Ban Ki-moon: Samningi SÞ um fatlaða verði hrint í framkvæmd

0
426
alt

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi sínu í tilefni alþjóða dags fatlaðra, 3. desember 2010, að ríkisstjórnir verði að gera meira til að standa við bak fatlaðs fólks: “Í þessu felst að hrinda í framkvæmd Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Og jafnframt að taka tillit til þarfa fatlaðra í áætlunum einstakra ríkja um framkvæmd Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.”alt

Framkvæmdastjórinn bendir á í ávarpi sínu að tíundi hver einstaklingur í heiminum glími við fötlun og rúmlega tuttugu prósent fátækustu íbúa þróunarríkjanna séu fatlaðir.

“Fötlun helst einnig að verulegu leyti í hendur við fátækt…Fatlaðir búa við mest atvinnuleysi allra í heiminum og skortir oft viðunandi menntun og heilsugæslu. Víða í heiminum er ekki gert ráð fyrir þessum hópi og fatlaðir búa við einangrun án tengsla við þeirra eigið samfélag.”

Þema alþjóðlegs dags fatlaðra að þessu sinni er: “Að standa við loforðið: fötlun verði miðlæg innan Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.”  Ban Ki-moon minnir á að málefni fatlaðra voru rædd á leiðtogafundi í New York nú í haust: “Á meðal þeirra loforða sem leiðtogar ríkja veraldar gáfu á leiðtogafundinum um Þúsaldarmarkmiðin í september, var fyrirheit um að bæta líf fatlaðs fólks. “

Alþjóða dagur fatlaðra hefur verið haldinn 3. desember ár hvert frá árinu 1981 sem var Alþjóðlegt ár fatlaðs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum. Markmiðið með því að halda þennan dag er að auka skilning á fötlun og beina athyglinni að réttindum fólks sem glímir við fötlun.

Nánari upplýsingar um starf Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra má finna hér: http://www.un.org/disabilities/default.asp?navid=3&pid=17

Ávarp framkvæmdastjóran fylgir hér að neðan í heild:

ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA Á ALÞJÓÐADEGI FATLAÐRA, 3. desember 2010

Þema alþjóðlegs dags fatlaðra að þessu sinni er: “Að standa við loforðið: fötlun verði miðlæg innan Þúsaldarmarkmiðanna um þróun.” 

Á meðal þeirra loforða sem leiðtogar ríkja veraldar gáfu á leiðtogafundinum um Þúsaldarmarkmiðin í september, var fyrirheit um að bæta líf fatlaðs fólks. 

Í fjölbreyttum hópi fatlaðra er fólk sem er allt í kringum okkur; í fjölskyldu okkar, vinahópi og næsta nágrenni. Fötlun, hvort heldur sem er líkamleg, andleg eða vegna skertrar sjónar eða heyrnar, herjar á um tíu prósent jarðarbúa.

Fötlun helst einnig að verulegu leyti í hendur við fátækt. Fatlað fólk er rúmlega tuttugu prósent þeirra sem búa við fátækt í þróunarríkjunum. Fatlaðir búa við mest atvinnuleysi allra í heiminum og skortir oft viðunandi menntun og heilsugæslu. Víða í heiminum er ekki gert ráð fyrir þessum hópi og fatlaðir búa við einangrun án tengsla við þeirra eigið samfélag.

Þrátt fyrir þessar hindranir, sýna fatlaðir oft af sér einstakt hugrekki og þrautseigju. En þótt við dáumst að fólki sem þrátt fyrir fötlun sína, nær framúrskarandi árangri í mannlegu samfélagi, má slíkur árangur ekki skyggja á erfiðleika þeirra sem búa við átakanlegar aðstæður og njóta ekki sömu réttindi, hlunninda og tækifæra og samborgarar þeirra.

Ríkisstjórnir verða að gera meira til að standa við bak fatlaðs fólks. Í þessu felst að hrinda í framkvæmd Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Og jafnframt að taka tillit til þarfa fatlaðra í áætlunum einstakra ríkja um framkvæmd Þúsaldarmarkmiðanna um þróun. Leiðtogar veraldar viðurkenndu í aðgerðaráætluninni sem þeir samþykktu á leiðtogafundinum um Þúsaldarmarkmiðin að núverandi viðleitni væri ófullnægjandi.

Við skulum viðurkenna á alþjóða degi fatlaðra að sigur vinnst ekki á fátækt, sjúkdómum og mismunun, nema í krafti markvissra laga, stefnumótunar og áætlana í því skyni að valdefla þennan hóp. Við skulum heita því að fyrirheitin um markmiðin gleymist ekki innan raða fatlaðra. Og við skulum einnig,  ekki aðeins sjá til þess að þeir verði á meðal þeirra sem njóta ávaxtanna, heldur gegni mikilvægu hlutverki í fimm ára átaki okkar til að ná Þúsaldarmarkmiðunum fyrir 2015 eins og samþykkt hefur verið á alþjóða vettvangi.