Vonast til að athafnareglur á samfélagsmiðlum bæti stöðu kvenna

0
15
Melissa Fleming flutti ávarp af myndbandi á Þingi kvenleiðtoga í Reykajvík.
Melissa Fleming framkvæmdastjóri samskiptadeildar Sameinuðu þjóðanna flutti ávarp af myndbandi á Þingi kvenleiðtoga í Reykajvík.

Samskiptamiðlar. Jafnrétti. Melissa Fleming samskiptastjóri Sameinuðu þjóðanna dró upp dökka mynd af þróun réttinda kvenna í heiminum í ávarpi á Heimsþingi kvenleiðtoga  í Reykjavík

„Réttindi kvenna um allan heim eru ekki aðeins í kyrrstöðu heldur er hreinlega um afturför að ræða,“ sagði Fleming í ávarpinu og vitnaði til orða António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hún benti á að börn og konur hefðu orðið harðast úti í vaxandi átökum víða um heim og raddir kvenna þagnað.

Fleming varð að hætta við Íslandsför vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs, en tók upp ávarp og var það flutt á þinginu með hjálp stafrænnar tækni. Sjá má það hér í heild:

Hún sagði að samfélagsmiðlar væru vissulega ekki slæmir í eðli sinu og gætu verið aflvakar jákvæðra breytinga.

„Því miður hafa þeir verið notaðir til að snúa klukkunni til baka og þagga niður í konum í stjórnmálum, fjölmiðlum og á fleiri sviðum,“ sagði Fleming. „Allt of margir hafar orðið fyrir barðinu á þeim hryllingi sem felst í hatursfullum skilaboðum, hótunum um nauðganir og  niðurlægjandi birtingum skrumskældra mynda. Könnun UNESCO á síðasta ári leiddi í ljós að 73% blaðakvenna hefði sætt ofbeldi á netinu. Í annari könnun kom í ljós að 82% kvenna á þjóðþingum um víða veröld höfðu verið beittar andlegu ofbeldi.“

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Melissa Fleming ræðast við.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Melissa Fleming ræðast við. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Athafnareglur fyrir samfélagsmiðla

„Á vegum Sameinuðu þjóðannar er vinna í gangi til að gera stafræna umhverfið öruggara og mannlegra. Í því skyni er verið að þróa athafnareglur fyrir samfélagsmiðla, sem yrðu leiðbeinandi fyrir alþjóðasamfélagið.“

Gert er ráð fyrir að þróun athafnareglnanna verði lokið fyrir Leiðtogafund um framtíðina, sem haldinn verður í tengslum við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna haustið 2024. Samráðs hefur verið leitað við fagaðila og ýmsar stofnanir í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal á Íslandi.

Fleming var skipuð framkvæmdastjóri alheims-samskiptadeildar Sameinuðu þjóðanna (Department of Global Communications) árið 2019. Áður var hann samskiptastjóri Flóttamannahjápar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í áratug.