115 milljónir fátækra í ESB

0
546
poverty

poverty

17. október 2012 – Flestir setja fátækt í samhengi við þróunarlönd en engu að síður er veruleg fátækt í Evrópu. Talið er að 115 milljónir manna í Evrópusambandsríkjunum séu á eða undir fátæktarmörkum eða 8 af hundraði vinnandi fólks og alls 20 milljónir barna.

Í dag njóta fátækustu fjörutíu prósent íbúa heimsins aðeins fimm pósenta heildartekna. Auðugustu 20 prósentin fá í sinn hlut þrjá fjórðu hluta heimsauðsins. Og fyrir hvern einn dollara sem þróunarlönd fá í aðstoð, greiða þau 25 dollara í afborganir af lánum.

Í skýrslu OECD, Efnahags- samvinnu- og þróunarstofnunarinnar fyrir 2011 kemur fram að meðaltekjur ríkustu tíu prósentanna er níu sinnum hærri en fátækustu tíu prósentanna innan OECD – sem er hópur ríkustu þjóða heims.

17. október árið 1987 komu hundrað þúsund mannréttindavinir saman á Trocadero torgi í París þar sem Mannréttindayfirlýsingin var undirrituð árið 1948. Tilgangurinn var að minnast fórnarlamba hungurs, ofbeldis og fáfræði og hafna sárafátækt og hvetja allt mannkynið til að sameinast um að virða mannréttindi.

Allar götur síðan hefur fólk úr öllum heimshornum, af ólíkum uppruna og trú safnast saman ár hvert á þessum degi 17. október til að lýsa stuðningi og sýna samstöðu með hinum fátæku. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti 17. október Aþjóðadag helgaðan útrýmingu fátæktar í ályktun árið 1992.

Fátækt er helsta ástæða hungurs í heiminum og vegur þyngra en átök og þurrkar svo dæmi séu tekin.

Undanfarinn áratug hafa milljónir manna unnið sig upp úr sárafátækt og fengið betri aðgang að heilsugæslu og menntun en mikið verk er óunnið:

  • Sárafátækt er á undanhaldi um allan heim en 870 milljónir líða enn hungur.
  • Mæðradauði hefur minnkað um 47% síðan 1990. Uppræting sárafátæktar mun minnka mæðradauða um allan heim..
  • 89% íbúa heimsins hafa aðgang að hreinu vatni en allt of margir hafa ekki fullnægjandi hreinlætisaðstöðu.
  • Dauðsföllum af völdum mýrarköldu hefur fækkað um 25% á síðustu tólf árum en eitt barn deyr á hverri mínútu af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir og lækna.

Sjá nánar: http://www.endpoverty2015.org/