Thor Thors, skipting Palestínu og aðdragandi stofnunar friðargæslunnar

0
432
Thor Thors Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Thor Thors og Guiseppe Pella utanríkisráðherra Ítalíu. Mynd: UN Photo

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára. Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna varð til með samþykkt Öryggisráðs samtakanna þess efnis að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með vopnahléi í fyrsta stríði Ísraels og Arabaríkja. 29.maí 1948. 

Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Thor Thors átti nokkurn hlut að máli þegar Sameinuðu þjóðirnar samþykktu ályktun um skiptingu Palestínu.

Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Ísraelskir hermenn 1948. Mynd: Benno Rothenberg/Creative Commons Attribution 4.0

Stríð braust út þegar Arabaríki gripu til vopna  15.maí 1948 degi eftir að lýst var yfir stofnun Ísraelsríkis. Í kjölfarið fylgdi það sem Palestínumenn kalla “nakba” eða reiðarslagið þegar hundruð þúsunda flúðu heimkynni sín.

Sagnfræðingurinn dr. Þór Whitedead professor Emeritus við Háskóla Íslands hefur rannsakað ævi og feril Thors Thors sendiherra. Við grípum hér niður í viðtal við Thor sem birt var á vefsíðu UNRICs 2015.

Afgerandi áhrif?

Sumir segja að stærsta stund Thors í SÞ hafi verið 29. nóvember 1947. Þá var hann framsögumaður undirnefndar, sem stjórnmálanefndin hafði skipað til að kanna möguleika á samkomulagi á milli Araba og Gyðinga um skiptingu Palestínu og stofnun tveggja ríkja þar. Hafði Thor afgerandi áhrif á niðurstöðuna og þar með á stofnun Ísraelsríkis, eins og sumir hafa ályktað af minningum Abba Ebans, fastafulltrúa Ísraels, síðar utanríkisráðherra? 

Það er alveg ljóst að Gyðingar voru áhyggjufullir yfir því að nefndin mælti með því að
haldið yrði áfram að leita samkomulags um málið. Óvíst væri hvort skipting Palestínu nyti  nauðsynlegs stuðnings á allsherjarþinginu, og frekari dráttur málsins eftir áralangt þóf gæti spillt fyrir því að þessi meirihluti næðist.

 Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Thor Thors sendiherra.

Abba Eban segist hafa farið í  heimsókn á hótel til Thors að morgni 29. nóvember til að hvetja hann til láta gera út um málið án tafar. Hann óttaðist að tæki Thor upp á því að tala eindregið fyrir frestun sem framsögumaður undirnefndarinnar gæti það haft áhrif á fundi allsherjarþingsins, sem boðaður hafði verið um málið þennan sama dag. Eban segist hafa beitt öllum sannfæringarkrafti sínum til að lýsa fyrir Thor aldalöngum draumum og vonum ótal kynslóða gyðinga um að stofna Ísraelsríki.

Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Íslensk sendinefnd á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1958. Thor Thors, sitjandi lengst til vinstri, ásamt Gudmundi I. Gudmundssyni utanríkisráðherra, og Pétri Thorsteinsson sendiherra. Fyrir aftan Hans. G. Andersen sendiherra og Þórarinn Þórarinsson ritstjóri og alþingismaður. Mynd: UN Photo.

Thor hafi hiklaust svarað á þá leið að það væri meiri skilningur á Íslandi á örlögum Gyðinga, eins og þeim væri lýst í Biblíunni, en Eban grunaði. Þessar frásagnir væru hluti íslenskrar menningar og Gyðingar gætu treyst því, að íslenska þjóðin, sem varðveitt hefði tungmál sitt og bókmenntir við erfiðustu náttúruskilyrði um aldur, hlyti að sýna skilning á viðleitni þeirra til að varðveita þjóðareinkenni sín og stofnun eigin ríkis. Hann væri sammála Eban um að nú væri komið að ákvörðun í málinu og frekari dráttur tilgangslaus.

Mögnuð ræða Thors

 Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Sendinefnd Bandaríkjamanna á öðru Allsherjarþinginu 1947. John Foster Dulles utanríkisráðherra, Elenour D. Roosevelt, ; Herschel V. Johnson, fastafulltrúi, Warren R. Austin fastafulltrúi og George C. Marshall varafastafulltrúi.

Geysimikil spenna ríkti þegar allsherjarþingið kom saman síðar um daginn. Allt fylltist af fjölmiðlamönnum frá hinum ýmsu ríkjum með tæki sín og tól og áheyrendapallar voru yfirfullir. Aldrei hafði sést önnur eins mannmergð á þinginu. Fundurinn hófst með magnaðri ræðu Thors, sem taldi að allar leiðir til að ná samkomulagi á milli Gyðinga og Araba hefðu verið þrautkannaðar án árangurs. Eina von um sættir lægi í því að taka af skarið með dómgreind og festu. ,,Thor var stórkostlegur“, skrifaði Abba Eban.

Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Thor Thor ásamt Kristjáni Albertssyni stjórnarerindreka. Mynd: UN Photo

Síðan hófu þingfulltrúar umræðu, sem mótaðist mjög af ræðu Thors að mati Ebans. Atkvæðagreiðslan fór að vonum Gyðinga, 33 fulltrúar greiddu atkvæði með skiptingu Palestínu í tvö ríki, sem ættu að mynda efnahagssamband. Þrettán fulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni, tíu sátu hjá og einn var fjarverandi.

Þótt vafalaust hafi ræða Thors greitt fyrir því að allsherjarþingið tók þarna af skarið, held ég að það væri mikið ofmat að ætla að hún hafi ráðið úrslitum um málið. Væntanlega hefði það eitthvað dregist á langinn, ef undirnefndin hefði hvatt til frekari samningaumleitana, en það sem skiptir höfuðmáli er að risaveldin, Bandaríkin og Sovétríki Stalíns, höfðu afráðið að styðja skiptingu Palestínu í tvö ríki.

Samþykktin einnig grundvöllur kröfu um sjálfstætt Palestínuríki

 Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Palestínskir flóttamenn nærri Khan Yunus 1948 eða skömmu síðar. Mynd: UN Photo

Ég hef tekið eftir því að sumir íslenskir Palestínuvinir hafa lýst Thor sem einhvers konar handbendi síonista. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að Ísland sé með einhverjum hætti ábyrgt fyrir stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjum sínum eftir sex daga stríðið 1967 vegna framgöngu Thors í þessu máli. Þetta nær engri átt, samþykkt allsherjarþingsins um skiptingu Palestínu er einn grundvöllurinn undir kröfu Palestínumanna um sjálfstætt ríki og Jerúsalem var ætlað að vera undir alþjóðastjórn.

Það voru hins vegar Arabaríkin, sem komu öðrum fremur í veg fyrir að samþykkt SÞ næði fram að ganga, með því að ráðast á Ísrael eftir að Gyðingar lýstu yfir stofnun eigin ríkis 1948. Enginn, sem hefur kynnt sér málflutning Thors Thors um Palestínumálið, nýlendumál, mannréttindi, stríð og frið, gæti velkst í vafa um hvaða afstöðu hann hefði tekið til stefnu hægrimanna í Likud-bandalaginu og heittrúarflokka í Ísrael gagnvart Palestínumönnum á síðustu áratugum, ef honum hefði enst til þess ævin.

Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Friðargæsluliðar UNTSO að störfum. Mynd: UN Photo

Reyndar barðist kjarninn í þessari ystu hægri fylkingu í Ísrael hatrammlega gegn samþykkt allsherjarþingsins um skiptingu Palestínu, stefndi að því að leggja allt landsvæðið undir Ísraelsríki og beitti til þess hryðjuverkum.  Flest þeirra 33 ríkja, sem greiddu atkvæði um málið á sama hátt og Íslendingar 1947, hafa hins vegar lengi verið afar gagnrýnin á stefnu hægrimanna í Ísrael gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjum Ísraels, og sum eins og Sovétríkin og fylgiríki þeirra tóku fljótlega upp fullan fjandskap við Gyðinga. “

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára

75 ára afmæli Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna
75 ára afmæli Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna

Fyrsta friðargæslusveitin UNTSO starfar enn og má fræðast um hana hér og dagleg störf friðargæsluliða hér og hér.

Viðtalið við Þór Whitehead um ævi og störf Thors Thors má lesa í heild hér.