Árásir á skóla og sjúkrahús í Jemen fordæmdar

0
594
yemenschool resized

yemenschool resized

16.ágúst 2016. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt loftárásir á skóla og sjúkrahús í Jemen síðustu daga. Loftárásin á skóla í norðurhluta jemen  kostaði að minnsta kosti tíu börn lífið um helgina.

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var „felmtri sleginn“ yfir fréttum af því að óbreyttir borgarar, þar á meðal börn verði enn fyrir barðinu á átökum og auknum hernaðaraðgerðum í Jemen, að sögn talsmanns hans.

Í yfirlýsingu talsmannsins segir að krafist sé tafarlausrar rannsóknar á árásinni á skólann sem átti sér stað í Sa´ada fylki. Sama máli gegnir um árásina á sjúkrahús sem rekið er í samvinnu við samtökin Lækna án landamæra í bænum Hajjah. Talið er að hernaðarbandalagið undir forystu Sádi Araba beri ábyrgð á árásinni.

Hvetur hann deilendur til að grípa til allra hugsanlegra ráða til að koma í veg fyrir frekari brot á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda óbreytta borgara og borgaralega mannvirki.

„Aðalframkvæmdastórinn ítrekar að það er engin hernaðarlausn hugsanleg í deilunni í Jemen,“ segir í yfirlýsingunni. Hann hvetur jafnramt stríðandi fylkingar til að endurnýja þegar í stað friðarviðleitni undir forystu Ismail Ould Cheikh Ahmed , sérstaks erindreka aðalframkvæmdastjórans í Jemen.

21 særðist í árásinni á skólann að sögn Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Jemen. „Börnin sem voru drepin voru á aldrinum sex til fjórtán ára gömul og voru í skóla í þorpinu Juma’a Bin Fadil í Haydan-héraði,” segir í tilkynningu UNICEF.

Sífellt fleiri börn hafa látist og særst en átök hafa harðnað undanfarna viku. Loftárásir, götubardagar og jarðsprengjur hafa reynst mannskæð.

„UNICEF hvetur stríðandi fylkingar í Jemen til að virða og hlíta í hvívetna ákvæðum alþjóðalaga”, segir í tilkynningu UNICEF og er bent sérstaklega á þá skyldu að herja einungis á vígamenn og takmarka eins og kostur er þann skaða sem óbreyttir borgarar og mannvirki verða fyrir.

Vopnahléi var lýst yfir 10.apríl eftir 16 mánaða átök í Jemen. Viðræður á milli ríkisstjórnar Jemen og fulltrúa Alþýðuþings og Ansar Allah hafa haldið áfram, en átök hafa blossað upp í Marib al Jawf, Taiz og í landamærahéruðum nærri Sádi Arabíu.

6.ágúst lýsti erindreki Sameinuðu þjóðanna yfir mánaðar hléi á viðræðum á meðan hann myndi starfa með hvorum aðila fyrir sig til þess að skerpa á tæknilegum atriðum.

Mynd: afleiðingar árásar á skóla. UNICEF.