Fréttamennska í Sýrlandi: Ómögulegt starf?

0
527

Sýrland mynd

6. janúar 2014. Sýrland er talið hættulegasta ríki heims þegar blaðamennska er annars vegar.

110 sem stunda fréttaflutning með einum eða öðrum hætti hafa látið lífið síðan í mars 2011. Meir en 60 eru í haldi, í gíslingu eða hafa horfið að því er fram kemur í skýrslu Blaðamanna án landamæra.  „Flestir blaðamenn koma til Sýrlands í fylgd ýmissa hópa uppreisnarmanna. Vandinn er sá að uppreisnarmenn eru sjálfum sér sundurþykkir og hafa mismunandi sjónarmið og margir telja vestræna blaðamenn vera njósnara”, segir Jonathan Lundqvist, oddviti Blaðamanna án landamæra.

Reyndir stríðsfréttamenn líkja Sýrlandi við að taka þátt í lottóinu eða rússneskri rúllettu. “Fyrir nokkrum mánuðum,” segir einn, “fylgdi því áhætta að fara inn í Sýrland en núna þarf heppni til að snúa heim á lífi án þess að vera tekinn til fanga.”

“Stríðsfréttamennska hefur alltaf falið í sér áhættu en fréttamenn og samstarfsmenn þeirra ættu ekki að eiga á hættu að vera skotmörk stríðandi fylkinga. Ástandið er svo síbreytilegt og flækjurnar svo miklar að jafnvel reyndustu stríðsfréttamenn vita ekki sitt rjúkandi ráð. Illmögulegt er að ráða í það hver stjórnar hvaða hverfi, greina bandalög eða bara vita deili á einstökum hópum. Á valdatíma Assad hefur sú forna list að villa á sér pólitískar heimildir verið fullkomnuð,” segir í skýrslunni.

Ákaft er nú reynt að draga andstæðinga að samningaborði í Sviss. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þungum áhyggjum áframhaldandi handahófsárásum með þungavopnum og sprengivörpum á íbúðabyggðir, ekki síst í borginni Aleppo sem stjórnarherinn situr um.

“Áframhaldandi stigmögnun ofbeldis mun aðeins þjóna hagsmunum þeirra sem telja að hernaðarmáttur einn dugi, á sama tíma og sýrlenskur almenningur hefur þjáðst nóg, segir talsmaður Bans í yfirlýsingu.