Að eignast nýja vini á tímum kórónaveirunnar

0
631
COVID-19, Aðlögun
Mynd: Dollar Gill/Unsplash

Það er hægara sagt en gert fyrir útlendinga, ekki síst flóttamenn, að kynnast og aðlagast nýjum heimkynnum í nýju landi jafnvel þegar best lætur. Nú þegar COVID-19 herjar á heimsbyggðina og fólk er hvatt til að halda samskiptum við aðra í lágmarki, kann einhverjum að þykja það vera að klífa þrítugan hamarinn að kynnast öðru fólki, hvað þá að aðlagast erlendu samfélagi og menningu.

En í Svíþjóð hefur „Nya Kompisbyrån” reynt að ráða bug á þessu með átakinu „Digitalkompis” þar sem efnt er til kunningsskapar á milli fólks þökk sé fjarfundabúnaði.

„Ég er forvitin að eðlisfari og mig langar til að eignast sænskan vin,“ segir Manar í viðtali við UNRIC.

COVID-19, aðlögun innflytjenda
Manar er frá Írak.

Manar Ramzi, 35 ára, sagði okkur frá þeim erfiðleikum sem hún mætti þegar hún vildi komast í tengsl við Svia. Hun kom frá Írak til Svíþjóðar fyrir tveimur árum og leggur nú stund á nám til þess að hún geti tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið í fagi  sínu í Írak sem læknir með kvensjúkdóma sem sérgrein.

Flestir vina hennar hafa svipaðan bakgrunn og hún, en hana langar til að eignast sænska vini, en það hefur reynst hægara sagt en gert. En þá benti einn kennara hennar  henni á Digitalkompis („Stafrænn vinur“) og Nya Kompisbyrån („Nýja kunningjasetrið“). Henni fannst þetta örugg leið til að komast í kynni við aðra og skráði sig af forvitni.

Sophie Brömster er þrjátíu og eins árs, og leggur stund á nám í sálfræði í Örebro.  Hún rakst á Nya Kompisbyrån og Digitalkompis á Facebook.

„Ég fékk áhuga á Digitalkompis, ekki síst vegna þess að ég er mikið heima vegna COVID-19. En mér varð einnig hugsað til hvað ég gæti gert sem skipti máli við þessar aðstæður,” segir Sophie.

Sophie og Manar sögðu okkur frá því hvað þær hefðu lært af kunningsskap sínum sem hófst á þessum vettvangi. Þær hafa talað saman nokkrum sinnum frá því í byrjun apríl, þegar þær spjölluðu fyrst saman en samtölin hafa stundum dregist á langinn.

„Við tölum lengi saman” segir Manar hin ánægðasta, „stundum meira en klukkutíma.“

„Við tölum um allt milli himins og jarðar.“

COVID-19, aðlögun innflytjenda
Sophie Brömstert býr í Örebro

Nya Kompisbyrån virðist virka vel sem liður í aðlögun. 97% af „nýju Svíunum“ segja að þeir finnist þeim vera velkomnari í Svíþjóð eftir að hafa tekið þátt í slíkum samtölum. Og brýr eru byggðar því 95% hvort heldur sem er nýrra Svía eða þeirra sem fyrir eru telja sig hafa lært sitthvað um  menningu viðmælanda síns.

Manar og Sophie hafa verið í nánum tengslum frá því þær kynntust.

„Við tölum um allt mögulegt. Ég er forvitin um líf Svía og spyr Sophie mikið um hefðir, hátíðir og lífið almennt. Síðast þegar við töluðum saman töluðum við um ástina, ástarsambönd og einkamál,” sagði Manar.

Eins og við er að búast hafa þær talað mikið um COVID-19. Þær skilja aðstæður hvorrar annarar. Sophie býr nú í Örerbro og hefur ekki tök á að hitta fjölskyldu sína í Stokkhólmi. Manar þekkir af eigin reynslu að vera aðskilin frá fjölskyldu sinni í Írak sem hún saknar sárlega.

Sophie segir að það sé mest spennandi við nýtilkomna vináttu þeirra að komast að raun um hversu mikið þær eiga sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan bakgrunn. Sophie segist hafa lært mikið af Manar.

„Við tölum mikið um hátíðir eins og Ramadan sem nú stendur yfir. Ég sé svo mitt eigið land í nýju ljósi þegar ég þarf að brjóta spurningar Manrs til mergjar.  Ég hef hugsað ákveðna hluti upp á nýtt, hluti sem maður hefur alltaf talið sjálfsagða, eða tekið sem gefnum.“

  Digitalkompis var andsvar við COVID-19

COVID-19, Aðlögun
Mynd: Dollar Gill/Unsplash

Digitalkompis var komið á fót þegar COVID-19 faraldurinn braust út.  Það var ekki lengur viðeigandi að efna til funda á milli fólks augliti til auglitis í því skyni að stofna til kunningsskapar.

„Digitalkompis höfðar til margra og fólk hefur skráð sig vítt og breitt um landið. Við erum ánægð með hversu vel þetta hefur gengið því þetta hefur reynst auðveld leið fyrir fólk til að vera virkt í samfélaginu,” segir Mardin Baban í viðtali við UNRIC.

Aðlögun gæti þurft að víkja 

Hingað til hafa 1300 konur og karlar fundið „stafrænan“ kunningsskap frá því um miðjan mars þegar Digitalkompis var kynnt til sögunnar. En hundruð nýrra Svía bíða eftir því að „matcha” og þörf er á fleiri „gömlum” Svíum á skrá.

COVID-19, aðlögun
Mynd: Heather McKean/Unsplash

„Nýir Svíar geta ekki sótt skóla og samkomum er frestað vegna COVID-19. Þetta gerir það enn brýnna en ella að finna upp á nýjum leiðum til að hitta fólk til þess að þeir geti haslað sér völl og aðlagast samfélaginu,“ segir Mardin.

Digitalkompis er án vafa lóð á vogarskálar Heimsmarkmiðanna um Sjáflbæra þróun. Tíunda markmiðið felur í sér að “eigi síðar en árið 2030 verði öllum gert kleift að taka þátt í félagslífi og hafa afskipti af efnahagsmálum og stjórnmálum, án tillits til aldurs, kyns, fötlunar, kynþáttar, þjóðernis, uppruna, trúarbragða, efnahags eða annarrar stöðu.”

Í könnun um áhrifin af starfi Nya Kompisbyrån kom fram að 22% nýju Svíanna hafa fengið vinnu þökk sé enstaklinga sem þeir hafa kynnst á þessum vettvangi.

„Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að mynda tengslanet til þess að fá meðmæli í starf. Upplýsingar um 8 af hverjum 10 störfum sem ráðið er í í Svíþjóð berast á milli manna um tengslanet. Það er því þýðingarmikið fyrir nýja Svía að fá möguleika á því að mydna slíkt net,“ segir Mardin.

Sophie og Manar are báðar sannfærðar um að þær muni hittast augliti til auglitis þegar faraldurinn er á enda og muni viðhalda vináttu sinni.

„Þegar ég kynntist Sophie, fannst mér við vera ótrúlega líkar í anda og hugsunagangi. Ég held við verðum nánir vinir í framtíðinni,“ segir Manar.

„Við erum þegar búnar að ákveða að leggja land undir fót saman og fara í ferðalag,“ segir Sophie hin ánægðasta.