ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRANS Á ALÞJÓÐLEGA ALNÆMISDAGINN, 1. desember 2006

0
488

Á þeim tuttugu og fimm árum sem liðin eru síðan fyrsta tilfellið fannst, hefur Alnæmi breytt heiminum. 25 milljónir manna hafa látist af völdum alnæmis og fjörutíu milljónir til viðbótar hafa sýkst.  Sjúkdómurinn er orðinn algengasta dánarorsök bæði kvenna og karla á aldrinum 15 til 59 ára.  Hér er um að ræða einhverja mestu afturför sem um getur í sögu mannlegrar þróunar. Með öðrum orðum er sjúkdómurinn orðinn stærsta áskorun okkar kynslóðar.

Heimurinn var allt of lengi í afneitun. En undanfarin tíu ár hafa viðhorfin breyst. Heimurinn er farinn að taka baráttuna gegn alnæmi jafn alvarlega og hún á skilið.

Meira er varið til baráttunnar en nokkru sinni fyrr, fleiri hafa aðgang að veirulyfjameðferð, en áður og mörgum ríkjum hefur tekist að ráðast af meira afli gegn útbreiðslunni en dæmi eru um.   Fjöldi sýkinga heldur áfram að aukast af fullum krafti og því er nauðyn að virkja pólitískan vilja  – sem aldrei fyrr.

Fyrir áratug var UNAIDS stofnað með því að fylkja liði mismunandi hluta Sameinuðu þjóða fjölskyldunnar. Með því urðu tímamót í baráttunni gegn Alnæmi. Og fyrir fimm árum náðu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna tímamótasamkomulag með skuldbindandi yfirlýsingu um tiltekin, víðtæk og tímabundin markmið í baráttunnni gegn faraldrinum.

Sama ár hvatti ég til þess að stofnaður yrði 7 til tíu milljarða dollara sjóður um leið og ég gerði HIV/Alnæmi að forgangsatriðið í starfi mínu sem framkvæmdastjóri SÞ. Ég er stoltur af því í dag að vera verndari Alheimssjóðsins til höfuðs Alnæmi, berklum og mýrarköldu sem hefur látið þrjá milljarða dollara af hendi rakna til verkefna víða um heim.  Að undanförnu hefur sjóðnum borist aukið fé frá ríkisstjórnum, góðargerðasamtökum, frjálsum félagasamtökum og öðrum. Árleg fjárfesting til baráttunnar gegn Alnæmi í ríkjum sem hafa lágar- eða meðaltekjur nemur nú rúmlega átta milljörðum dollara. Vitaskuld er mun meira þörf því árið 2010 verður fjárþörf heildarátaks gegn alnæmi á heimsvísu rúmlega 20 milljarðar á ári. En við höfum að minnsta kosti stigið fyrsta skrefið í þá átt að útvega nægjanlegt fjármagn og setja markvissa stefnu.

Mikið er í veði nú þegar árangur er farinn að nást. Við getum ekki hætt á að það tapist á ný sem áunnist hefur – við megum ekki stofna hetjulegum árangri fjölda manns í hættu. Markmið okkar er að öll loforð sem þegar hafa verið gefin skuli efnd- þar á meðal Þúsaldarmarkmiðin sem allar ríkisstjórnir heims hafa sett sér um að stöðva útbreiðslu HIV og byrja að draga úr fjölda smita fyrir árið 2015.   Mikilvægt er að forystumenn geri sér ljóst mikilvægi þess að hindra útbreiðslu Alnæmis í því að ná öðrum markmiðum Þúsaldarmarkmiðanna sem eru heildaráætlun alþjóða samfélagsins um betri heim á tuttugustu og fyrstu öldinni. Leiðtogar heimsins verða að sæta ábyrgð og við öll verðum að draga þá til ábyrgðar.

Ábyrgð – þema Alþjóðlega Alnæmisdagsins að þessu sinni – krefst þess að hver forseti og forsætisráðherra, hver þingmaður og stjórnmálamaður, ákveði og lýsi yfir: “Ég ber ábyrgð á Alnæmi”. Þetta felur í sér að auka vernd allra áhættuhópa, hvort heldur sem er HIV smitaðs fólks, ungs fólks, sprautufíkla eða karla sem hafa mök við karla. ­Þeir verða að taka höndum saman við frjáls félagasamtök sem skipta miklu máli í baráttunni. Þetta felur í sér að þeir vinni að raunverulegum, jákvæðum breytingum með því að efla konur og stúlkur og auka sjálfstraust þeirra og umbreyta samskiptum karla og kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins.

En ábyrgð snýr ekki einungis að þeim sem eru í valdastöðum. Ábyrgð snýr að okkur öllum. Atvinnurekendum ber að vinna gegn HIV smiti á vinnustöðum og í öllu samfélaginu og hlúa að smituðum starfsmönnum og fjölskyldum þeirra.  Heilbrigðisstarfsmönnum, samfélagsleiðtogum og trúarhópum ber að hlusta og sýna aðgát án þess að kveða upp dóma. Feðrum, eiginmönnum, sonum og bræðrum ber að styðja og staðfesta réttindi kvenna. Kennarar verða að glæða drauma og vonir stúlkna. Karlar verða að sjá til þess að aðrir karlar sýni ábyrgð og geri sér grein fyrir að það er sönn karlmennska að vernda aðra frá áhættu. Og öll verðum við að hjálpast að til að draga Alnæmi út úr skúmaskotunum og koma þeim boðskap á framfæri að þögn þýðir dauði.

Brátt mun ég láta af starfi sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. En svo lengi sem ég hef orku til, mun ég halda áfram að breiða út þennan boðskap. Þess vegna er Alþjóðlegi Alnæmidagurinn mér kær – ekki bara í dag eða í ár eða næsta ár, heldur hvert ár þar til sigur hefur unnist á farlaldrinum.

Kofi A. Annan