60% aukning í heimilisofbeldi

0
980
COVID-19, Norðurlönd
Hans Kluge forstjóri Evrópuskrifstofu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Mynd: WHO

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetur ríkisstjórnir um allan heim til að grípa til brýnna aðgerða til að sporna gegn heimilisofbeldi.

Heimilisofbeldi hefur aukist verulega að mati stofnunarinnar vegna lokunar-aðgerða í tengslum við COVID-19 faraldurinn. WHO segir að fórnarlömb, aðallega konur og börn, þurfi vernd og athvarf.

„Þótt tölur séu af skornum skammti hafa aðilarríki okkar greint frá allt að 60 prósent aukningu  neyðarhringinga frá konum sem sætt hafa ofbeldi af hálfu maka sinna miðað við apríl í fyrra. Þá hefur leit á netinu að neyðarþjónustu vegna heimilisofbeldis fimmfaldast,” segir dr. Hans Kluge, forstjóri Evrópuskrifstofu WHO í Kaupmannahöfn.

Ofbeldi gegn konum og börnum hefur aukist í Evrópuríkjum á borð við Belgíu, Bretland, Búlgaríu, Frakkland, Írland, Rússland og Spán.

Kluge minnti á að afnvel áður en COVID-19 kom til sögunnar var talið að fjórða hver kona og þriðja hvert barn yrði fyrir kynferðilsegu eða líkamlegu ofbeldi á ævinni.

Á meðan mikill meirihluti skóla hefur verið lokaður hafa berskjölduð börn ekki notið athygli félagslega kerfisins og skóla. Þá er aðgangur að vörnum og vernd takmarkaður víða. „Á meðan lokanir standa yfir hafa konur og börn verið utan samfélagsins en berskjaldaðri fyrir ofsækjendum sínum á heimilunum,” segir WHO.

Aðgerðir eru ekki val heldur skylda

Forstjóri Evrópuskrifstofu WHO hafði þrenn skilaboð til handa ólíkum hópum.

Ríkisstjórnir og sveitastjórnir: „Það ætti ekki að vera val heldur siðferðileg skylda að tryggja að þjónusta fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis sé í boði og búi yfir nægum úrræðum og að neyðarnúmer og þjónusta á netinu sé efld.“

  • Almennir borgarar: „Ofbeldi er ekki einkamál. Haldið eða hafið samband við nágranna, kunningja, fjölskyldu og vini – og sýnið þeim stuðning. Ef þið verðið vör við eitthvað, látið þá heyra í ykkur!”
  • Fórnarlömb ofbeldis: „Ofbeldi er aldrei ykkur að kenna, aldrei! Hafið samban við ykkar nánustu, vini eða samtök sem bera hag ykkar fyrir brjósti – en grípið til naðsynlegra varúðarráðstafana.“
  • „Ofbeldi, hvers kyns sem það er, og við hvaða kringumstæður sem eru, ggn konum, körlum, börnum eða öldruðum ætti aldrei að líðast,“ bætti Kluge við.

Hann benti á að nokkur ríki hefðu gripið til ráðstafana. Á Ítalíu er í boði snjallforrit sem gerir fórnarlömbum kleift að leita aðstoðar án þess að þurfa að hringja. Í Spáni og Frakklandi er hægt að láta vita af obeldi í apótekum með því að nota tiltekin lykilorð. Í Frakklandi og Belgíu hefur hótelum verið breytt í athvörf fyrir fórnarlömb. Grænlendingar hafa bannað sölu á áfengi til að heimili verði öruggari fyrir börn.

„Okkur ber að deila slíkri reynslu og láta verða okkur hvatning,“ segir Hans Kluge. „Við getum hindrað ofbeldi, það er ekki óumflýjanlegt.“