Bestu fréttirnar skila árangri

0
490

Verdens bedste

29. ágúst 2012. Vissir þú að sárasta fátækt og mæðradauði í heiminum hefur minnkað um næstum helming frá því árið 1990?  Og að tveir milljarðar manna hafa fengið aðgang að hreinu vatni á sama tíma? Fréttir af þróunarlöndum eru oft og tíðum neikvæðar en nú er hafin herferð í Danmröku til að snúa við blaðinu.

Herferðin Heimsins bestu fréttir eða Verdens Bedste Nyheder er hafin þriðja árið í röð. Næsta mánuðinn er ætlunin að flytja Dönum  fréttir af jákvæðri framþróun þökk sé þróunarsamvinnu.  

”Flestir Danir tengja þróunarlönd við neikvæða hluti á borð við hungur, malaríu og borgarastríð. Í raun og veru hefur þróunaraðstoð skilað ótrúlegum árangri. Þrjú af átta Þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um þróun til að berjast við fátækt og neyð,  hafa þegar náðst,en þeim átti að ná fyrir 2015. Það á að láta fólk vita af því að hjálpin skiptir máli,” segir Thomas Ravn-Pedersen, herferðarstjórinn.

Sýna á Dönum fram á að þeirra framlag skiptir máli. Forkólfar Bestu fréttanna segjast sjá árangur hvað varðar vitund Dana um þróunaraðstoð frá því herferðin hófst 2010.

 Thomas Ravn-Pedersen segir:  ”Við sjáum greinileg áhrif af herferðum okkar síðustu tvö ár. Umtalsvert fleiri Danir vita að margir hafa losnað úr fátæktargildru í þróunarlöndum og margir hafa trú á því að þróunaraðstoð virki. Þess vegna teljum við að þessi jákvæðu áhrif geti orðið viðvarandi og ætlum að flytja enn fleirum Bestu fréttirnar í ár.”

Bestu fréttirnar eru frumkvæði frjálsra félagasamtaka sem láta sig þróunarmál varða, dönsku þróunarsamvinnustofnunarinnar, Danida og Sameinuðu þjóðanna. Þau njóta stuðnings fjölda fyrirtækja. Margir danskir stjórnmálamenn styðja frumkvæðið og taka þátt í að útdeila bæklingum þegar frumkvæðið nær hámarki 14. september.

Sjá nánar á www.verdensbedstenyheder.dk og á Facebook.

Mynd: Lest skreytt með fyrirsögnum úr Heimsins bestu fréttum. Mynd: Verdens bedste nyheder.