Ávarp framkvæmdastjórans á alþjóðlegum samstöðudegi með palestínsku þjóðinni

0
490

New York, 29. nóvember 2006 – Friðsamleg lausn á deilum Ísraela og Palestínumanna virðist enn vera átakanlega torsótt. Hvert tækifærið á fætur öðru til að þoka friðarferlinu áfram hefur glatast.

Á síðustu dögum hafa glæðst vonir um að ástandið róist eftir síðustu átakahrinu í kjölfar þess að vopnahléi var lýst yfir á Gasa. Ég hvet báða aðila til þess að standa við skuldbindingar sínar og forðast allar aðgerðir sem geti hindrað frekari árangur. Ég hvet þá einnig til að lýsa yfir vopnahléi á Vesturbakkanum. 

Raunar er lífsnauðsyn að binda enda á ofbeldi. Mannfall meðal óbreyttra borgara stórjókst og mikið tjón varð á eignum og mannvirkjum í síðustu hernaðaraðgerðum á Gasaströndinni. Ísrael verður sem fyrr að sýna ítrustu stillingu og gangast við ábyrgð sinni samkvæmt alþjóðalögum á að vernda palestínska íbúa. 

Ísraelar búa einnig við óöryggi. Þeir hafa réttilega krafist þess að Palestínska heimastjórnin grípi til trúverðugra aðgerða til að hindra árásir á Ísraelsmenn og landsvæði þeirra. Stöðugar flugskeytaárásir palestínskra vígamanna á óbreytta ísraelska borgara eru óþolandi og verður að stöðva hið snarasta.

Heimastjórn Palestínumanna glímir við skelfilegan pólitískan og fjárhagslegan vanda. Palestínskar stofnanir, sjúkrahús og skólar búa við erfitt ástand sem eykur á sárar þjáningar palestínsku þjóðarinnar.  Versnandi mannúðarástand á Vesturbakkanum og Gasasvæðinu krefst tafarlausrar athygli og ég vona að gefendur láti sem fyrr rausnarlega af hendi rakna.   

Blóðsúthellingarnar undanfarna mánuði eru því raunalegri þar sem að við vitum að mikill meirihluti bæði Palestínumanna og Ísraelsmanna kjósa tveggja ríkja lausn byggða á samningum sem myndi enda á hersetuna sem hófst 1967, stuðla að stofnun ríkis Palestínumanna og tryggja öryggi Ísraels.  Ég tel líka að leiðtogar deilenda, Abbas forseti og Olmert forsætisráðherra vilja af einlægni brjóta þjóðum sínum leið út úr áratugagömlum sársauka og óvissu.

Deilendur bera sem fyrr höfuðábyrgð á því að finna leið út úr vandanum með því að taka þátt í raunhæfu pólitísku ferli sem getur leitt þjóðirnar til langþráðs friðar. Enginn getur samið frið fyrir þær   eða neytt þær til friðar eða viljað frið meira en þær.  Engu að síður getur alþjóðasamfélagið sem hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í deilunni, ekki vikið sér undan þeirri ábyrgð að greiða fyrir lausn. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa ævinlega verið í framvarðasveitinnni á alþjóðavettvangi við að greiða fyrir friði og draga úr þjáningum. Við skulum ekki gleyma því að á þessum degi er minnst fyrstu samþykktar Allsherjarþingsins um tveggja ríkja lausn frá árinu 1947.  Í dag eru samþykktir Öryggisráðsins númer 242,338,1397 og 1515 viðurkenndir vegvísar á leið til réttlátrar og varanlegrar lausnar. Sérstakur sendiboði Sameinuðu þjóðanna starfar enn náið með deilendum og fulltrúum alþjóðasamfélagsins í heimshlutanum við að greiða fyrir friðarferlinu í Mið-Austurlöndum. Og mannúðar- og þróunarstofnanir okkar halda áfram að sjá milljónum Palestínumanna fyrir nauðþurftum. Konur og karlar sem lagt hafa hönd á plóginn eiga lof skilið fyrir störf sín við sífellt hættulegri aðstæður. 

Við skulum á þessum Alþjóðadegi, skuldbinda okkur til að blása nýju lífi í friðarferlið svo að markmiðin um að stofna Palestínuríki og tryggja öryggi Ísraels náist áður en þessi harmleikur hefur kostað of mörg mannslíf til viðbótar.