Ban: SÞ brást á Sri Lanka

0
420

Sri Ban

15. nóvember 2012 – “Sameinuðu þjóða kerfið brást skyldum sínum”, sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í gær eftir að hann tók formlega við skýrslu um frammistöðu samtakanna á lokamánuðum borgarastríðsins á Sri Lanka árið 2009.   

Samkvæmt fyrri úttekt Sameinuðu þjóðanna er talið að allt að fjörutíu þúsund manns hafi látíð lífið á síðustu fimm mánuðum stríðsins, en aðrir telja þessa tölu enn hærri.
Í skýrslunni er Sameinuðu þjóða kerfið gagnrýnt fyrir að bregðast skyldum sínum en að auki er farið í saumana á starfi aðalskrifstofu samtakanna, einstakra stofanana og áætlana og Sameinuðu þjóða hópsins á staðnum auk Öryggisráðsins og Mannréttindaráðsins

Ban sagðist í yfirlýsingu staðráðinn í að samtökin myndu læra af þessu máli til þess að geta sinnt mannkyninu betur, sérstaklega fólki sem væri á milli steins og sleggju í átökum.  .

“Þessar niðurstöður munu hafa djúpstæð áhrif á starf okkar um allan heim, og ég er staðráðinn í því að Sameinuðu þjóðirnar dragi viðeigandi lærdóma og geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að standa undir því Trausti sem almenningur, sérstaklega fólk á átakasvæðum, ber til samtakanna,” bætti hann við.

Ríkisstjórn Sri Lanka lýsti yfir sigri í stríði við hina svokölluðu Tamíl Tígra (Liberation Tigers of Tamil Eelam (LTTE)) í maí 2009 eftir nærri þriggja áratuga átök. Alvarlegar ásakanir hafa komið fram um brot á alþjóðlegum mannréttinda og mannúðarlögum á síðustu mánuðum átakanna.

Innri rannsókn var skipuð og hefur nefnd unnnið að henni í átta mánuði. Formaður hennar Charles Petrie afhenti framkvæmdastjóranum niðurstöðurnar sem hann birti opinberlega samstundis.

Mynd: Ban Ki-moon heimsækir flóttamenn á Sri Lanka í maí 2009. SÞ/Eskinder Debebe