Ahtisaari: Við slíkan mann segir maður ekki nei!

0
546

elders

Friðarverðlaunahafi Nóbels, Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands var svo sannarlega ekki að leita að auknu vinnuálagi þegar honum var boðið að ganga til liðs við the Elders, félagsskap áhrifaríkra öldunga úr röðum fyrrverandi veraldarleiðtoga árið 2009. Í viðtali við Norræna fréttabréf UNRIC segir hann að þótt hann hefði haft yfrið nóg að gera hafi hann ekki getað neitað bón Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, eina manns sem hann dáist að skilyrðislaust.

 “Hann hefur haft veruleg áhrif á mig. Hann reis upp á ný óbugaður eftir að hafa setið í fangelsi í 27 ár til að byggja upp nýtt þjóðfélag á grundvelli fyrirgefningar og án beiskju. Við slíkan mann segir maður ekki nei,” segir Ahtisaari.  

Hinir hörðustu og bestu í hópi diplómata hafa engan tíma til að setjast í helgan stein. Hópurinn sem stendur að the Elders vinnur í sameiningu að ýmsum þjóðþrifamálum á borð við frið í Mið-Austurlöndum, jafnrétti kynjanna og sjálfbæra þróun.

Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tók við formennsku samtakanna í maí síðastliðið vor af Desmond Tutu, erkibiskup en næstráðandi var kjörinn Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs. Auk Annan og Tutu eru tveir aðrir Friðarverðlaunahafar Nóbels viðloðandi, því Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti er liðsmaður og baráttukonan Aung San Suu Kyi var heiðursfélagi þar til hún settist á þing Búrma í apríl 2012.

Samtökin the Elders voru stofnuðu í Jóhannesarborg í júlí 2007 af Nelson Mandela. Kveikjan var samtal Richard Branson, breska athafnamannsins og rokksöngvarans Peter Gabriel sem ámálguðu hugmyndina við Mandela sem hrinti henni í framkvæmd.

Þrettán leiðtogar sem starfað hafa á heimsvísu eru í hópnum, þar á meðal tveir heiðursfélagar, og starfa þeir saman að framgangi friðar og mannréttinda. Þeir eru óháðir hagsmunum einstakra ríkja og geta því miðlað reynslu sinni óhikað og starfað þar sem aðrir eiga óhægt um vik.    

The Elders leggja mikið upp úr því að hlusta á alla og tala um málefni sem aðrir myndu ekki tala um og brjóta þannig tabú. Sem hópur berjast the Elders fyrir jafnrétti og jafnræði í heiminum.

The Elders hittast venjulega tvisvar á ári, einu sinni í Suður-Afríku og einu sinni annars staðar í heiminum. Ahtisaari sagði í viðtali við UNRIC að hópurinn hefði hittst síðast á Írlandi í maí. Á fundinum var ákveðið að halda einn fund í hverju ríki sem ætti fasta aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa þegar heimsótt Washington og Lundúni. Ahtisaari segir að fundirnir hafi verið mjög góðir, sérstaklega þar sem skriður er að komast á viðræður Ísarela og Palestínumanna. The Elders standa fast að baki tilraunum John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna við að koma á friði. Ahtisaari telur að viðræðurnar séu alvarlegasta tilraun til að stilla til friðar í þessum heimshluta í áratugi.

Félagar í the Elders hafa einnig nýverið ferðast til Norður-Kóreu til að ræða ástandið og hyggja á aðra ferð í nánustu framtíð. Enda þótt engar áþreifanlegar ákvarðanir hafi verið teknar í síðustu ferð og landið gangi í gegnum erfiðleikaskeið, telur hann að hópurinn leggi sitt lóð á vogarskálar með því að halda áfram viðræðum við Norður-Kóreumenn.

The Elders munu halda áfram að vinna af staðfestu að því að byggja betri heim. Þeir búa yfir algjöru sjálfstæði í ákvarðanatöku, þar sem aðrir þurfa að taka tillit til margra sjónarmiða og geta fært fólki von í miðjum hörmungum styrjalda. Hver og einn félagi í the Elders er líka fyrirmynd; einstaklingur sem sýnir gott fordæmi og stuðlar að jákvæðum félagslegum breytingum og er á sama tíma öðrum fordæmi til eftirbreytni.