COVID-19: Ekki æpa, skoðaðu ÓPIÐ

0
953
COVID-19, list
Ópið eftir Munch. Mynd: Munchmuseet

Í hvert skipti sem heimurinn hefur staðið frammi fyrir meiriháttar vanda undanfarna rúmu öld hefur frægasta málverk frægasta málara Norðulanda leitað á hugi fólks. Ópið eftir norska málarann Edvard Munch hefur frá því það var málað 1893 orðið tákn um angist og angurværð.

Ópið hefur verið notað sem tákn í hvert skipti sem alheims-vá hefur blasað við hvort heldur sem er fyrri heimsstyrjöldin eða kalda stríðið og nú síðast COVID-19 faraldurinn“, segir Stein Olav Henrichsen, forstjóri Munchsafnsins í Osló í viðtali við UNRIC.

COVID-19, list, Munch
Lösrivelse eftir Munch. Mynd: Munchmuseet

Munchsafnið sem hýsir Ópið er eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í Osló. Eins og flest listasöfn, leik- og kvikmyndahús, tónleikasalir og önnur menningarsetur hefur það verið lokað vegna COVID-19.

Óvissa og angist eru fylgifiskar tekjumissis sem margir verða fyrir. UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, óttast að þessi skyndilega stöðvun geti haft langtíma afleiðingar fyrir menningarstofnanir heimsins.

„Fólk þarf meir á menningu að halda nú en nokkru sinni fyrr“, segir Ernesto Ottone, aðstoðarforstjóri UNESCO á sviði menningar. „Menningin eflir þolgæði okkar. Hún fyllir okkur von. Hún minnir okkur á að við erum ekki ein.“

COVID-19, list, Munch
Sólin eftir Edvard Munch. Mynd: Munchmuseet.

Eins og mörg önnur söfn, leik- og óperuhús hefur Munch safnið haslað sér völ á netinu til að viðhalda tengslum við listunnendur á meðan á faraldrinum stendur.

„Þetta eru sérstaktir tímar og margir búa við erfiðar aðstæður. Það hefur verið okkur mikilvægt að sýna list Edvards Mucnch á nýstárlegan hátt. Vonandi veitir það fólki nýja og góða upplifun á erfiðum tímum,“ segir Henrichsen forstjóri.

Stafrænar lausnir

Safnið lokaði raunar 11.mars 2020, degi áður en norsk yfirvöld tilkynntu um miklar takmarkanir til að hindra COVID-19 smit.

COVID-19, list, Munch
Ungt fólk á störnd eftir Edvard Munch. Mynd: Munchmuseet.

„Í kjölfarið fluttum við listina yfir á stafrænan vettvang safnsins til þess að geta boðið sem flestum upp á að njóta hennar,“ segir Henrichsen. „Við fitjuðum upp á nýjungum eins og beinu streymi sem við köllum „Við færum ykkur Munch.“ Þar er farið í beinni útsendingu í heimsókn í safnið og við deilum ýmsum fróðleik um mismunandi hliðar listræns ferils Edvards Munch og kynnnum þekktustu verk hans.“

Munchsafnið hefur látið gera stafrænar útgáfur af öllu safninu. Nálgast má öll listaverk Edvards Munch á vefsíðu safnsins, teikningar, bréf og bréfaskipti. Á samskiptamiðlum er ekki aðeins hægt að fara í stafrænar heimsóknir á safnið, heldur einnig hægt að spyrja safnverði spurninga.  Henrichsen segir að viðtökurnar hafi verið afar góðar.

COVID-19, list, Munch
Efi, angist eftir Edvard Munch. Mynd: Munchmuseet.

„Fjöldinn allur af fólki hefur slegist í för með okkur í þessum beinu sendingum af heimsóknum á safnið. 300 þúsund manns tóku þátt í einu af þessum beinu streymum,“ segir hann. „Það er sérstaklega uppörfandi að lesa færslurnar þar sem okkur eru sendar kveðjur og spurningar alls staðar að úr heiminum. Þetta form hefur heppnast mjög vel og við munum halda þessu áfram framvegis.“

Mannleg reynsla  

Safnvörðum á Munchsafninu er mjög í mun að koma því á framfæri að að verk Munchs eru mun fjölbreyttari en angistin sem sjá má í Ópinu. Listform hans var hlutbundið en hann hafði engan áhuga á að líkja eftir útliti fyrirmynda sinan.

Starfsferill hans spannaði sex áratugi og eftir hann liggja þúsund málverk en hann reyndi sig í mörgum stíltegundum áður en hann hafði skapað sinn eigin stíl. Hann notaði tilfinningar sínar og minningar til að fanga reynslu mannsins frá vöggu til grafar.

Ást, angist, ástríða, einmanaleiki, gleði og sorg eiga sinn sess í verkum Munchs og voru strengir sem hann lék á alla ævi.

Munch taldi sig ekkert síður vera mann orða en mynda og lesa má um undirbúning mynda hans í dagbókum. Í einni slíkri skrifaði hann listræna stefnuskrá sína:

„Ég hef í list minni reynt að skilja lífið og merkingu þess. Markmið mitt er að hjálpa öðrum líka að skilja þeirra eigið líf.“

COVID-19, list, Munch
Stein Olav Henrichsen, forstjóri Munch safnsins. Mynd: Munchmuseet.

Henrichsen telur að það geti verið hjálplegt á krepputímum að beina sjónum sínum að listinni og Munch sérstaklega.

„Edvard Munch helgaði sig bæði ljósum og dökkum hliðum mannlegrar tilveru og þeim áskorunum sem við glímum öll við. Í krafi listar Munchs getum við lært ýmislegt um okkur sjálf og tengsl okkar við aðra. Á þessum tímum sem reyna á þolrifin í okkur, getur listin hjálpað okkur að skilja ástandið sem umlykur okkur.”

COVID-19, list, Munch
Adam og Eva eftir Edvard Munch. Mynd: Munchmuseet.

Henrichsen segir að listunnendur geti brátt notið þess sjá stafrænu sýninguna „Tilrauna-sjálfið” sitjandi heima í stofunni og vonast til þess að geta boðið fólki upp á að heimsækja nýtt Munchsafn í Bjørvika í Osló síðar á árinu.

Munch safnið er ekki eina menningarstofnun á Norðurlöndum sem býður upp á nýstárlegar leiðir til að njóta menningar og listar á þessum síðustu og verstu tímum. Hér eru nokkur dæmi:  

Norski ballettinn og óperan  sjá hér.

Konunglega sænska óperan sjá hér

Moderna Museet í Stokkhólmi sjá hér.  

Danska þjóðminjasafnið sjá hér.   

Listasafn Danmerkur sjá hér.   

Kiasma nútímalistasafnið í Helsinki sjá hér.