Alþjóðlegi umhverfisdagurinn: Aðgerðarleysi er of dýrt

0
9
Sádi Arabía hýsir Alþjóðlega umhverfisdaginn í ár.
Sádi Arabía hýsir Alþjóðlega umhverfisdaginn í ár. . Mynd: UNEP/Duncan Moore

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn. Landeyðing. Endurheimt lands, stöðvun eyðimerkurmyndunar og viðnám við þurrkum eru í brennidepli á Alþjóðlega umhverfisdeginum 5.júní. Þema dagsins er: „Okkar land.Okkar framtíð“. #EndurreisnarKynslóð. #GenerationRestoration.”  

Að mati Stofnunar sáttmála Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn eyðimerkurmyndun (UN Convention to Combat Desertification) hefur allt að 40% alls lands á plánetunni orðið landeyðingu að bráð. Slíkt hefur bein áhrif á líf helming mannkynsins. Fjöldi og lengd þurrka hefur aukist um 29% frá árinu 2000. Án brýnna aðgerða kunna þurrkar að herja á þrjá fjórðu hluta heimsbyggðarinnar fyrir miðja öld.

„Mannkynið þrífst á landi. Samt sem áður hefur eitruð blanda mengunar, loftslagsóreiðu og ágangur á fjölbreytni lífríkisins breytt heilbrigðu landi í eyðimerkur og lifandi vistkerfum í lífvana auðn,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á Alþjóðlega umhverfisdeginum.

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn hefur verið haldinn síðan 1973. Ofotfjorden í Noregi.
Alþjóðlegi umhverfisdagurinn hefur verið haldinn síðan 1973. Ofotfjorden í Noregi. Mynd:
Johannes Jansson/norden.org

Fyrsti Alþjóðlegi umhverfisdagurinn var haldinn árið 1973 og var vígorðið „Aðeins ein jörð (“Only One Earth”). Síðan hefur dagurinn verið vettvangur vitundarvakningar um hvers kyns umhverfisvá, hvort heldur sem er mengun, plastmengun, ólögleg viðskipti með dýr eða fæðuöryggi, auk sjálfbærrar neyslu.

„Aðgerðarleysi er of dýrt,“ segir Guterres í ávarpi sínu. „En snöggar og skilvirkar aðgerðir borga sig efnahagslega. Hver króna eða dalur sem fjárfest er í endurreisn vistkerfa skilar sér þrjátíu sinnum til baka. Þess vegna fylkjum við liði undir vígorðinu #Endurreisnar kynslóðin.“

Vissir þú að?

  • Á fimm sekúndna fresti blæs upp landsvæði á stærð við fótboltavöll. Það tekur hins vegar þúsund ár að mynda þriggja sentimetra gróðurmold.
  • Tré í þéttbýli geta kælt loft um allt að 5°C og minnkað þörf á loftkælingu um fjórðung.
  • Vötn, ár og votlendi hýsa 20-30% alls kolefnis í heiminum þótt þau þekji aðeins 5-8% af yfirborði lands.

Ávarp Inger Andersen forstjóri UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, á Alþjóðlega umhverfisdaginn má sjá hér:

Norðurlönd

Loftslags- og umhverfisráðherrar Norðurlanda hittu Inger Andersen forstjóra UNEP, Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna á fundi sínum í Stokkhólmi í byrjun maí.

Inger Andersen forstjóri UNEP með umhverfis- og loftslagsráðherrum Norðurlanda
Inger Andersen forstjóri UNEP með umhverfis- og loftslagsráðherrum Norðurlanda. Mynd: Norden.org

„Norðurlöndin eru mikilvægur bandamaður okkar í baráttunni við hina þreföldu vá sem steðjar að heiminum,“ sagði Andersen og vísaði til loftslagsvárinnar, kreppu náttúrunnar, taps lífræðilegs fjölbreytileika, mengunar og sóunar.

Norðurlandaráði hafa borist sjötíu tilnefningar til Umhverfisverðlauna ráðsins 2024 um þemað sjálfbær byggingariðnaður.  Styttur listi verður birtur 28.júní.