COP27: Spjótum beint að olíufélögum og iðnríkjum

0
361
COP27
Ræða Mia Mottley forsætisráðherra Barbados á COP27 í gær vöktu mikla athylgli. Mynd: UN Climate / Kiara Worth

COP27. Loftslagsbreytingar. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til þess í ræðu sinni á COP27 í gær að olíufyrirtæki yrðu skattlögðu sérstaklega. Slík fyrirtæki hefðu hagnast verulega vegna hækkandi olíuverðs, ekki síst vegna stríðsins í Úkraínu. Réttmætt væri að nota skatttekjur af ofsagróða olíufélaganna til að fjármagna aðstoð við þá jarðarbúa sem liðu fyrir hækkandi matar- og orkuverð, auk tjóns af völdum loftslagskreppunnar.

COP27
António Guterres ávarpar COP27 í Sharm el-Sheikh.

„Banvæn áhrif loftslagsbreytinga eru áþreifanlegar hér og nú. Það er ekki lengur hægt að sópa tapi og tjónum undir teppið. Þetta er siðferðilega brýnt málefni. Þeir sem minnsta sök bera á ástandinu, verða harðast fyrir barðinu á því,” sagði Guterres.

Aðalframkvæmdastjórinn gekk svo langt að segja að heimurinn væri á leið til loftslagshelvítis (sjá hér).

200 milljarða gróði á 3 mánuðum

Ræða Mia Mottley, forsætisráðherra Barbados vakti athygli en hún tók mjög í sama streng. Hún lauk lofsorði á Dani, Belga og Skota fyrir að leggja þeim þróunarríkjum til fé sem verða að ósekju fyrir barðinu á loftslagsbreytingum.

„Hvernig geta fyrirtæki grætt 200 milljarða dollara á þremur mánuðum og staðið gegn því að verja að minnsta kosti tíu sentum af hverjum dal til að bæta skaðann? Þetta er það sem okkar fólk ætlast til,” sagði Mottley.

Hún sagði að vestræn ríki hefðu auðgast á kostnað hinna fátækari á fyrri tímum og nú ættu hinir snauðu að sitja uppi með reikninginn af veislu annara. Mottley varaði við því að milljarður manna gæti flosnað upp fyrir miðja öldina, ef ekki væri lagt til atlögu við loftslagbreytingar.

Þróunarríki leggja ofuráherslu á að iðnríkin geri reikningskil á COP27,  Ranil Wickremesinghe forseti Sri Lanka talaði á svipuðum nótum og Mottely og sagði að loftslagsbreytingar bæri að skoða í samhengi við nýlendustefnuna.

Nýlendustefna á ferðinni

„Nýlendustefnan fólst í því að náttúruauðlindir Asíu og Afríku voru nýttar til þess að drífa áfram iðnvæðignu ríku landanna”,  sagði Wickremesinghe. „Farið var ránshendi um lönd okkar og þessar gripdeildir gerðu okkur snauðari.”

Forsetinn sakaði iðnríkin um að ganga á bak orða sinna.

„Ríkin í G7 og G20 ríkjahópunum eru að draga í land og í stað þess að minnka, auka þau nú notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta er óásættanleg tvöfeldni.”

Sjá einnig hér, hér, hér og hér.