10 staðreyndir um Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna

0
17
Indverskar friðargæslukonur í friðargæslusveit í Líberíu.
Indverskar friðargæslukonur í friðargæslusveit í Líberíu. UNMIL Photo/Christopher Herwig,

Alþjóðlegur dagur Friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna hafa bjargað mannslífum í 76 ár á ýmsum af hættulegustu stöðum heims.

Rannsóknir sýna að því fleiri friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna sem eru á vettvangi, því færri óbreyttir borgarar týna lífi, ofbeldi er minna og líkur á friði eru meiri.

Alþjóðlegur dagur Friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna er haldinn 29.maí til að beina kastljósi að ómetanlegu starfi her- og lögreglumanna og óbreyttra borgara undir fána samtakanna í þágu friðar í rúman sjö og hálfan áratug.

Hér eru tíu staðreyndir um Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna:

Kanadískir hermenn við störf hjá MINUSMA í Malí. Mynd: UN Photo/Marco Dormino
Kanadískir hermenn við störf hjá MINUSMA í Malí. Mynd: UN Photo/Marco Dormino

11 friðargæsluverkefni

Ellefu friðargæsluverkefni eru nú í gangi. Hlutverk þeirra er að aðstoða stríðshrjáð ríki við að skapa varanlegan frið.

5 eru í Afríku: Vestur-Sahara (MINURSO), Lýðveldinu Kongó (MONUSCO), Mið-Afríkulýðveldinu (MINUSCA), Suður- Súdan (UNMISS) og á Abyei svæðinu á mörkum Súdan og Suður-Súdan (UNISFA)

2 eru í Evrópu: Kosovo/Serbía (UNMIK) og Kýpur (UNFICYP).

3 eru í Mið-Austurlöndum: Líbanon (UNIFIL), Ísrael/Sýrland (UNDOF), Mið-Austurlönd (UNTSO)

1 er í Asíu: Indland/Pakistan: (UNMOGIP)

Friðargæsluliði frá Nepal sæmdur heiðursorðu fyrir störf hjá UNMISS
Friðargæsluliði frá Nepal sæmdur heiðursorðu fyrir störf hjá UNMISS Mynd: UN Photo/Gregório Cunha

6 124

er fjöldi einkennisklæddra Nepalbúa í þjónustu Friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna. Engin þjóð sendir jafnmarga til starfa í friðargæslusveitunum og Nepal. Indland, Bangladesh og Rúanda koma skammt á eftir með um og yfir sex þúsund hvert ríki.

Atupele Mbewe, Bindeshwari Tanwar og Ritu Pandey, friðargæsluliðar Malawi, Indlandi og Nepal í höfuðstöðvum UNMISS í Juba í Suður-Súdan. Mynd: UN Photo/Gregório Cunha
Atupele Mbewe, Bindeshwari Tanwar og Ritu Pandey, friðargæsluliðar Malawi, Indlandi og Nepal í höfuðstöðvum UNMISS í Juba í Suður-Súdan. Mynd: UN Photo/Gregório Cunha

0.5% af hernaðarútgjöldum

Vissir þú að útgjöld Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna nema aðeins 0.5% af hernaðarútgjöldum í heiminum?

Útgjöld friðargæslusveitanna eru 6.1 milljarður Bandaríkjadollara á ári. Það er álíka og útgjöld Danmerkur og Sviss til varnarmála en töluvert minna en útgjöld til lögreglunnar í New York eða kostnaðar við Ólympíuleikana í París (10 milljarðar).

28%

Bandaríkin standa straum af tæplega 28% útgjalda við friðargæsluna en næstir á eftir þeim koma Kínverjar með rúm 15% 15% og Japanir með 8.5%.

Bláir hjálmar eru einkennis-höfuðfat friðargæslunnar.
Bláir hjálmar eru einkennis-höfuðfat friðargæslunnar. Mynd: UN Peacekeeping.

2 milljónir “blárra hjálma”

Síðastliðin 76 ár hafa tvær milljónir karla og kvenna frá 124 ríkjum sett á sig hinn bláa einkennis-hjálm Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa starfað í 71 friðargæsluverkefni. Fjöldinn samsvarar til íbúa Norður-Makedóníu, Lettlands eða Slóveníu; Parísar, Vínarborgar eða Hamborgar.

Mynd: UN News

72 255

er fjöldi núverandi friðargæsluliða. Það er heldur meira en íbúafjöldi Grænlands (60 þúsund) og Cayman eyja (68 þúsund), en álíka og helmingur Reykjavíkurbúa eða allir íbúar Esbjerg í Danmörku.

Þeir kæmust fyrir á meðalstórum íþróttaleikvöngum á borð við Ólympíuvellina í Aþenu og Róm, London Stadium, eða Stade de Vélodrome í Marseille.

Sameinuðu þjóðirnar hafa þakkað Finnlandi fyrir að taka virkan þátt í friðargæslunnni.
Sameinuðu þjóðirnar hafa þakkað Finnlandi fyrir að taka virkan þátt í friðargæslunnni.

216

Finnland er langrausnarlegast Norðurlanda í að útvega friðargæslunni mannskap. Nú eru 216 Finnar að störfum við friðargæslu. Noregur sendir fimmtíu manns, Svíar 33 og Danir 10. Ekki einn einasti Íslendingur starfar hjá Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á vegum stjórnvalda.

Fallnir friðargæsluliðar í MINUSMA sveitinni heiðraðir í Malí. Mynd: UN Photo/Harandane Dicko

Fallnir friðargæsluliðar í MINUSMA sveitinni heiðraðir í Malí. Mynd: UN Photo/Harandane Dicko

4 370

er fjöldi þeirra sem látist hafa við skyldustörf á vegum friðargæslunnar frá upphafi.

Af alls 4 370 friðargæsluliðum sem látist hafa, hafa 1601 látist af völdum veikinda, 1403 í slysum og 1130 í árásum. Rúmlega þrjú þúsund voru hermenn.

Þrjár háttsettar konur í friðargæsluliði MONUSCO í Lýðveldinu Kongó; Otávio Rodrigues De Miranda Filho, Laila Bourhil Ndima Kongba. Mynd: MONUSCO/Kevin Jordan
Þrjár háttsettar konur í friðargæsluliði MONUSCO í Lýðveldinu Kongó; Otávio Rodrigues De Miranda Filho, Laila Bourhil Ndima Kongba. Mynd: MONUSCO/Kevin Jordan

3 x konur

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna stefnir að því að þrefalda fjölda kvenna fyrir 2028.  Nú eru 6 249 konur starfandi sem her- eða lögreglumenn, eða 9.7 % heildarfjöldans.

1 Nobel

Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna hafa einu sinni fengið Friðarverðlaun Nóbels.