Ban Ki-moon leggur til eflingu friðar og afvopnunarstarfs

0
535

5. febrúar 2007   Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði í dag fram tillögur til aðildarríkja samtakanna sem miða að því að efla friðargæslu og afvopnunarstarf samtakanna.   

 

Ban lagði fram tilllögunnar á fundi Allsherjarþingsins sem haldinn var fyrir luktum dyrum. Í ræðu sinni lagði Ban áherslu á að nauðsyn væri að endurskipuleggja þessi tvö mikilvægu svið, að sögn talskonu hans. Framkvæmdastjórinn benti á að friðargæsluverkefni hefðu aldrei verið fleiri og bregðast þyrfti við aukinni eftirspurn eftir kröftum SÞ á þessu sviði, að sögn Michele Montas.   

 

“Hann lagði til stofnun stuðningsdeildar við sveitir á vettvangi í því skyni að efla friðargæslusveitirnar, gera þær skilvirkari, auka samræmingu og skilgreina betur ábyrgð”, sagði hún.  Framkvæmdastjórinn lagði einnig áherslu á nauðsyn á öflugri forystu í afvopnunarmálum og lagði til að Afvopnunardeild yrði stofnun sem sérstök skrifstofa sem hefði “beina línu til framkvæmdastjórans til að tryggja góðan aðgang og aukin samskipti”, bætti hún við.

Ban lofaði einnig að halda áfram að hlusta á raddir aðildarríkja en hann tók tillit til sjónarmiða þeirra við útfærslu tillagnanna. Aðspurð um viðbrögð aðildarríkjanna sagði frú Montas að viðræður væru enn í gangi og benti á að kynning tillagnanna í dag væri einungis upphaf að umræðum við aðildarríkin í heild í kjölfar samráðs innan smærri hóps.