Við erum börn, ekki hermenn!

0
602

UNICEF Children

10.mars 2014. Sameinuðu þjóðirnar fylkja nú liði til höfuðs notkunar barna í hernaði.

“Þegar við hjálpum fyrrverandi barnahermanni að yfirstíga hroðalega reynslu og undirbúa framtíðina, er ekki aðeins hans líf í veði, heldur erum við að binda um sár heilla þjóða af völdum hörmunga styrjalda,” sagði Anthony Lake, forstjóri UNICEF, Barnahjálpar SÞ þegar hann ýtti nýrri herferð úr vör sem ber heitið “Við erum börn, ekki hermenn”. UNICEF fylkir liði með almannasamtökum, alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum ríkja og ríkisstjórnum til þess að efla viðleitni til að uppræta þátttöku barna í hernaði. 

 

Í dag eru öryggissveitir átta ríkja taldar nota börn í vopnuðum átökum að því er fram kemur í skýrslu framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þau eru Afganistan, Suður-Súdan, Tsjad, Myanmar, Sómalía, Lýðveldið Kongó, Jemen og Súdan.
Sex fyrstnefndu ríkin hafa undirritað aðgerðaáætlun með Sameinuðu þjóðunum um að hætta slíku og verið er að ræða við Jemen og Súdan.

Samkvæmt nýrri skýrslu um ástandið hafa Mið-Afríkulýðveldið og Sýrland einnig brotið gróflega gegn réttindum barna með því að nýta þau beint og óbeint í átökum, sem vígamenn, kokka,burðarmenn, sendiboða og jafnvel “mannlega skildi”, að ógleymdri kynferðislegri misnotkun af hálfu hermanna.

“Öll börn eiga skilið vernd í stað misnotkunar; þau eiga heima í skólum ekki í herjum og vígasvietum. Vopna skal börn með pennum og stílabókum, ekki byssum,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Gangið til liðs við herferðina: #CHILDRENnotsoldiers