Ávarp framkvæmastjóra Sameinuðu þjóðanna á Alþjóða umhverfisdaginn 5. júní 2007

0
495

Losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum, hefur í för með sér hlýnun jarðarinnar.  Meiri koltvíseringur hefur safnast saman í andrúmsloftinu en nokkru sinni á síðustu sex hundrað þúsund árum og losunin eykst ár frá ári.  

Ógnvænlegustu dæmin um loftslagsbreytingar er að finna á heimskautunum tveimur. Norðurheimskautið hlýnar tvisvar sinnum meira en sem nemur heimsmeðaltali. Útbreiðsla og dýpt íshellunnar í Norður-Íshafinu minnkar stöðugt; sífreri sem verið hefur í klakaböndum um aldir er að þiðna og íshellan á Grænlandi og Suðurskautslandinu bráðnar hraðar en nokkurn grunaði. 
Afleiðingarnar fyrir íbúana og vistkerfið á norðurheimskautinu eru djúpstæðar. Eftir því sem íshafið lætur undan síga, minnkar kjörlendi margra berskjaldaðra dýrategunda. Breytingarnar hafa ekki síður áhrif á samfélög frumbyggja sem eru háðir náttúrunni ekki aðeins um fæðu heldur ekkert síður um menningarlega sjálfsmynd. 
Engu að síður er þetta ekki mál sem snýst eingöngu um heimskautin. Íbúar eyja sem eru lágt yfir sjávarmáli og borgarbúar í strandbyggðum horfast í augu við að heimili þeirra lendi undir vatni. Tryggingafyrirtæki heims borga sífellt hærri fjárhæðir í tjónabætur vegna öfga veðurfarsins. Ríkisstjórnir hafa áhyggjur af stöðu ferskvatns er jöklar hörfa. Breytt veðurfar sem tengist loftslagsbreytingum ýtir undir myndun eyðimarka, veldur þurrkum og hungri hjá þeim þriðjungi mannkyns sem býr á þurrkasvæðum, aðallega í Afríku. 
Félagslegum og efnahagslegum framförum og framtíðar öryggi okkar er stefnt í hættu vegna þess hve samfélög okkar eru háð orkugjöfum á borð við olíu, gas og kol. Til allrar hamingju eru ýmsir valkostir í boði bæði tæknilegir og stefnumótandi en við þurfum aukinn pólitískan vilja til að færa okkur þá í nyt. Einkanlega þróuð ríki geta gert meira til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og nota orkugjafa á skilvirkari hátt. Þau geta líka stutt þróun í átt til notkunar hreinni orkugjafa í ört vaxandi efnahagskerfum á borð við Brasilíu, Kína og Indland auk þess að styðja aðlögun í ríkjum sem munu eiga um sárast að binda vegna loftslagsbreytinga. 
Á alþjóða umhverfisdaginn skulum við viðurkenna þörfina á því að draga úr þeim stórkostlegu umhverfisbreytingum sem við blasa á heimskautunum og um heim allan. Og við skulum heita því að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. 
Ban Ki-moon