167 forstjórar segja jafnrétti viðskiptavænt

0
568
alt
 altHundrað sextíu og sjö forstjórar alls staðar að úr heiminum, þar af átta Íslendingar, hafa undirritað yfirlýsingu þar sem fullyrt er að jafnrétti kynjanna stuðli að góðum rekstri fyrirtækja. Í yfirlýsingunni eru tekin saman grundvallarsjónarmið um hvernig hægt sé að  valdefla konur á vinnustöðnm, á markaðnum og í hverju samfélagi. Þessi sjónarmið voru tekin saman í samvinnu UN Women og Global Compact Sameinuðu þjóðanna.    

Tveggja daga fundur var haldinn í tilefni þess að ár er liðið frá því sjónarmiðin voru kynnt til sögunnar. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lauk lofsorði á þá forstjóra sem undirrituðu sjónarmiðin og eggjaði leiðtoga í atvinnulífinu til að gera meira: „Með því að taka undir þessi sjónarmið, gangið þið til liðs við stóra og vaxandi hreyfingu sem miðar að því að leysa úr læðingi kraft kvenna og breyta heiminum. Þetta skiptir sköpum,“ sagði framkvæmdastjórinn.  

Michelle Bachelet, fyrrverandi forseti Chile og fyrsti forstjóri UN Women sagði: „Jafnrétti kynjanna er ekki bara grundvallarmannréttindi. Sérfræðingar í viðskiptum, efnahagsmálum og þróunarmálum eru allir á einu máli um að valdefling kvenna stuðli að efnahagslegum- og félagslegum framförum. Grundvallarsjónarmiðin um valdeflingu kvenna eru tæki til að taka höndum saman við atvinnulífið með árangursmiðuðum hætti.“ 

Átta íslenskir forstjórar undirrita yfirlýsinguna en þeir eru: Aðalheiður Héðinsdóttir (Kaffitár), Birna Einarsdóttir (Íslandsbanki),Guðmundur Gunnarsson (VÍS),Jón Finnbogason (Byr), Rannveig Rist (Alcan), Sigurbjörn Gunnarsson (Lyfja),Sigsteinn Gunnarsson (Marel) og Þorvarður Gunnarsson (Deloitte).

 

Sjá nánar: http://www.unglobalcompact.org/Issues/human_rights/equality_means_business.html