Afríka á eftir áætlun í baráttunni gegn fátækt

0
522
6. júní 2007. Afríka er á eftir áætlun í því að ná settu marki í baráttunni gegn hvers kyns fátækt þrátt fyrir hraðari hagvöxt og styrkari stofnanir, sagði Asha-Rose Migiro, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á blaðamannafundi í New York þar sem hún hvatti til aukins alþjóðlegs stuðnings við heimsálfuna. 

Migiro kynnti skýrslu um árangur Afríku sunnan Sahara í að ná Þúsaldarmarkmiðunum um að minnka fátækt og efla þróun. Þúsaldarmarkmiðin voru samþykkt á alheimsleiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í tilefni af árþúsundaskiptunum 2000. Þeim ber að ná fyrir 2015 og því er sá tími sem var til stefnu hálfnaður um næstu mánaðamót. Migiro sagði að leiðtogafundur átta helstu iðnríkjanna (G8) í  Heiligendamm í Þýskalandi væri gott tækifæri fyrir veitendur þróunaraðstoðar til að samþykkja áætlanir um að auka þróunaraðstoð við Afríkuríki. 
Migiro sagði fréttamönnum í  New York að nýjustu tölur sem Sameinuðu þjóðirnar hefðu tekið saman bentu til að þetta væri “tröllaukin áskorun en árangur væri samt að koma í ljós.”   
Fólki sem býr við örbirgð hefur hætt að fjölga síðan 1999, grunnskólanemum fjölgar í ríkjam á borð við Ghana, Kenýa, Tansaníu og Úganda og tökum hefur verið náð á malaríu í Níger, Togo og Sambíu að sögn Migiro.  
Á meðal helstu áskoranna nefnd hún “hneykslanlega háa” dánartíðni kvenna af barnsförum og að HIV/Alnæmistilfellum fjölgaði hraðar en meðferðarúrræðum sem væru í boði. 
Hún sagði að hægt væri að glíma við þessar áskoranir með úrræðum, kunnáttu og tækni sem alþjóðasamfélagið byggi yfir í samræmi við skuldbindingar hvort tveggja afrískra ríkisstjórna og veitenda aðstoðar. 
Hún bætti því við að nýleg reynsla sýndi að til þess að ná verulegum árangri í þá átt að ná Þúsaldarmarkmiðunum þyrfti sterka forystu af hálfu stjórnvalda ásamt nægilegum fjárhagslegum og tæknilegum stuðningi alþjóðlegra samstarfsaðila ásamt markaðsaðgangi.  
“Fjármagn leysir vissulega ekki öll vandamál”, sagði Guido Schmidt-Traub, yfirmaður Þúsaldarmarkmiða stuðningsteymis Þróunaráætlunar SÞ (UNDP) á blaðamannafundinum, “en fjárskortur er engu að síður greinilega einn helsti Þrándur í götu markmiðanna og veldur því að ekkert land er á áætlun að ná markmiðunum.” 
Sjá nánar: http://www.un.org/millenniumgoals/docs/MDGafrica07.pdf