að þetta muni annað hvort leiða til borgarastyrjaldar, sem væri skelfilegt, eða að Talibanar verði leiddir til valda. Konur eru því ekki sérlega bjartsýnar en það skiptir verulegu máli að nýta tímann vel og ná sem mestum árangri því efling kvenna mun fylgja Afganistan inn í framtíðina jafnvel þó að hún gangi til baka um tíma.

Myndir: Ingibjörg Sólrún og kvennamálaráðherra Afganistans klippa á borða og opna upplýsingasetur fyrir konur í Mazar-e-Sharif í Aganistan. Mynd: UN Women.

Síðari mynd: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í örlagaríkum pallborðsumræðum um þróunarsamvinnu og konur í Afríku 22. september 2008. Hún varð að hætta þátttöku vegna veikinda og í ljos koma að hún var með  góðkynja mein í höfði. SÞ-mynd:  Rick Bajornas