Boðað til neyðarfundar Allsherjarþingsins um Gasa

0
17
Dennis Francis forseti Allsherjarþingsins í ræðustól
Dennis Francis forseti Allsherjarþingsins kallaði saman neyðarfund um Gasasvæðið. Mynd: UN Photo/Loey Felipe.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur verið kvatt saman til neyðarfundar á morgun 12.desember, eftir að Öryggisráðið kom sér ekki saman um ályktun um Gasasvæðið. Bandaríkin beittu neitunarvaldi á fundi ráðsins á föstudag, en þá hafði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna notaði 99.grein stofnskár samtakanna til að freista þess að knýja fram aðgerðir.

Forseti Allsherjarþingsins boðaði til neyðarfundarins að kröfu Egyptalands og Maritaníu. Tvo þriðju hluta atkvæða þarf til samþykktar ályktana við slíkt tilfelli, sem eru þó ekki bindandi. Formlega er fundurinn framhald neyðarfundarins í október en þá var samþykkt ályktun og sat Ísland hjá.

Guterres í ræðustól í Doha.
Guterres í ræðustól í Doha.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur heitið því að gefast ekki upp á að reyna að koma á vopnahléi í mannúðarskyni á Gasa. Hann sagði að aðgerðarleysi Öryggisráðið græfi undan trúverðugleika þess.

„Helsti vettvangur fyrir friðsamlega lausn alþjóðlegra deilna er lamaðar vegna sundrungar,“ sagði António Guterres á fundi í Doha í Katar.  Bandaríkin beittu neitunarvaldi á föstudag til að hindra framgang ályktunar. Í henni var þess krafist að Ísrael og palestínskir vígamenn stöðvi hatrömm átök, sem hófust eftir hryðjuverkaárásir Hamas 7.október.

Fundur Öryggisráðsins í gær.
Fundur Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

„Ég hvatti Öryggisráðið til að nota vald sitt til að koma í veg fyrir gríðarlegar hörmungar og ítrekaði ákall mitt um að lýst yrði yfir vopnahléi í nafni mannúðar,“ sagði Guterres.

„Því miður tókst Öryggisráðinu ekki að komast að samkomulagi, en það gerir málefnið ekki síður brýnt. Ég get því lofað því að ég mun ekki gefast upp,“ sagði hann á ráðstefnu í Katar. Þar er til umfjöllunar sameiginlegt öryggi og fleiri áskoranir.

Hann benti ekki á að sökum sundrungar innan ráðsins hefði aðeins ein ályktun verið samþykkt um þetta stóra mál. Sú ályktun fjallaði um þröngt svið mannúðaraðstoðar.

Guterres sagði umbóta þörf á stjórnun alþjóðamála, sem ættu að byggja á Mannréttindayfirlýsingunni og stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

WHO samþykkir ályktun um lífsnauðsynlega aðstoð

Framkvæmdastjórn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hélt sérstakan neyðarfund á sunnudag í Genf. Þar var samþykkt samhljóða ályktun um að binda beri enda á hörulegt mannúðarástand á Gasasvæðinu.

Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO sagði í opnunarræðu að hann harmaði „villimannslegar og óréttlætanlegar árásir Hamas á Ísrael 7.október.“ Hann kvaðst sleginn yfir fréttum um kynbundið ofbeldi í árásunum og illa meðferð gísla. Hann hvatti til lausnar allra 114 gísla.

Frá 7.október hefur WHO staðfest rúmlega 449 árásir á helsugæslu á Gasasvæðinu og Vesturbakka Jórdanar og 60 á heilsugæslu í Ísrael.

Tedros harmaði að Öryggisráðinu hefði ekki tekist að koma sér saman um ályktun.